Við getum ekki ráðið veðrinu – en við getum ráðið hvernig við klæðum okkur. –
Stundum þurfum við að klæða okkur í þakklæti – því það ver okkur gegn stormum lífsins.
Þegar við upplifum vonbrigði – jafnvel trúnaðarbrest vinar – þá er hægt að verja sig með þakklæti svo það verði ekki eins sárt.
Til hvers erum við komin hér á jörð en til annars en að upplifa, læra og þroskast? ..
„For the cosmos to know it self“ .. eða kannski er það Guð sem er að útvíkka (expand) sjálfan sig með okkar reynslu og lærdómi –
Það að upplifa birtuna í lífinu kennir okkur – og þroskar að einhverju leyti, en það að upplifa myrkrið og brestina þroskar okkur e.t.v. meira. Við getum því þakkað fyrir það fólk sem reynist okkur erfitt, lýgur – flytur jafnvel rógburð. Það eru kennarar okkar í því að standa í fæturnar, standa með okkur sjálfum og þekkja okkur sjálf.
Við lærum seint að standa með okkur sjálfum, ef við fáum ekki tækifæri til að láta á það reyna.
Segjum því bara takk fyrir tækifærin sem utanaðkomandi fólk – aðstæður bjóða okkur.
Við erum ekki það sem annað fólk segir að við séum. – Við getum verið þakklát fyrir að læra það og tileinka okkur það. Alveg eins og við erum ekki stormurinn sem geysar í kringum okkur, ekki nema að við tökum hann inn í okkur og gerum þennan ytri ófrið að innri ófriði. –
Æðruleysið – er þessi ró í stórmi, og æðruleysi er það að láta ekki óróleika, sárindi og biturð annarra ná inn í okkar rými. –
Það er þakklætið sem er lykillinn að því að upplifa hlutina öðruvísi.
Þakka fyrir þau sem leggja þig jafnvel í einelti, þakklæti þegar þú uppgötvar að eineltið snýst ekki um þig – heldur um þau og að þau eru lítil en þú ert stór. Því það eru litlar sálir sem leggja í einelti, sem eru óöruggar um eigin stöðu og þurfa einhverjar axlir til að stíga upp á til að stækka sig og vilja standa á þínum öxlum.
Við getum orðið leið og við finnum líka til – þegar fólk er ósanngjarnt, þegar fólk lýgur, þegar fólk ræðst að okkur, en um leið getum við þakkað því fyrir að kenna okkur hvernig á að bregðast við – þakkað því fyrir að sýna okkur hið særða eðli sitt og í stað þess að við bregðumst við i vörn eða á sama hátt, þá elskum við það til baka, – því við skiljum það.
Skilningur er kærleikur.
Við þökkum fyrir þessa kennara lífsins, við hneigjum okkur fyrir þeim og segjum takk um leið og við óskum þeim alls hins besta og að sár þeirra megi gróa.
Við rísum yfir – þegar þau fara lágt – förum við hátt.
Það er þakkarvert að kunna það, það er þakkarvert að átta sig á því að allt fólk er kennarar. Og það er þakkarvert að kunna að taka við kennslunni.
Til að læra á mátt hugans – þurfum við áskoranir. –
Grátum ekki þessar áskoranir – heldur þökkum þær, því þær eru kennslugögnin sem við þurfum til að styrkja okkur og finna til okkar eigin máttar!
Þakklætið er heilunarafl.