Það er fróðlegt að veita viðbrögðum likamans athygli. Hvernig bregst hann við kvíða og hvernig bregst hann við tilhlökkun eða eftirvæntingu.
Hversu mikilvægt er það að hlakka til eða vænta einhvers góðs? –
Ég held það sé mjög mikilvægt, – að lifa í þeirri tilfinningu að eitthvað dásamlegt eigi eftir að fara að gerast. Eitthvað sem kemur manni skemmtilega á óvart. 🙂
Þegar við kvíðum, þá getum við séð fyrir okkur líkamann herpast svolítið, og spennast og spennan er ekkert endilega það besta fyrir líkama okkar. Þegar við erum í spennu eða kreppt saman þá erum við meira lokuð og ekkert voða góðir „móttakarar“ .. Kannski erum við bara sjálf að loka á að eitthvað gott berist til okkar? – Við erum í raun í einhvers konar varnarstöðu eins og þegar við krossleggjum hendur – og jafnvel fætur líka. „Lok, lok og læs – ég tek ekki á móti neinu, því ég er búin/n að verja mig fyrir öllu.“
Það er hluti af margumtöluðum mætti berskjöldunar að opna faðminn og taka á móti og segja „já takk“ .. ég er alveg tilbúin/n að taka á móti því góða sem lífið hefur að bjóða, og ég á bara allt gott skilið“ ..
Við getum bara sjálf prófað muninn á líkamanum við þessar tvær ólíku hugsanir; að kvíða morgundeginum – eða því sem koma skal, eða leyfa okkur að vænta einhvers góðs. – Upplifa forvitnina, „hmmm.. hvað gæti nú skemmtilegt gerst í mínu lífi og komið mér skemmtilega á óvart?“ … ekki skemma það með að hugsa að það góða gerist fyrir annað fólk … það gerist nefnilega líka fyrir þig – EN það er mikilvægt að leyfa það.
Það er talað um „Receiving mode“ – eða vera í móttökugír. –
Að trúa því að við séum bæði verðmæt og að við eigum allt gott skilið – er gott ástand og gerir líkama okkar svo svakalega gott.
Að öllu þessu sögðu, er mikilvægt að taka á móti ÖLLUM tilfinningum og viðurkenna þær, líka þeim vondu, – og bara taka á móti þeim eins og vinum eða vinkonum og þakka þeim fyrir að vera þarna, en það er hægt að vera „kurteis“ við tilfinningar sínar – án þess að láta þær gleypa sig, alveg eins og við fólk. –
Leyfum okkur að hlakka til, – og trúa því að lífið færi okkur eitthvað skemmtilegt. Við þurfum ekkert að vita hvað það er, – bara treysta. –
Leyfðu þér að finna tilhlökkunina í brjóstinu þínu – og spyrðu þig: „hvaða góðu hlutir eru að fara að gerast hjá mér, – þeir hljóta að koma vegna þess að ég er búin/n að opna og tilbúin/n til að taka á móti 🙂
p.s. leyfðu hlutunum að gerast á sínum tíma. Treystu því að þegar þú ert búin/n að planta haustlaukum að þeir komi upp að vori, – ekki fara að róta í beðinu og rífa þá upp bara vegna þess að þú vilt að þeir blómstri fyrr!! – Sumt blómstrar hraðar, við sáum að kvöldi og það spírar að morgni – en við þurfum að leyfa náttúrunni að hafa sinn tíma – og treysta henni, eins og lífinu sjálfu.