„Ég skil þig“ sagði konan við vinkonu sína, en vinkonan hugsaði með sér: „hún meinar vel, og vill skilja – en hún getur ekki skilið“ .. og brosti út í annað. –
Engar tvær manneskjur hafa nákvæmlega sömu sögu, bakgrunn, aðstæður .. og þess vegna getur engin sett sig í annarra spor að öllu leyti, þó það sé auðvitað að einhverju – eða miklu leyti. –
Það eru margar breytur í okkar lífi sem koma að því hvernig okkur líður eða hvernig við upplifum hlutina. Það að sjá snúð með bleikum glassúr í bakaríi – getur virkað eins og „að sjá snúð með bleikum glassúr í bakaríi“ fyrir eina manneskju og ekkert meira um það að segja , en það getur verið einhver minning sem tengist við það hjá hinni manneskjunni, – þessi snúður getur hafa verið uppáhalds hjá einhverjum sem er farin/n og það vekur ljúfsárar minningar. Svona er ekki hægt að skilja nema vita og við getum ekki verið inni í höfðinu á neinum nema sjálfum okkur. –
Áföllin okkar raðast upp eins og turn – og turnarnir okkar eru ólíkir. Sumir eru að upplifa það í fyrsta skipti að náinn ástvinur fellur frá þegar þeir eru komnir á miðjan aldur á meðan aðrir hafa misst marga á miðjum aldri. –
Þegar fólk hefur gengið í gegnum síendurtekin áföll – má segja að það verði „veðrað“ .. kannski eru línurnar og jafnvel hrukkurnar í andlitinu saga um það sem gerst hefur – en stundum sést það ekkert utan á fólki.
Skiljum við annað fólk og það sem það er að ganga í gegnum? – Vissulega að hluta. Foreldri sem hefur horft á eftir barninu sínu í gröfina – skilur annað foreldri .. að hluta .. sem gengur í gegnum það. En aldrei alveg, vegna þess að þau eru með sína fortíð, sinn „áfallaturn“ eru á mismunandi tíma, með mismunandi bakland o.s.frv. –
Vegna þessa alls – þessa takmarkaða skilnings er gott að eiga Guð sem skilur ALLT. Það er þannig sem ég sé Guð – og þegar á reynir og okkur finnst við vera ein með tilfinningar okkar – þá er gott að halla sér að Guði og segja: „Takk fyrir að skilja mig og finna til með mér“ ..
Hvað getum við þá gert – þegar okkur langar að vera til staðar fyrir þau sem finna til? – Við getum sagt: „Ég er hér – ef þú vilt halla þér að mér“ .. „Mér þykir vænt um þig“ .. „Ég skal hlusta“ …
Stundum er það næstum vont þegar einhver segir „ég skil þig“ .. sérstaklega ef við erum mjög illa stemmd, – þá höfum við kannski ekki þolinmæðina til að brosa í kampinn gagnvart þeim sem er vel meinandi og „bullar“ um eitthvað sem hann/hún veit ekki. – (Auðvitað er það ekki bull, en það getur virkað svoleiðis þegar við erum í geðshræringu).
„Gáfulegar“ setningar verða líka heimskulegar og jafnvel pirrandi, svo það má alveg spara þær.
Stundum eru færri orð betri – og ég held að til að vera sem líkust Guði – þá sé kærleikur okkar það sem skiptir máli, að sá eða sú sem finnur til finni að við erum til staðar. –
Innblásturinn að þessum pistli varð til þegar ég sá ljóðið sem kemur hér í restina. – Þar er farið í þessi „gáfulegu“ ráð – eins og að segja fólki að það sé að ganga í gegnum próf. Fólk getur sagt það sjálft – vissulega, en í miðjum sársauka vilja fæstir heyra slíkt frá öðrum. Leyfum fólki að finna sín svör sjálft – og átta sig á sinni sorg eða sínum sársauka og finna sína leið. Ef að einhver spyr .. þá svörum við hvað gagnast okkur eða hverju við trúum, – eins og ég er reyndar að gera núna í þessum pistli. Það getur vel verið að þú trúir öðru og ég virði það.
Að elska skilyrðislaust .. án þess að gefa ráð eða þurfa að bjarga getur verið erfitt.