Guðspjall: Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. (Matt 28.1-8)
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Stattu ei grátandi gröf mína við.
Ég gisti þar eigi né svefns þekki frið.
Ég er sem vindanna þúsunda þytur,
þýðari en snævarins demantaglitur.
Ég er ljósbrotsins gljáandi gró
og golusúld haustsins í kliðmjúkri ró.
Er rís þú í dögun við roðamjúkt blik,
þá rása ég upp á við, snögglega kvik,
sem hljóðlátir fuglar er hnita svo ótt.
Á himni er ég stjörnuskin mildast um nótt.
Við kistuna mína ei kjökraðu þó;
ég kem þar ei nærri, því aldrei ég dó.
Ljóðið sem ég fór með er eftir bandarísku skáldkonuna Mary Elizabeth Frye (1905-2004) og heitir á frummálinu: „Do not stand at my grave and weep“ – en ljóðið á sér sérstæða sögu. Frú Frye var blómasölukona og maður hennar fatakaupmaður. Árið 1932, þegar ljóðið var samið, bjó hjá þeim hjónum ung þýsk gyðingastúlka, sem hafði miklar áhyggjur af móður sinni, er lá banaleguna í heimalandinu, en stúlkan átti lítinn möguleika á að snúa heim vegna vaxandi Gyðingaandúðar í Þýskalandi. Segir sagan að frú Frye hafi ort ljóðið á brúnan bréfpoka úr verslun til að sefa sorg stúlkunnar, þegar fréttir bárust af láti móðurinnar. Þetta á jafnframt að hafa verið fyrsta ljóðið, sem frú Frye orti; hún hafi litlu bætt við af kveðskap um ævina, aldrei gefið neitt út, en starfað lengst af við blómasölu. Hún hafi dreift ljóðinu handskrifuðu meðal vina og vandamanna, sem kunnu að meta kveðskapinn, en aldrei gefið út á bók né fengið útgáfurétt að því. Eftir 1990 jókst hins vegar hróður kvæðisins og er það nú vinsælt til upplestrar við jarðarfarir, ekki hvað síst á Bretlandi einhverra hluta vegna. Ljóðið er í sjálfu sér titillaust, en jafnan kallað „Do Not Stand at My Grave and Weep.“ Ljóðið er í þýðingu Helga Ingólfssonar, og er flutt með hans leyfi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég les ljóðið í prédikun, enda kallast það einmitt á við mikilvægasta boðskap kristinnar trúar um upprisuna til eilífs lífs. Þessa von sem er gefin þeim sem missa ástvini sína – og þessa von sem er gefin okkur öllum.
Fagnaðarerindið er „Jesús er upprisinn“ .. og ef að sumir mættu ráða – segði ég bara amen og við förum og fáum okkur kaffi. – Þarf nokkuð að segja meira? –
Var eitthvað fleira óvenjulegt í þessari frásögn? Annað en að Jesús var upprisinn – sem er auðvitað það allra stærsta. Hvað með varðmennina, sem hljóta nú að hafa verið þokkalega vel á sig komnir, kannski vopnaðir spjótum? – sem urðu svona svakalega hræddir við engilinn – að talað er um að þeir hafi verið sem örendir, – það má kannski segja að þeir hafi verið „dauð-hræddir“ – það kemur kannski pínku á óvart, miðað við að konurnar hafi þorað að tala við hann – en það sem þykir mjög merkilegt við þessa frásögn í viðbót við upprisuna eru einmitt vitnin – konurnar sem láta vita um upprisuna! –
Boðberar um upprisu Jesú voru konur, – Þessi texti um konurnar – sem virðast hafa hlustað á engilinn sem sagði þeim að vera óhræddar – og sem betur fer voru þær það , hefur verið notaður til að undirstrika miklvægt hlutverk kvenna í guðspjöllunum. – Fyrstu upprisuvottarnir voru konur. Það voru konur sem fyrstar komu að gröf Jesú og sáu að hún var tóm, og fengu að heyra að hann væri upp risinn. Það er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að á þeim tíma voru konur ekki vitnisbærar fyrir dómi!
En Jesús reis upp – og hefði líka risið upp ef það hefðu verið karlar sem urðu fyrstu vitni og boðberar um upprisu. Það er því sigurhátíð lífsins í dag, páskarnir eru upprisuhátíð og stærsta hátíð kristinnar trúar – og hin kristna prédikun – fagnaðarerindið sjálft byggist á þessari frásögn. Hann lifir og þér munuð lifa.
Drottinn Jesús, líf og ljós
oss þín blessuð elska veitir,
öllu stríði loks þú breytir
sæluríkt í sigurhrós.
Mæðu’ og neyð þín miskunn sefi,
með oss stríði kraftur þinn.
Sigur þinn oss sigur gefi,
sigurhetjan, Jesús minn.
Sb. 1871 – Páll Jónsson
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.“
Ég flutti þessa prédikun fyrst í morgunmessu kl. 8:00 í Skálholti, síðan kl. 11:00 í Miðdalskirkju og í þriðja skiptið kl. 16:00 í Úthlíðarkirkju.
Þar sem mikið var um börn í Miðdalskirkju útskýrði ég ýmislegt – eins og t.d. hvað það er að vera örendur. – Það er mikilvægt að börnin skilji. – Það var ekki fyrr en í þriðju messunni, þ.e.a.s. í Úthlíð að ég áttaði mig á að það væri þrjár Maríur í prédikuninni, María Magdalena, María hin og svo Mary Elisabeth Frye!
Takk elsku hjartans JÓHANNA 🙏