Jólahugvekja flutt á Klausturhólum 19. des 2018

Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
:,: oss Drottins birta kringum skín. :,:

Þessi sálmur sem við sungum hér við upphaf helgistundarinnar – er einhvern veginn svo ljúfsár og hreyfir við tilfinningum okkar.   Jólin okkar – hvers og eins – bregða fyrir hugskotssjónum.

Við erum glöð vegna þess að það er hátíð –  og gleðin er vegna jólabarnsins.  Samt veit sálmaskáldið að hjörtun geta verið  döpur –  og á bak við það eru jafn margar ástæður og við mennirnir eru margir. –
Eins og gleðin kemur í stað depurðarinnar,  kemur sól í stað nætursvarts niðamyrkurs,  það kemur friðarengill í stað stormsins stríða –  og að lokum er það þegar ljósið dvín –  að birta Drottins skín allt um kring. –

Þarna er talað um andstæður –   og þannig er lífið.  Það er ekki einsleitt eins og við vitum.

Jólasálmarnir okkar eru afskaplega mikill fjársjóður  – og hluti af menningu okkar.   I fyrradag hlustaði ég á viðtal sem Sigurlaug Jónasdóttir tók við tónlistarmanninn Jónas Sigurðsson.   Hann talaði um  sálmana okkar og hvernig þeir ristu dýpra við hvert lífsár.     Því er ég sammála og sálmarnir rista djúpt hjá mér –  og þá get ég  rétt ímyndað mér hversu djúpt sálmarnir ná í ykkar hjörtum,  sem hér eruð íbúar á Klausturhólum,  þið sem hafið lifað mörg jól og áramót.

Það sama gildir um jólaguðspjallið –  það er frásögn sem flestir þekkja og sem verður dýpri við hvern lestur og hverja hlustun.   Jólaguðspjallið, er eins og við vitum flutt í sálmunum, flutt í orði og ekki síst í helgileik barnanna.    Allt er þetta ómissandi  hluti af hefðum og siðum kringum jólahátíðina. –

En hvað með gjafirnar,  eru þær ómissandi hluti jólahefðarinnar? –    Einhvers staðar las ég að eftir því sem árunum fjölgar styttist  óskalistinn.     Mamma hafði alltaf svar á reiðum höndum þegar við spurðum hana,  fimm barna einstæðu móðurin;  „hvað viltu í jólagjöf mamma?“ –  „Ég vil bara þæg og góð börn“ ..   var alltaf svarið hennar.

Ég held að flestir foreldrar geti tekið undir það að eiga góð börn og heilbrigð sé efst á þeirra lista.   María og Jósef eignuðust gott og heilbrigt barn.   Meira að segja ofurgott.   Barn sem átti eftir að vaxa úr grasi,  og þó að Jesús yrði ekki langlífur þá náði hann að marka svo sterk spor í mannskynssöguna að hann varð fyrirmynd og leiðtogi og ER ENN og verður.

Hvert einasta barn sem fermist – játast því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Það er svo margt sem Jesús kenndi okkur –   og svo gott að leita í hans fjársjóð – spekina sem við getum lesið í Biblíunni   – þegar við erum í vafa.  –    Jesús var lagður í jötu,  og það er nokkurs konar upptaktur – eða fyrirboði um líf hans.   Það var allt annað en það sem við köllum hefðbundið.

Jesús er leiðtoginn og um leið leiðsögumaður okkar –  Hann er vegurinn.

Þegar við erum í vafa um hvað er rétt og hvað er rangt –   hef ég rétt fyrir mér?  Hefur þú rétt fyrir þér?   Hvern á að spyrja um réttlætið? –

Við kórfélagarnir höfum verið að æfa fallegan sálm sem er bæn um leiðsögn.

Leið mig, Guð, eftir þínu réttlæti.
Gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
Því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Þessi sálmur hefur verið bæn mín til margra ára.   Guðs réttlæti þarf ekki endilega að vera það sama og mannanna réttlæti – ég tala nú ekki um  þegar tvær fylkingar stríða og báðar eru handvissar um að þær hafi rétt fyrir sér.    Stundum getur þessi fullvissa og þörf fyrir að hafa rétt fyrir okkur skemmt fyrir okkur heilu dagana – og kannski heilu næturnar líka – því við getum orðið andvaka af ergelsi yfir að sanna að við höfum réttinn okkar megin.    Þá er gott að leggja sig í hendi Guðs sleppa tökum – og allri þráhyggju og segja:  Leið mig Guð,  eftir þínu réttlæti.  Að því loknu að treysta handleiðslu Guðs.     Við höfum beðið og treystum að Guð svari.    Það getur fylgt því mikill léttir að hvíla í Guðs hendi,  og við verðum alveg eins og barnið sem hvílir í jötunni – áhyggjulaus  og í trausti þess að foreldrar muni fyrir sjá –  eins og Guð faðir sér fyrir okkur.

Ég hóf þessa prédikun á fyrsta erindinu í á sálmi Valdimars Briem, sálmaskáldsins mikla – en hann samdi líka annan sálminn,  um hjartans hörpustrengi.   Það eru tilfinningar hjartans – og kallað er eftir gleðitilfinningunni.    Í 3.  erindinu segir:

 

Hann, þótt æðst í hátign ljómi,

hógvær kemur alls staðar.

Hjarta þitt að helgidómi

hann vill gjöra’ og búa þar.

Opna glaður hjartans hús,

hýs hinn tigna gestinn fús.

Getur nokkuð glatt þig fremur:

Guð þinn sjálfur til þín kemur?

Ég sagði hér áðan að hefðirnar og siðirnir væru margir hverjir ómissandi, –  við tökum þannig til orða – en við vitum – vegna þess að við höfum lifað og höfum reynslu af lífinu að það eina sem í raun er ómissandi á jólum er  Jesús sjálfur  –  hann vill búa í döprum hjörtum  til að gleðja þau,  hann hrærir hjartans hörpustrengi og  biður okkur um að opna hjartans hús og hýsa hann.

Þegar við finnum fyrir Guði í  hjarta okkar –   jólabarninu innra með okkur,   þá er ekkert sem vantar.    Þannig eru jólin fullkomin.     Eigum gleði og frið um jólin. 

WIN_20141227_102452

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s