Guðspjall: Jóh 20.11-18
En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.
( Prédikunin var miðuð við fermingarbarn, þar sem barn var fermt í messunni og margir unglingar og börn í kirkjunni ).
Náð sé með yður frá Drottni Jesú Kristi. Amen
Hefur þú einhvern tímann týnt einhverju – leitað og leitað – og svo uppgötvað að það var beint fyrir framan nefið á þér? Eða kannski á nefinu á þér – ef það hafa verið gleraugu? – Það hefur alla veganna komið fyrir mig. –
Ef að svona getur gerst með hluti, – hvers vegna ætti það ekki að geta gerst með fólk? –
Hvað ef að víð erum að leita eftir Jesú – en í raun er hann alltaf hjá okkur? Beint fyrir framan nefið á okkur kannski? –
Ein mikilvægasta lesning – sem kemur úr öðru guðspjalli er um það að við mætum Jesú á hverjum degi – ekki endilega eins útlítandi og við sjáum hann fyrir okkur, – sem karlmann með sítt hár og í hvítum kufli. Heldur birtist hann okkur í því fólki sem við umgöngumst frá degi til dags. Hann birtist okkur í þeim sem hjálpa okkur – og sem hugga okkar – en líka í þeim sem við hjálpum eða huggum. Hann birtist okkur í okkar minnsta bróður. –
Menn sem voru fullir sjálfsréttlætingar sögðu að þeir hefðu alltaf verið góðir við hann. En hann sagði að þeir hefðu séð hann hungraðan og heimilislausan – en ekkert gert í því. Þeir könnuðust bara alls ekki við það, en þá svaraði Jesús þeim:
„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ Og einnig talaði hann um að það sem þeir hefðu ekki gert fyrir hans minnstu bræður – eða systur, hefðu þeir ekki gert fyrir hann.
María Magdalena hélt að hún hefði verið að tala við grasgarðsvörðinn, en svo var það Jesús Kristur sjálfur. –
Það er svolítið skrítið að horfa í kringum sig – og kannski betlarann á götunni, – og hugsa: „Ætli þetta sé Jesús?“ –
Á fésbókinni er ýmsu efni dreift og m.a. þessu:
„Everyone you meet is fighting a battle you know nothing about. Be kind. Always“ .. og þetta má þýða:
„Allar manneskjur eiga í einhverri baráttu sem við vitum ekkert um. Verum góð. Alltaf! .. „ – Það er verið að segja það sama og Jesús segir, bara á annan hátt. –
Þegar við förum að hugsa svona, – þá förum við líka að leggja okkur fram við að skilja náunga okkar. Hvers vegna er þessi að lemja? Hvers vegna er þessi að leggja í einelti? Hvers vegna er þessi með hroka? – Öllum þessum spurningum má oftast svara með: „Þessi manneskja er eitthvað særð, veik, óörugg eða bara kann ekki samskipti.“
Þegar við horfum á fólk með það í huga að það sé í einhverri baráttu, kannski einhver veikur í fjölskyldu þess, eða annað .. sem við vitum ekkert um, þá hættum við að óttast þetta fólk förum að fá samkennd með því eða kannski vorkenna. – Og þó við skiljum ekki hegðun þess, þá skaðar aldrei að senda þeim kærleiksríka bæn eða hugsun. –
Hvað gerir þetta fyrir okkur sjálf? – Það er talað um að ef við erum alveg brjáluð af reiði út í einhvern, þá sé það eins og að halda á kolamola og vona að þessi sem við reiðumst útí brenni sig. –
Hvað þá ef við erum kærleiksrík út í einhvern. Og höldum á heilandi kærleiksneista í höndinni. Hvað gerir það okkur? – Það hlýtur að styrkja okkur. Svo hverju eða hverjum sem við mætum, verum góð, verum kærleiksrík, því hver veit nema að það sé Jesús sem við mætum? Við höfum ekki týnt Jesú, Jesús er upprisinn – og hann er hér meðal okkar. Kannski ekki eins og við héldum að hann væri – en í svo mörgum öðrum myndum.
Fermingarbörnin sem eru að fara að játast því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns geta haft það í huga að Jesús var maðurinn sem sagði folki að dæma ekki, svo það yrði ekki dæmt sjálft. Það að hafa Jesú að leiðtoga þýðir að Jesús er fyrirmynd, og fyrirmyndir eru besti leiðtoginn. Það er erfitt að trúa fólki sem segir eitt og gerir það ekki sjálft. Jesús tók yfirleitt málstað þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu, oft þeirra sem voru útskúfaðir. Jesús hlustaði á rödd hjartans og sitt innsæi – hann lét ekki lög og reglur um hvíldardaga hindra sig í að lækna fólk. Jesús var og ER frjálslyndur og umburðarlyndur, kærleiksríkur og það er alltaf gott að minna sig á hversu dásamlegan leiðtoga við sem nú þegar erum ferm til kristinnar trúar höfum valið okkur.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.