Hvert líf er þakkarvert .. hversu stutt sem það varir …

Það er sumt sem við viljum ekki hugsa um.   Eitt af því er dauðinn.   Þessi endalok líkamans.

„Af jörðu ertu komin/n ….   Af jörðu skaltu aftur upp rísa.“ 

Hvað er það sem er af jörðu komið – og hvað er það sem rís upp? ..   Ég ætla ekki að fara dýpra  út í það hér í upphafi,  en þessa spurningu sem ég set ég fram sem hugvekju,   svara ég fyrir mig,   síðar í pistlinum –  en  það er líka gott að finna svörin sjálf – hvert og eitt fyrir okkur.

Það sem ég ætla að ræða er ekki bara dauðinn – þessi, jafnvel langþráði,  sem kemur þegar manneskja hefur lifað langa ævi og eins og stundum er sagt í útfararræðum „Er södd lífdaga“ ..   Ef við viljum ekki hugsa um dauðann,  eins og ég skrifaði hér að ofan,  þá viljum við ALLS EKKI hugsa um það sem kalla má „ótímabæran“  dauða.  Dauða barna,  dauða barna í móðurkviði,  dauða unglinga,  dauða ungs fólks „í blóma lífsins.“  –   Foreldra sem deyja frá ungum börnum,  o.s.frv. –

Ég var eins og aðrir,  vildi ekki hugsa þetta, en svo var ég þvinguð til þess.  Kannski fyrst þegar pabbi dó,  þegar ég var sjö ára,  – þá fékk ég að kenna á þessu óréttlæti lífsins,  dauða foreldris í blóma lífsins,  42 ára drukknaði hann á sólarströnd á  Spáni, frá konu og fimm börnum.   Ég er bara nýlega búin að fara í gegnum það í dáleiðslu – að ég upplifði höfnun.   Já, eins og pabbi hefði hafnað okkur  (systkinum og mömmu)  með því að „fara.“ –     Það er órökrétt,  en samt eitthvað sem setið hafði í mér í öll þessi ár. –

Ég kvaddi mína bestu vinkonu árið 2008 –  en  hún lést úr krabbameini,  eins og reyndar nákomin frænka og önnur vinkona síðar.    Allt ótímabært,  a.m.k.  miðað við  reglur eða lögmál okkar mannfólksins um hvenær dauðinn á að koma.    Miðað við okkar reglur eigum við að fara í réttri röð.    Þau sem koma á undan eiga að fara á undan.   Þannig er það í okkar huga, en eins og við vitum er það bara ekki þannig,   þannig virkar ekki lífið ……. og ekki heldur dauðinn.

Stóri skellurinn – kjaftshöggið –  í mínu lífi voru veikindi og dauði dóttur minnar áramótin 2012/2013   Aðdragandinn var svo erfiður að ég fæ ennþá „flashback“  myndir frá spítalanum og öll örvæntingin sem ég og við aðstandendur hennar upplifðum þegar heilbrigðisstarfsfólk var að reyna sitt besta til að bjarga henni, en ekkert gekk.   Jú, það gekk smá –  við eygðum von,  og endurtekið var vonin glædd,  og aftur .. þar til hún slokknaði alveg.
Dauðinn kom samt –  næstum eins og blessun,  miðað við það sem á undan var gengið.  Já, skrítið að skrifa þetta og segja upphátt,   en  grimmur aðdragandi varð til þess að manni fanns dauðinn lausn.   Þegar ég heyri í fréttum að einhver hafi dáið – og ekkert þjáðst,  þá hugsa ég oft: „mikið er það gott“  – en um leið minnir það mig á  að svoleiðis var það ekki hjá stelpunni minni,  OG okkur ættingjum,   því það að horfa upp á þau sem við elskum veik og  í vanlíðan er líka þjáning,  mjög mikil reyndar. –   Vanmátturinn verður varla meiri.

Það eru samt – ljósir punktar við að fá að kveðja á þennan máta.   Að okkar nánasta sé ekki hrifið burt „á snöggu augabragði“  eins og segir í ljóðinu –  og það er tækifærið til að kveðja – tækifærið til að segja það sem var ósagt.   Það tækifæri fékk ég,  og fyrir það er ég ævinlega þakklát og þó að þetta hafi verið verstu vikur lífs míns,  voru þær líka – ekki bestu – en samt eitthvað gott og ljós í þeim.     Við Eva göntuðumst og gerðum grín að starfsfólkinu – svona þegar hún var „uppi“  eða vel verkjastillt,   við töluðum um ástina og lífið og það sem skipti máli í lífinu. –    Þessar tvær vikur voru e.t.v. stærsti skóli sem ég gat fengið og dóttir mín þess vegna minn besti og stærsti kennari.       Þetta var „námskeið“  – eða vegur sem ég valdi ekki,   en  ég lærði samt mikið og er enn að læra. –

Eva er enn að kenna mér  (og okkur öllum sem hún elskaði og elskuðu hana). 

Eva sagði orðrétt:  „Það verður allt í lagi með mig en þið munuð gráta“ ..      Þessu mun ég auðvitað aldrei gleyma.   „Það verður allt í lagi með mig“ ..    Hún var ekki bara að segja þetta um sjálfa sig,  heldur öll þau sem deyja.    Það er auðvitað ómetanlegt. –

Nú hef ég notað orðið „dauði“ og „deyja“  margoft  en í Biblíunni stendur að það sé enginn dauði,  og  svo er það þetta með upprisuna.  –  Þá erum við komin aftur að spurningunni:  „Hvað er það sem rís upp?“ –   Ég svara því að það sé sálin – þessi ódauðlega og eilífa. –

Og nú komum við að fyrirsögninni:

„Allt líf er þakkarvert,   hversu stutt sem það varir“ ..

Um leið og líf kviknar í móðurkviði  – er það orðið eitthvað fyrir einhverjum.    Það er orðið líf fyrir mömmu og líf fyrir pabba og svo kannski afa og ömmu – systkini – frænkur – frændur  o.s.frv. –

Ég hef verið þvinguð til að hugsa þetta með lífið í móðurkviði –  sem „deyr“  eða fer og þá kemur upp spurningin: „Til hvers?“ ..     Er tilgangur með þessu lífi? –    Er hægt að þakka þetta líf? –   Var þetta eitthvað líf?

Sál þessa lífs,   þessara sálna – er jafn stór og sál þess lífs sem lifir í 100 ár hér á jörðunni.   Það er s.s. ekki lítil sál í litlum búk,  heldur stór.    Þess vegna hefur þessi sál áhrif á þau sem eru henni tengd og hún mun ALLTAF verða til staðar.     „Það er enginn dauði“ ..   Þau sem hafa misst litlar manneskjur,  lítið barn í móðurkviði eða bara nokkurra daga – mánaða eða ára,  VITA að þessar sálir eru stórar.   Þau eru ekki síður kennarar en Eva mín var kennari fyrir mig.   Hún lifði í 31 ár  í sínu jarðneska formi og var stórkostlegur kennari og þess vegna er ég þakklát.

Hvað vilja sálirnar –  þessar sem eru umvefjandi kenna okkur? –    Börnin okkar sem eru farin?  –    Þau vilja kenna okkur að við höfum alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir,  þau vilja kenna okkur að vera ekki hrædd,  og að gera allt á forsendum kærleikans en ekki óttans.    Þau vilja kenna okkur  að lifa ekki í eftirsjá  – vegna þess að þá sjáum við ekki það sem er í kringum okkur NÚNA –   kannski eitthvað eða einhver sem við erum ekki að njóta vegna þess að við erum svo upptekin við að horfa á það sem gerðist.  –

En ef við lítum upp og allt í kring,   þá megum við vera þess fullviss að „kennararnir okkar eru ekki farnir lengra en eina hugsun í burtu.   Hvað tekur langan tíma að kveikja hugsun?

Það hefur bæst í minn kennara hóp á síðastliðnum vetri,  en það voru ungar manneskjur sem ég „kynntist“  eftir að þær voru dánar.    Já,  mér var falið að jarðsyngja þær.   Ungan mann fyrst  og síðan barn sem var andvana fætt. –    Þó ég hitti þetta fólk ekki í jarðnesku lífi,  eru þau „ljóslifandi“ fyrir mér  –  þau eru lifandi fyrir mér  VEGNA þess að sálin deyr ekki.    Það er það sem átt er við með  „Það er enginn dauði“ ..  Þau eru líka lifandi fyrir mér vegna þeirrar ástar sem ég sá að fjölskyldur þeirra báru til þeirra,   þau lifa í sínum ættingjum.    þessu fólki hef ég líka tengst að eilífu,  vegna þeirra.

Lífsins skóli er erfiður og við sem höfum gengið í gegnum það að horfa á eftir fólkinu okkar í dauðann –  líka þeim sem okkur hefði fundist eiga að fara á eftir okkur, –  við erum  að læra.     Í lífsins skóla,  eins og öðrum skólum,   stöndum við okkur misvel.   Ef við skiljum ekki lífið og dauðann,  eftir að hafa gengið í gegnum svona erfiða lífsreynslu og skiljum ekki að lífið hlýtur ekki okkar eigin lögmálum eða reglum, –   þá höfum við kannski ekki alveg náð þessu. –

Jesús var búinn að ná þessu.

„Ég lifi og þér munuð lifa“   ….    Jesús „dó“ fyrir löööngu síðan en hann er enn að, –  okkar fólk er líka að!       Það er ekki aðeins minning  sem lifir  –  það er svo margt annað,  sumt óskiljanlegt – en leyfum okkur að finna fyrir gleðinni yfir lífinu,   þrátt fyrir „svokallaðan“  dauða,   því fólkið okkar hefur sigrað dauðann …

Þakkir fyrir líf þeirra –  hið eilífa líf.

Líf

(Allt sem hér er skrifað – kemur til mín á einn eða annan hátt)  –  Ég vona að ekkert af því sem ég skrifa meiði einn né neinn,  ég skrifa mína reynslu,  kannski er þín öðruvísi).

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s