Spenntur var hann fyrir hverja leiksýningu hjá leikfélagi Sólheima, hann Árni Alexandersson sem renndi sér fyrir framan sviðið á „tryllitækinu“ rafknúna hjólastólnum sínum – og blikkaði ýmsum ljósum. –
Rullan var vel æfði, en þó ég kunni hana ekki alveg þá man ég að hún var einhvern veginn á þennan veginn: „Góðan dag, ég heiti Árni Alexandersson og er legómeistari Íslands, nú er að hefjast sýningin Ævintýrakistan, – vinsamlega hafið slökkt á farsímanum“ .. Árni hafði það fasta hlutverk að vera kynnir og eins og áður – var hann kynnir á Ævintýrkistunni, leikritinu sem var sett á fjalirnar nú síðast – en það var líka í síðasta skiptið sem ég hitti þennan einstaka mann, eða 30. apríl sl.
Það var svo að morgni 1. júní sl. að ég fékk skilaboðin um að Árni hefði orðið bráðkvaddur þá um nóttina.
Ég kynntist Árna í nóvember 2014 þegar ég fór að vinna á Sólheimum, en þar starfaði ég þar til í ágústmánuði 2016. Frá 1. janúar það ár starfaði ég sem prestur staðarins, og það var ekki síst í messunum sem ég minnist Árna. Árni hafði frá svo miklu að segja, og stundum var það því þannig að hann tengdi vel við umfjöllunarefni prédikunarinnar og einu slíku atviki langar mig að segja frá hér. – Það var þannig að á laugardagkvöldi fyrir messu, nánar til tekið 23. janúar 2016, – hafði ég séð bíómynd um dreng sem fór á spítala eftir að uppgötvaðist að sprungið hafði í honum botnlanginn, – hann „dó“ – eða læknarnir héldu að þeir hefðu misst hann, en hann kom til baka og þegar hann kom til baka lýsti hann einhvers konar himnaríki. – Myndin heitir „Heaven is for Real.“ –
Ég skrifaði smá klausu um þessa upplifun drengsins inn í prédikuna mína, en ég var varla byrjuð að tala í prédikunarstól þegar Árni færði sig örlítið nær í stólnum sínum, og fór sjálfur að segja frá þessari mynd og þessum dreng – og hvað hann var hrifinn af því hvað hann hefði séð margt fallegt í himnaríki, og í raun fór hann með ágætis frásögn um þessa upplifun.
Eins og ávallt þegar Árni sagði frá var það einlægt og fallegt, svo það var bara bónus að fá hann sem „meðprédikara“ í messunum á Sólheimum.
Síðar þegar ég fór að prédika í ræðustól í Skálholtsdómkirkju, saknaði ég stundum Árna – sem bætti upp prédikanirnar mínar. –
Árni var ekki bara góður prédikari, – líf hans var prédikun. Hann var oft kvalinn af verkjum, – og líkaminn ekki alveg að þjóna honum eins og hann gerir okkur mörgum sem höfum fætur og hendur sem virka 100% … Þó fingur Árna væru krepptir – notaði hann þá m.a. til að stýra „bílnum“ sínum – og fór hann stundum auka hring um svæðið til að viðra sig. – Hann var líka ótrúlega seigur að aka í gegnum skaflana þegar fór að snjóa – og það sem kannski einkenndi hann var að hann lét fátt hindra sig í lífinu. Hann var ekki að hugsa: „Hvað get ég ekki gert?“ heldur „Hvað get ég gert?“.. – og það var margt sem Árni gat gert – ekki síst vegna jákvæðs hugarfars.
Þar sem hann gat mögulega komið því við var hann mættur! – Vissulega stundum með hjálp góðs starfsfólks Sólheima, sem þjónaði honum með gleði – einmitt vegna þess hvað hann var oft auðmjúkur og manni þótti bara ósjálfrátt vænt um hann. – Starfsfólk á heimili Árna, þar sem hann var búsettur síðustu árin, í Bláskógum – á miklar þakkir skilið fyrir frábæra ummönnun, og allir þeir sem áttu þátt í að auka lífsgæði þessa stórkostlega manns.
Árni var einstakur og það er stórt skarð hoggið í samfélagið á Sólheimum með missi hans, – en ég veit að hann trúði á himnaríki – eins og við sáum í fallegu bíómyndinni – og það eru margir góðir sem taka á móti honum þar, þar á meðal íbúar sem fóru á undan honum, mörg sem voru honum kærir vinir. –
Vinsamlega slökkvið á farsímanum – Himnaríki er raunverulegt – góða ferð heim í kjarnann þinn elsku Árni – legómeistari Íslands.
Hafðu þökk fyrir allt og allt – og ef að ég verð vör við hvíta fjöður – þá veit ég það ert þú … þú veist hvað ég meina. ❤
Ég votta Dísu, kærustu Árna – og aðstandendum öllum og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.