„Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna .. “ prédikun í Skálholtsdómkirkju 26. febrúar 2017.

 

Guðspjall: Lúk 18.31-34
Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

Í lexíu dagsins sem var í spádóms bók Jesaja komu fyrir þessi orð:

„Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,   hver getur sakfellt mig?    …   “

Eftirfarandi umfjöllun var í Fréttatímanum um helgina:
„Bernharð Máni Snædal er litríkur og skemmtilegur 13 ára drengur sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Stundum með bleikt hár, stundum með gloss og jafnvel maskara. Hann vill bara fá að vera hann sjálfur, en skólafélagarnir gera honum erfitt fyrir, að hans sögn. Máni, eins og hann er alltaf kallaður, er einhverfur og greindur með add og kvíðaröskun sem hefur ágerst upp á síðkastið.

 Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna sem uppnefndu hann og áreittu því hann var öðruvísi. Og ekki batnaði ástandið þegar hann kom út úr skápnum fyrir ári.“

 

Við þekkjum það flest hversu mikilvægt það er að standa með sjálfum okkur. –  Ekki þannig að við höfum ekki samlíðan með öðru fólki eða getum staðið með því,  heldur að þegar á reynir – þegar við verðum fyrir árásum, einelti, baktali eða baknagi – að við vitum hver við erum sjálf og hvað við stöndum fyrir.   Þetta vissi Jesús auðvitað –  hann vissi það allan tímann þegar hann var hæddur og húðstrýktur að það var heimska þeirra sem frömdu verknaðinn sem var að verki,  það var lika ótti þeirra sem þekktu ekki betur.    Þeir voru kannski hræddir við mátt Jesú,  sem lét ekki segjast – og hélt áfram að vera hann sjálfur – og fylgja innsæi sínu hvað sem aðrir sögðu.

Það er ekkert auðvelt að standa einn á móti öllum – eða á móti mörgum.  Það gæti verið freistandi – að gefa eftir til að forðast ofbeldið – og segja  „þetta var allt vitleysa í mér“ – bara til að geðjast kvölurum sínum.   En það  var samt ekki rétt.    Þegar upp var staðið – eða í þessu tilfelli getum við kannski sagt þegar upp var risið var það Jesús sem var sigurvegarinn.  Sá sem sigraði krossinn.  Við vitum öll hver Jesús er í dag,  og við sem tilheyrum kirkju hans erum fylgjendur hans og viljum svo sannarlega leitast við að hann sé leiðtogi og um leið fyrirmynd lífs okkar,  eins og við lofum í fermingunni.

Ég ætla að vona að enginn sem til mín heyrir hér í dag,  eigi fyrirmynd í kvölurum hans,  í þeim sem héldu í svipuendana eða voru með háðsglósurnar.

Það er mikilvægt fyrir allar manneskjur að vera vel tengdar sjálfum sér – þannig að þær fari ekki að trúa lygunum sem aðrir leggja upp á þær.  –   Það gerist stundum,  því miður.   Á minni ævi hef ég horft upp á fólk sem trúir því að það sé í raun ómögulegt og alls ekki dýrmæt sköpun Guðs. –  Ég hef stundum trúað því sjálf,  og þess vegna tengi ég við þetta fólk.

Við manneskjurnar erum nefnilega þannig,  að við speglum okkur í öðru fólki.  Bæði í góðu hlutum þess og slæmu.    Við erum samsett af góðu og illu,  en það er okkar sjálfra og í raun engra annarra að ákveða hvað og hvernig við ræktum það góða.

Hver við erum – ákvarðast ekki af öðru fólki.  Hver  Bernharð Máni – hinn 13 ára er, ákvarðast ekki af öðru fólki.   Hver Jesús var ákvarðaðist ekki af þeim sem hæddust að honum,  hvað þau sögðu eða hugmyndum þeirra um hann –   og ef við viljum hafa Jesú sem leiðtoga okkar,  ákvarðast það að sjálfsögðu ekki hver ég er eða hver þú ert af því sem aðrir segja þig vera.

Í Guðspjallinu er talað um  Jesú og þá sem kvelja hann,  og svo er líka talað um lærisveina sem skildu hvorki upp né niður í neinu.   Þeir vissu ekki hvað verða mundi,   enda kannski ekkert skrítið.   –  En Jesús vissi í hvert stefndi og var því æðrulaus og treysti því sem verða vildi.

Við megum reyndar öll vita hvert stefnir og við endum öll eins – þó það verði fyrr hjá sumum og síðar hjá öðrum.   Við rísum öll – að lokum – upp til eilífs lífs.

 

Það er mjög óþægilegt hins vegar þegar okkur skortir æðruleysið – og þegar okkur skortir fullvissuna og traustið. –

Að fara í flug er mjög góð „æðruleysisæfing“ –   það er góð æfing vegna þess að við erum í raun neydd til að treysta flugstjóranum og aðstoðarflugmanninum.   Þegar það var þriðji maðurinn í cockpit eða flugstjórnarklefanum,  eins og það heitir víst á íslensku,  – flugvélstjóri fram í þá má segja að þar hafi verið nokkurs konar þrenning   –  og þó hún hafi ekki verið heilög þá var það þessi þrenning sem farþegar þurftu að leggja traust sitt á. –

Þannig er það að sjálfsögðu með heilaga þrenningu  –  föður –son og heilagan anda,  –  við treystum þeim fyrir lífi okkar.   Og þó það fari ekki eins og við ætluðum – þá treysta því að í lokin fari allt eins og það á að fara. –

Þó að við skiljum oft ekki aðstæður okkar – akkúrat á meðan á þeim stendur – þá skiljast þær þegar stóra myndin skýrist.  Þetta er eins og þegar við sjáum jörðina frá geimnum þá áttum við okkur fyrst á því að hún er hnöttur,  en það er alls ekki hægt að sjá það  þar sem við erum t.d. stödd úti á engi. –

Flestir hafa upplifað eitthvað óskiljanlegt í sínu lífi –   en í mörgum tilfellum hafa þeir náð að hugsa:  „kannski var þetta bara fyrir bestu“ ..    kannski átti þetta að fara svona? –    Ef við erum enn í mótstöðu við það – þá erum við ekki komin með stóru myndina.  –

 

Rifjum aftur upp frásögn guðspjallsins,  það eru kvalarar í guðspjallinu og það er sá sem er húðstrýktur og hæddur.     Hvort  sérð þú þig í hlutverki þess sem ert misskilinn og hæddur – eða sá sem ræðst að öðru fólki – hæðir og húðstrýkir.

Það er kannski ágætt að að líta í eigin barm – og skoða sjálfan sig.  Getur verið að við séum að taka þátt í því að draga dár að einhverjum vegna þess að við skiljum ekki viðkomandi?   Vegna þess að við vöðum í villu – og skilningsleysi eins og lærisveinarnir og gætum því dregið úr dómhörku okkar?   Getur verið að einhver í kringum okkur mætti alveg létta aðeins á dómhörkunni!

Enn og aftur –  enginn er það sem hugmyndir annarra segja um hann eða hana.   Og það er mikilvægt að standa í lappirnar og fylgja sinni sannfæringu – á meðan hún er ekki  skaðleg fyrir aðra, að sjálfsögðu!

„Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna sem uppnefndu hann og áreittu því hann var öðruvísi“…

Þegar við vitum að sjálfur Jesús Kristur var skotmark – og uppnefndur –  þá er gott að hafa það í huga – hvað við – eða aðrir eru að gera þegar þeir eru að hæðast að náugna sínum.  – Jesús sagði að það sem við gerðum á hlut náunga okkar gerðum við honum. – Og einnig líka að það sem við gerðum ekki fyrir náunga okkur gerðum við ekki fyrir hann. –  Verum í liði sigurvegarans,  sigurvegarans sem  er Kristur –  það er í raun alveg sama hvað aðrir gerðu – þeir gátu aldei stöðvað hann né að hann myndi sigra krossinn.   Krossinn er sigurtákn – sigurtákn sannleikans – sigurtákn kærleikans og sigurtákn lífsins yfir dauðanum. –

sigur-kross

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s