Skömmin – hið andlega krabbamein.

Ég skrifaði þennan pistil árið 2011 á moggablogg, en færi hann nú á heimasíðuna mína, ekki síst vegna #metoo bylgjunnar.

„Shame corrodes the very part of us that believes we are capable of change.“ – Brene Brown.

eða –

„Skömminn tærir upp þann hluta í okkur sem trúir að við séum fær um að breyta.“ – Brene Brown.

Skömmin er yfirleitt mun líklegri til að viðhalda ofbeldi en að uppræta það.

Orðið skömm er á sama plani og óttinn,  því að skömm og ótti lama, draga úr okkur, stöðva okkur í framgöngu og að koma fram með sögu okkar og sannleikann.

Skömminn byggir aldrei upp.

Samfélag sem er uppfullt af dómhörku og hefur litla samhygð viðheldur skömminni. 

Sá eða sú sem er lagður í einelti upplifir skömm og segir því ekki frá.

Sá eða sú sem verður fyrir kynferðisofbeldi upplifir skömm og segir því ekki frá.

Sá eða sú sem upplifir andlegt eða líkamlegt ofbeldi af hvaða toga sem er upplifir skömm og segir ekki frá.

Skömmin liggur oft í því að viðkomandi upplifir að hann eða hún hafi „leyft“ gerandanum að koma svona fram við sig – og eftir því sem lengri tími líður grefur skömmin sig dýpra og brýtur meira, – brýtur sjálfsmynd þeirra sem upplifir skömmina,   enda er ósk þeirra sem upplifa skömm að fara burt frá sjálfum sér.  Flýja tilfinningar sínar og þá um leið sjálfa/n sig.

Skömm leiöir því til fíknar, því fíkn er flóttaleið frá tilfinningum okkar og um leið okkur. 

Besta leiðin til að snúa á skömmina er að ganga út úr henni,  hætta að láta hana stjórna – hætta að láta hana brjóta niður, reka okkur frá eigin lífi og/eða hindra hana í að leyfa okkur að lifa lífinu lifandi.

Það þarf hugrekki til að brjótast út úr þessari skömm.  Hugrekki eins og Guðrún Ebba sýndi þegar hún fór að tala og koma heim til sjálfra sín.  Hugrekki Sigrúnar Pálínu að gefa skömmina frá sér,  afhenda hana þeim sem hún tilheyrði.

Vandamálið er oft okkar „vitskerta veröld“ – samfélagið sem samþykkir ekki, hefur ekki samhug – en er fullt dómhörku.

Það eru ekki mörg ár síðan að það þótti mikið hugrekki að koma út úr skápnum sem samkynhneigður.

Sumir og eflaust margir upplifðu samkynhneigð sína með skömm.  En hver plantaði skömminni hjá þeim?  – Jú, samfélagið samþykkti ekki samkynhneigð og ENN eru hlutar samfélagsins sem samþykkja hana ekki (eða kynlíf samkynhneigðra)  og það er varla öfundsvert að vera meðlimur í kirkju t.d. sem samþykkir þig ekki eins og þú ert og leiðir þínar til að upplifa kærleika til annarrar manneskju.

Á sama máta þurfum við að spyrja okkur hvernig samfélagið plantar skömm í þau sem ekki eiga hana skilið og langt í frá.  Í raun á enginn skömm skilið.  Því skömm brýtur bara niður.  (En það er önnur umræða og lengri).

Hugum aðeins að orsökum að því að eineltisþoli eða sá/sú sem er beitt ofbeldi segir ekki frá – hvaða skömm upplifir hann og hvernig er komið fram við hann?  Er það ekki í sumum tilfellum að hann er álitinn vandamálið og vandræðin?  ..

Samfélagið, við öll,  þurfum að taka okkur á.

Við viljum öll að hinir haldi að allt sé í lagi hjá okkur, að við verðum ekki álitin nógu góð eða nógu fullkomin ef að við eigum við vandamál að glíma.  Þá setja allir upp grímu fullkomnunar og lífið verður eins og leikrit þar sem hver leikur það hlutverk sem af honum er ætlast, – lífið verður einn allsherjar blekkingarleikur.  Stundum á bak við grímu skammar.

Það er þegar við tökum niður grímurnar, grímu fullkomleikans, grímu skammar og gefum frá okkur skömmina og upplifum sannleikann sem við frelsumst.  En samfélagið verður að vera tilbúið fyrir sannleikann.  Sannleikurinn er oft óþægilegur og erfiður,  en hver og ein manneskja verður að fá tækifæri til að vera heyrð og fá að vera hún sjálf – án þess að bæla sannleikann innra með sér.

Það sem þarf er hugrekki, lifa af heilu hjarta – samfélagið þarf samhygð og losna við dómhörkuna.

Þannig geta allir farið að segja sína sögu,  jafnvel ofbeldismaðurinn – sem í flestum tilfellum á sína bældu ofbeldissögu  að baki.  Kannski hans ofbeldi hefði aldrei fengið að grassera ef að hann hefði sagt sögu sína fyrr.  Losnað við skömmina sem hann burðaðist með?

Skömmin er lævís og lúmsk. Heilu hjónaböndin hafa hangið saman að miklu leyti á skömm.  Skömminni við að slíta hjónabandinu,  skömm annars aðilans fyrir að hafa „leyft“ hinum að koma illa fram við sig,  skömminni við að láta tala niður til sín og óvirða.   Og svo skömminni við að láta vonda hluti viðgangast of lengi.

Skömmin getur líka birst í því að þú ert búin að láta þig „gossa“ – hefur hætt að sinna þér, sett þig aftast í forgangsröðina, hefur hætt að virða þig og elska,   bæði andlega og líkamlega,  þú ert búinn að vanvirða líkama þinn (og andann)  með sukki og ólifnaði, jafnvel hreyfingarleysi og þú skammast þín fyrir það,  en færð þig ekki til að gera neitt í því.  Hvað veldur?  – Jú, skömmin sem tærir og óttinn sem lamar.  Þetta kallast sjálfskaparvíti, víti sem skapast af skömm.

Skömmin er eins og krabbamein, eftir því fyrr sem hún uppgötvast og eftir því fyrr við losum okkur við hana eru meiri líkur á bata.

Ég trúi því að skömmin geti gert okkur veik, mjög veik. Hún tærir upp eins og dropi sem holar stein. Hægt en ákveðið.  Auðvitað er það líka skömmin sem rekur marga í það að taka eigið líf.

Skömmin við mistök, skömmin af því að standa sig ekki – gagnvart sjálfum sér og/eða gagvart öðrum,  skömmin við að horfast í augu við heiminn sem er stundum svo dómharður.  En við getum líka verið okkar hörðustu dómarar.   

Þú átt allt gott skilið og þú átt lífið skilið.  Heart

Svo felldu varnirnar, opnaðu hjarta þitt  eða biddu um hjálp til þess, hjálpina sem býr orku heimsins og hjálp þinna nánustu.  Skömminni var plantað í þig einhvers staðar á leiðinni, jafnvel í æsku, en því miður erum við þannig gerð að við sjálf viðhöldum henni með niðurbrjótandi sjálfstali.

Þess vegna verðum við að snúa frá því.

Segðu frá, segðu þína sögu og umfram allt farðu að tala fallega til þín og  slepptu haldinu á hlekkjum skammarinnar og komdu heim til þín.

Heim til lífsins.

Jákvætt sjálfstal virkar sem móteitur við neikvæðu sjálfstali, svo að uppbyggingin felst í því að fara að viðurkenna sig, tala fallega um sig og til sín, og taka inn góða næringu fyrir sál og líkama.

arms-open-to-sky_1133_1024x768.jpg

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s