Ég var að horfa á áhugaverðan fyrirlestur á Youtube um „Gaslighting.“ Fyrirlesarinn talaði um bernsku sína og sambandið við móður sína sem beitti hana ofbeldi.
Gaslighting er aðferð sem er notuð í andlegu ofbeldi þar sem fórnarlambið fer að efast um eigin geðheilsu og sýn á raunveruleikann.
Fyrirlesarinn tók dæmi: Það var partý heima hjá henni og gestirnir komu inn í herbergið til hennar, foreldrarnir voru „bóhem“ og þetta var oft á virkum dögum. Þegar hún kvartaði við móður sína, sagði móðir hennar að þetta hefði aldrei gerst og væri tilbúningur í henni.
Ég ætlaði að fara að lesa athugasemdir „Comment“ við þennan fyrirlestur og sá þá eftirfarandi:
„Comments are disabled on this video. We made this difficult decision for the TED Archive because we believe that a well-moderated conversation allows for better commentary from more people and more viewpoints. Studies show that aggressive and hateful comments silence other commenters and drive them away“
Þarna er m.a. verið að segja að ekki sé leyft að koma með athugasemdir við þennan pistil. Hatursfull og/eða óviðeigandi athugasemd í athugasemdakerfi geti orðið til þess að þagga niður í öðrum sem höfðu hug á að leggja vitrænt orð í belg og hrekja þá í burtu.
Það sem er líka alvarlegt við þetta, er að þegar einn kemur fram með reynslu sína, getur verið að aðrir hafi hug á því líka, en ef þeir sjá hatursfullar eða óviðeigandi athugasemdir, e.t.v. hæðst að fólki, þá draga þeir e.t.v. í land. –
Hægt er að smella á umræddan fyrirlestur hér fyrir neðan, en innihald þessa pistils míns – eða kjarninn í honum eru þeir sem hlusta og viðbrögð þeirra.