Það er engin heilun sem næst með ásökunum. Það þýðir ekki að það séu til orsakavaldar að því hvernig við erum eða hvað við gerum, en þá er ágætt að skoða þessa orsakavalda og hvað við getum gert varðandi þá.
Segjum að við höfum alist upp við alkóhólisma, jafnvel mamma og pabbi bæði hafi verið alkóhólistar. – Eigum við, fullorðin, að ásaka þau? – Breytir það einhverju fyrir okkur. Flytur það okkur áfram upp á næsta plan – hærra hamingjustig? – Væntanlega ekki, EN það þýðir frekar að við getum gert okkur grein fyrir því úr hvernig umhvefi við komum, – og þó við höfum í raun verið varnarlaus gagnvart þessu sem börn, eða jafnvel búð til varnir sem breyttu okkur – (eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum) þá þýðir ekki að sakast við það lengur, því við breytum ekki fortíð. –
Þess vegna, er gott – í stað þess að fara í ásökunargírinn og viðhalda þess vegna einhvers konar barni sem er sært af foreldrum, að taka ábyrgð sem fullorðnir einstaklingar og hugsa „hvað get ÉG gert?“ .. Get ég núna tekið völdin í mínu lífi? Eru aðstæðurnar breyttar? – Hver ber ábyrgð á mér sem fullorðnum einstaklingi? – Vissulega eru það ekki lengur foreldrarnir, en ef við myndum halda fast í ásökunin þá værum við að viðhalda þessu gamla mynstri og gera þeirra vanvirkni og sjúkdóm að okkar. –
Þarna þarf að sleppa tökunum – ekki ásaka, heldur bara skilja og halda áfram. –
Þetta var eitt dæmi. Svona er líka í samböndum fullorðinna einstaklinga. Hvað ef að við erum í sambandi með ofbeldisfullum einstaklingi? – „Það ert þú sem meiðir og það er þú sem gerir lífið mitt óbærilegt“ .. myndum við segja við þann einstakling, er það ekki? – A.m.k. í huganum. En ef við lítum í eigin barm og spyrjum; „Hvað veldur því að ég er í sambandi með ofbeldismanneskju?“ .. Þarna væri auðvelt að stökkva yfir í aðra ásökun og það er sjálfsásökun. „Ég á kannski ekkert betra skilið?“ .. Eða: „Ég er nú meira fíflið að láta bjóða mér þetta“ .. Verður bati úr þessu? – Nei, vald ofbeldismannsins eykst (þetta vökvar hans vanvirkni) og sjálsásökun og skömm minnkar okkar eigið vald og gerir okkur veikari, þannig að við verðum oft föst í svona sambandi. Það er ekki fyrr en ásökunum linnir að batinn hefst. Ekki ásaka NEINN, bara skilja. Yfirleitt eru einhverjar orsakir fyrir því hvernig ofbeldismaður hegðar sér, og það eru líka orsakir fyrir því að einhver tekur við ofbeldinu, og kennir jafnvel sjálfum sér um. – En ef við tökum ásakanir út – og hugsum bara „hvað á ég skilið?“ Þá er það vissulega ekki ofbeldi. ENGINN á það skilið.
Alveg eins og barn alkóhólistanna tekur valdið og ábyrgðina í sínar hendur þegar það er orðið fullorðið – vegna þess að það veit að foreldrarnir hafa það ekki lengur, þarf manneskja í ofbeldissambandi að taka ábyrgð og vald á sínu lífi í sínar hendur. Þess vegna þarf að segja – hingað og ekki lengra, – fara úr sambandinu eða óska eftir þriðja aðila til að ræða hvort hægt er að laga þetta vonda samskiptamynstur. Í stað þess að sitja kyrr og ásaka, þá þarf í raun að GERA eitthvað.
Ef bíllinn okkar er bensínlaus – þá er alveg sama hversu lengi við sitjum og skömmumst yfir því að makinn hafi gleymt að setja bensín á bílinn, eða við sjálf. Bíllinn mun ekki keyra.
Ásakanir koma okkur ekki áfram, þær geta hins vegar grafið okkur dýpra og fastara í eitthvað kviksyndi – og þá verður enn meira átak að komast upp úr þegar við loksins hættum!! –
Hún er svolítið kaldranaleg þessi mynd sem fylgir með – en segir samt í stuttu máli það sem hér stendur að ofan. Við höfum oft ekki val um það hvað hendir okkur, en við höfum val um viðhorf. ❤