Eru ófriðar tímar hjá okkur? – Eru hryðjuverk um allan heim – og eru þau að nálgast okkur landfræðilega? – svarið er eflaust já. Og það er líka rétt að það er mikið af ófriði og voðaverkum sem ratar ekki í fjölmiðlana okkar. – Ef við fylgdumst með því öllu þá entist okkur ekki tíminn í sólarhringnum. –
Sem betur fer er líka verið að gera kærleiksverk út um allt, bæði í fjarlægum löndum og nálægt okkur. Fólk er að ástunda kærleika og njóta friðar. – Hvort er mikilvægara fyrir okkur? –
Auðvitað látum við okkur málin varða, það snertir við okkur þegar saklaust fólk – menn, konur og börn verða fyrir ofbeldi af hvaða tagi sem það er.
Það er þó mikilvægt að gera ofbeldið ekki að aðalefni. Það væri eins og við værum á veitingastað og velja okkur mat til að borða. Ofbeldi í forrétt, hryðjuverk í aðalrétt, misrétti í eftirrétt.
Myndum við velja það? –
Andleg næring er mikilvæg – og við verðum sjálf að bera ábyrgð á því hvað við setjum ofan í okkur. Þess vegna er svo mikilvægt að velja t.d. Frið í forrétt, kærleika í aðalrétt og jafnrétti í eftirrétt. –
Ef við pælum í því hvar við erum stödd akkúrat núna, – og hugsum „Get ég notið friðar?“ Ef við svörum neitandi – að við getum það ekki vegna þess að það er ófriður annars staðar – þá erum við ekki til staðar fyrir okkur sjálf. – Hvað ef að ófriðurinn færðist heim til okkar, akkúrat til Íslands – eða á þann punkt sem við stöndum. Myndum við vilja að fólk í fjarlægu landi nyti ekki friðar í sínu heimalandi og myndum við heimta að því liði jafnvel illa – vegna þess að okkur liði illa? –
Lífið er alls konar, – sorg og gleði – skin og skúrir. Einn daginn rignir hjá okkur og sól annars staðar og öfugt. Vissulega meiri sól sums staðar og minni annars staðar, en það er önnur umræða. –
Við látum okkur náungann varða, en við gefum ekki ofbeldismönnum valdið yfir okkur og okkar líðan. Látum þá ekki ræna okkur því að geta notið friðar á þeim stað sem friðsældin er.
Verum eins og fiðrildin sem blakta vængjunum – og látum friðinn ferðast frá okkur – hringinn í kringum heiminn og til baka. –
Friður sé með þér! ❤