Með opið hjarta ..

Í messuformi hinnar íslensku Þjóðkirkju er bæn sem kölluð er upphafsbæn.   Orðin eru stundum þulin upp hugsunarlaust,  en þau eru í raun þaulhugsuð. –   Ég ætla ekki að birta alla bænina hér, einungis línu úr bæninni sem ég ætla að fjalla um hér:

„Opna þú með þínum heilaga anda hjarta mitt .. “ ..

Hvers vegna í ósköpunum biðjum við Guð að opna hjarta okkar?   –  Hver er tilgangurinn með því eiginlega? –    Í framhaldi mætti spyrja;  hvers vegna erum við mætt saman í tilbeiðsluna? –  Er ekki nóg að vera einn heima með sjálfum sér og Guði? –

Ég veit ekki með ykkur,  en mér finnst mjög gaman að upplifa með öðru fólki –  t.d. að fara í bíó með einhverjum sem hlær innilega og tengjast þannig í hlátrinum. –    Svo er það ótrúlega magnað að gráta saman,  biðja saman  og dást að náttúrunni saman. –

Þegar ég er að aka Suðurlandið – þá óska ég svo oft að einhver sé með mér í bílnum að sjá það sem ég sé og segja „vá“ með mér yfir dýrð náttúrunnar.

Hvað hefur þetta allt með opið hjarta að gera? –       Opið hjarta er eins og heimboð til okkar.   Við opnum dyrnar og segjum við náungann:   Vertu velkomin/n  í mitt rými – ég er með þér.     Með lokað hjarta er eins og við séum  með lokaðar dyr að herberginu okkar og setjum á það skilti:  „vertu úti“ ..

Auðvitað þurfum við stundum frið frá öðru fólki og dveljum í einrúmi –   og það finnur hver og ein/n fyrir sig og  við drögum okkur í hlé  –  kannski ekki síst til að tengjast okkur sjálfum og taka á móti sjálfsást og ást Guðs –  Æðri máttar –  lífsorku .. eða hvaða nafni sem við köllum uppsprettuna.

Margt fólk í samböndum kvartar yfir maka sínum, –  „hann er svo lokaður“ .. eða „hún er svo lokuð“ ..    og þá er það auðvitað þetta lokaða hjarta. –

Auðvitað eru ástæður fyrir því að fólk er með lokað hjarta. –    Það eru yfirleitt sár eða áföll sem hafa lokað hjartanu.   Fólk þorir ekki alveg að opna „dyrnar“  því það gæti eitthvað vont læðst inn. –      Það þarf hugrekki til að opna hjartað,  sérstaklega þegar það hefur verið sært – og þá þykir öruggara að hafa allt í lás. –

„Bátur er öruggastur í höfn,  en tilgangur bátsins er að sigla“ ..   Hver er tilgangur mannsins?   Að vera í öryggi? –    Lífið er í sjálfu sér áhætta, –  og það er áhætta að elska,  því að við getum misst,  og við missum,  en við viljum samt ekki missa af því að elska – eða hvað? 

En hvað þá með að koma í öruggt rými, –  sem er helgidómur og opna hjarta sitt með fólki sem er líka að biðja heilagan anda um að opna sitt hjarta? –     Þar sem kærleikurinn er boðaður,  gleðin og ekki síst  mikilvægi nærverunnar og þá ekki síst nærvera Jesú Krists?

Jesús var svo „kúl gaur“   – svo ég noti orðalag unga fólksins.    Hann benti á það sem var rangt – og hann  var ekki fylgjandi þöggun.   Við erum svona rétt að þora að fylgja í hans fótspor í dag.     Kannski er það líka vegna þess að við þorum að lifa berskjölduð  (með opin hjörtu?) –  og taka því sem koma vill,  vegna þess að það er í raun að lifa lífinu lifandi?   –

Hvað ef ljós okkar er í hjartanu okkar? –   Eigum við að setja það undir mæliker og fela eða eigum við að láta það lýsa svo aðrir sjái og gefa þannig af okkar ljósi? –

Hvernig tengjumst við ljósi annarra?

Nándin og tengingin fæst aðeins með því að við opnum hjörtun  –  og lífið verður bara svo miklu, miklu meira LÍF með opið hjarta.    Jú, við erum auðsæranleg og finnum til,  en það að finna til er að vera til.   

Guð opna þú með þínum heilaga anda hjarta mitt.   

tilfinningar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s