Þ Ö G G U N

Ég horfði á lokaþátt – a.m.k. fyrstu seríu hins íslenska spennuþáttar um FANGA, eins og væntanlega meginþorri Íslendinga,  í gærkvöldi.   Þar var yfirskrift fréttar STUNDARINNAR,  orðið  ÞÖGGUN.    Þáttaröðin er vel gerð í alla staði, – þar vinna leikkonur áberandi leiksigur, með gífurlega sterkri persónusköpun,  en um leið er handritshöfundur augljóslega mjög næmur á íslenskt samfélag, pólitíska spillingu um leið og „spillingu“  innan fjölskyldu. –
Valdabrölt og ofbeldi.

Magnað var t.d. að sjá  samspil mæðgna og dætra. Ég ætla ekki að fara nánar út í umfjöllun um þáttinn  FANGA hér, – en frekar um þann innblástur sem hann gefur mér – alveg eins og þegar guðspjall gefur innblástur.

Það má segja að orðin FANGAR og ÞÖGGUN kallist á,  því að þegar við verðum fyrir þöggun þá erum við í fangelsi.  Ekki í þessu veraldlega fangelsi,  heldur andlegu fangelsi. –

Ég hef sjálf, á undanförnum árum endurskilgreint orðin  kærleikur – elska – ást – væntumþykja,  og þau þýða í mínum huga m.a. tvennt og er það bæði hlustun og skilningur.    Væntumþykja felst í því að einhver hlustar – kærleikur felst í því að okkur sé veittur skilningur – eða að við skiljum.

Það er fátt erfiðara en að fá ekki skilniing – og/eða hlustun.    Þess vegna eru sálfræðingar, geðlæknar, prestar .. nú eða bara vinkonur, vinir eða fjölskyldumeðlimir svo mikilvægt fólk,   og mikilvægast er að það leggi sig fram við að hlusta og skilja – og gefi sér og þér tíma til að vera til staðar og HLUSTA.

Við könnumst örugglega flest við að hafa orðið fyrir því sem börn að við okkur er sagt: „ÞEGIÐU“..    jafnvel þegar við vorum að gráta. –  Það var svo sem ekki af illu endilega eða ástleysi en frekar af vankunnáttu að foreldri eða annar uppeldisaðili greip í það orð.    En bara orðið veldur því að við getum upplifað hálfgerða köfnunartilfinningu,  við kyngjum sársauka  um leið og við kyngjum grátinum  og það verður eins og hnútur á vélindasvæðinu.   Þetta er amk eitthvað sem ég kannast við.

Þessi orð er oft ekki sögð svona  á svona beinan hátt þegar við erum fullorðin, – en það eru þessi skilaboð samfélagins sem koma úr öllum áttum,  nú eða fjölskyldunnar.  Það eru óskrifuð lög.    Það má svo sem segja að við séum „að missa okkur“  í að segja frá hlutum t.d. opinberlega á facebook, sem í raun öðrum „kemur ekki við“ – en er það okkar að dæma?  Má ekki bara hver og ein/n segja það sem henni eða honum sýnist að segja?   Það er auðvitað með þeim formerkjum að halda trúnað við þau sem trúnaði er lofað, eða fara ekki í hatursorðræðu.  En málfrelsið og tjáningarfrelsið nær býsna langt.

FRELSI er því andstæða ÞÖGGUNAR,  eins og áður hefur komið fram,  – ef við erum bæld eða okkur sagt að við megum ekki segja frá –  kannski um sársauka okkar, nú eða annarra, – jafnvel þó við vitum betur.  þá erum við ófrjáls og þá erum við FANGAR,  og eins og í fangelsinu í þættinum Föngum – þá líður okkur ekki vel, og þá förum við að beita aðra ofbeldi sem eru í fangelsinu með okkur.

Það eru alltar einhverjir einstaklingar  í samfélaginu sem vilja ráða umræðunni,  um hvað má tala og hvað ekki. –   Það eru þeir sem vilja viðhalda einhverju ástandi sem hentar þeim og það á að þegja yfir. –  Það kom berlega fram í Föngum þar sem  setningin „Við leysum okkar vandamál innan fjölskyldunnar“-   ..  en það var viðkvæði ættmóðurinnar,   en það hafði, augljóslega ekki góðar afleiðingar.   Heimilið var hið ríkmannlegasta og glæsilegasta.  Allt pússað og fínt  – og óaðfinnanlegt.  Yfirborðsmennskan réð ríkjum, og frúin í fallegum klæðnaði og stundaði góðgerðarstörf meðal annars.   Hversu margir ætli hafi kannast við týpuna?

Flest eigum við einhvern hlut í þessari yfirborðsmennsku,  „the show must go on.“    Það er svolítið innbyggt í samfélagið okkar.   Þessi grímuveröld,  „brosgríman“  – þar sem við segjum  „það er allt í lagi“  – þegar það er ekki í lagi,  gríma sem getur verið lífshættuleg.   .

Munum að fallegt heimili – og fínt,  og börn klædd í merkjavöru segir ekki til um gæði fjölskyldulífsins.   Sama gildir um svo margt annað þar sem yfirborðsmennska ræður ríkjum.

Það er í raun engum í hag að viðhalda leyndarmálum fjölskyldu, eða stofnunar. Óhamingjan nærist á leyndarmálum,  ljótum leyndarmálum eins og því sem fjölskyldufaðirinn í föngum átti – og ætlaðist til að dóttir hans og dótturdóttir héldi.  Dótturdóttir hans kunni ekki að fara með leyndarmálið og skaðaði sig þess vegna.

Hvers vegna er þöggun? –  Hún er ekki alltaf einungis til að þegja um leyndarmál sem ættu ekki að vera leyndarmál,  heldur til að viðhalda falskri ímynd sem svo marga langar að hafa og halda.  Það er of sársaukafullt að eitthvað sem margir héldu að væri svo fallegt, er ekki eins og myndin.  –  Þess vegna fara margir að reyna að stöðva þann sem segir frá.  😦

„Ekki skemma mína mynd!!“ ..   Ég man,  í þessu sambandi, eftir því að ég var að ræða við fermingarbörn um myndina af Guði. –  Og ég las fyrir börnin texta úr Gamla testamentinu,  þar sem talað var um að  maðurinn væri skapaður í Guðs mynd: „karl og kona“ og bað þau síðan að ræða um sína ímynd af Guði.   Einn drengur brást reiður við,  því verið var að ögra hans ímynd af Guði,  sem karlmanni með hvítt sítt hár og skegg, og  hann barði reiður í borðið og öskraði: „Guð er karlmaður og hana nú“ …    Þetta var hluti hans heimsmyndar og það var vont að ögra henni.

Það eru svo margir sem hanga á ímyndinni,  það er svo sárt að taka niður myndina  sem er búið að halda svo lengi – en margir vita að getur verið fölsk.   Likingin við guðsmyndina nær ekki alveg að virka hér,  því hún er huglæg.   En hvað um heimili?   Er huglægt er ofbeldi er stundað á heimili? –

Þöggun er skaðleg.   Hver skaðast?     Fólkið sem býr á heimilunum skaðast,  og það hafa margir farið særðir frá borði „kærleiksheimilanna“ –  og þurft að leita sér sálfræðihjálpar – eða leita til presta  til að komast yfir afneitun annarra  eða  því að vera „ýtt hljóðlega frá borði“ ..   Margt fólk hefur veikst í svona  aðstæðum – andlega og/eða líkamlega.

Einu sinni voru hjón sem voru virðulegir borgarar í samfélaginu sem drukku bæði stíft. Inni á heimilinu voru átök sem tengdust alkóhólismanum.  Flestir vissu af þessu ástandi en sögðu ekki neitt við þau og léku leikinn með þeim.  Þau voru því alveg viss um að enginn vissi að það væri nokkuð að,  – en það vissu það í raun allir.  Var það þá ekki bara allt í lagi?

Nei – því á þessu heimili voru börn sem liðu fyrir alkóhólisma foreldranna og ofbeldið sem var stundað inni á heimilinu.  Þöggun og yfirborðsmennska þýðir að það verða einhver fórnarlömb sem eru ekki raunverulegir þátttakendur en þau læra að hegða sér eðlilega miðað við óeðlilegar aðstæður –  það kallast MEÐVIRKNI –  en hún þróast í þannig aðstæðum og meðvirkni er vond.    Meðvirkni eða co-dependence  – þýðir að fólk sem er haldið sjúkdómnum meðvirkni ýtir undir eða viðheldur sjúku ástandi.     Það þarf einhver að segja stopp –  það þarf einhver að segja keisaranum að hann sé nakinn. –

Það er ekki góðmennska að segja honum að fötin hans séu falleg þegar hann er ekki í neinum fötum. –   Jú, hann verður kannski sár,   en er ekki betra að hann fái tækifæri til að klæða sig? –

„Vinur er sá er til vamms segir“ – höfum það i huga – svo ekki halda áfram að ÞAGGA niður í vininum. –

Það þurfa ALLIR að fá að tala,   en ef við höfum ekki tíma til að hlusta – eða ekki gefnar aðstæður til þess – þá er úr vöndu að ráða.

Ekki meiri ÞÖGGUN. –  Tölum saman og segjum sannleikann um það sem er ekta.

what-is-real4

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s