Í sjöunda himni – prédikun á uppstigningardegi og degi aldraðra – 2017.

 

Lexía: Slm 110.1-4

Pistill: Ef 1.17-23

Guðspjall: Lúk 24.44-53

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

 

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur

þá gleðin skín á vonarhýrri brá?

eins og á vori laufi skrýðist lundur

lifnar og glæðist hugarkætin þá;

og meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að bestu blómin gróa.

í brjóstum sem að geta fundið til.

 

Ég held að allir sem komnir eru yfir fimmtugt og kannski mun yngri … hafi á einhverjum tímapunkti í sínu lífi sungið Vísur Íslendinga,  en það var auðvitað þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sem samdi þær árið 1835  –  Handritið er ekki til,   en frumprentun var á litla örk með fyrirsögninni „Vísur Íslendinga sungnar í Hjartakers – húsum,  27da júní 1835 í Kaupmannahöfn.  –  Var þetta sungið við heimför Halldórs Einarssonar sýslumanns og annarra landa.

Við syngjum þennan söng þegar við mætumst á hátíðarstundum eins og árshátíðum eða þorrablótum.  –  Margir hafa e.t.v. komist í sjöunda himin við að gleðjast saman með opnum hjörtum sem geta fundið til –   en þegar við lesum sögu Daganna eftir Árna Björnsson,   stendur þar einmitt að karlmenn – þó ekki á Íslandi – heldur á Norðurlöndum hafi á Uppstigningardegi,  lyft glösum til að komast í sjöunda himin og hafi þar með verið að líkja eftir uppstigningu Jesú.

 

Uppstigningardagur er eins og við vitum einn af helgidögum þjóðkirkjunnar og er jafnframt helgaður eldri borgurum landsins,  en því var komið á í biskupstíð Péturs Sigurgeirssonar  og þeir eiga það meira en skilið þó við megum ekki gleyma því að allir dagar eru dagar eldri borgara.

Uppstigningardagur er fimmtudagurinn fjörtíu dögum eftir páska,  sem í dag,  árið 2017 er 25. maí,   og nú 25. maí er komið sumar á Íslandinu góða  – og allt er að lifna við og gróðurinn verður svo fallega grænn og ilmandi í regninu   ..  og margir eru farnir að huga að görðum sínum, – eða setja sumarblóm í potta.

Þegar við setjum niður jurtir – þá þarf jarðvegurinn að sjálfsögðu að vera  ríkur af næringu. –

Í huga skáldsins er næringarríkt hjarta –  hjarta sem finnur til.  Og þar vaxa einmitt bestu blómin. –

Páll postuli talaði líka um hjartað  – og við heyrðum lesið úr pistli dagsins:

„Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til.

 

Nokkrum sinnum í vetur hef ég gripið í spekina úr sögunni um Litla Prinsinn, –  sem kallast á við þessa sjón hjartans sem Páll postuli nefnir.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.“ Segir í sögunni um Litla prinsinn.

 

Hvað ef við nú snúum þessu við? –  Hvað ef við lokum hjartanu –   getur verið að við verðum upptekin af því sem kannski skiptir engu máli.

Getur verið að við stöndum á miðju engi fegurðinnar –  og sjáum hana ekki?   Sjáum ekki fjöllin,  ekki iðgræn túnin – eða  blómabreiður.
Ég trúi því einlæglega að eftir því sem aldurinn færist yfir,   lærum við að meta það sem raunverulega skiptir máli.    Við sjáum með hjartanu og við sjáum það mikilvægasta.   Við þekkjum það vegna þess að við höfum e.t.v.  fundið það í hjörtum okkar þegar við höfum misst nána ástvini, –    að við erum með hjörtu sem finna til.    Og í stað þess að herða hjörtun,   þá látum við minningu þeirra sem farin eru verða að fallegum blómum. –

Aldurinn og reynslan –  kenna okkur að  virða fyrir okkur lífið og við VITUM  að  bestu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir.   Það besta og mikilvægasta í lífinu er heilsan okkar og fólkið okkar.

Það mikilvægasta er líka  að læra að vera glöð og sátt –  vegna þess að það fallegasta og besta er ókeypis – það er náttúran og kærleikurinn –  og við lærum að meta lífið –  án þess að þurfa mikið af þessum veraldlegu gæðum.

Við lærum hver hinn sanni auður og ríkidæmi er.

 

Margir tala um lífið sem einhvers konar skóla, og segjast jafnvel vera nemendur í skóla lífsins,  og svo má líka tala um lífið sem ævintýri –   og í ævintýrum er það barátta góðs og ills sem er allsráðandi.   Þannig er líka lífið okkar.    Við getum lent í alls konar,  bæði góðu og illu og mætt góðu og illu,  en við erum þau einu sem getum ráðið hvort að við sjálf  ræktum  hið góða eða hið illa.    Þá er enn og aftur að huga að jarðvegi hjartna okkar  –   leyfa okkur að vera til og finna til,  og rækta þar dásamleg ilmandi blóm í öllum veraldinnar litum –  og jafnvel upplifa þannig að vera i sjöunda himni! –

Jesús skildi okkur ekki eftir munaðarlaus,    Jesús skildi lærisveina sína eftir með andann  eins og Guð hafði lofað þeim  –    og við sem  kristið fólk tilheyrum að sjálfsögðu lærisveinahópi Jesú Krists og þiggjum heilagan anda –  anda friðar, anda kærleika – og síðast en ekki síst anda GLEÐI.

 

Fögnum og verum glöð – við höfum tilefni til að vera í 7unda himni og uppnumin –     eins og karlarnir á Norðurlöndum forðum daga.

Við heyrðum hér í upphafi lesið fyrsta erindið í Vísum Íslendinga,   svo það er viðeigandi að ljúka þessari  prédikun hjartans  –  með lokaerindinu –  og hugsum okkur – að vínið sem þarna er um rætt sé það sem við þiggjum  við heilaga kvöldmáltíð – og það sé sjálfur Kristur – sem geri okkur uppnumin!   Við komumst í sjöunda himin með Kristi!

Látum því, vinir! vínið andann hressa

og vonarstundu köllum þennan dag

og gesti vora biðjum guð að blessa

og best að snúa öllum þeirra hag –

því meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að bestu blómin gróa

í brjóstum sem að geta fundið til.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

min_c_ac1

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s