Ég horfði á þátt – eða nokkra þætti í seríu sem fjallar um matarfíkn – eða „Addicted to food“ .. en þættirnir voru á Netflix í Danmörku. Ég ætlaði að ljúka við að horfa á seríuna hér heima en þá eru þeir ekki í boði. – Það er reyndar aukaatriði, en það sem mig langaði að deila hér var umfjöllun um mismunandi varnarveggi sem fólk setur upp.
Við þekkjum eflaust flest fólkið sem talar ekki, þegir bara og við segjum að það sé í vörn eða sé með varnarvegg. – En í þessum þætti kom fram að sífellt mas – eða mikið tal getur líka verið vörn, eða varnarveggur. Kannski tal um allt og ekkert.
Ég man líka eftir því þegar ég var á meðvirkninámskeiði Lausnarinnar í Skálholti og sátum í hring, þegar leiðbeinandinn sagði – að þegar kæmi þagnarpása – væri það yfirleitt meðvirkasti einstaklingurinn sem ryfi þögnina, því hann ætti erfitt með hana. Hann tekur ábyrgð á þögninni og finnst hún vandræðaleg eða óþægileg.
Flest þekkjum við þetta orðatiltæki „vandræðaleg þögn“ … en hvað er svona vandræðalegt við að sitja í þögninni? – Er ekki bara allt í lagi að sitja og segja ekki neitt? –
Kona sem var þátttakandi í námskeiði í þessu matarfíknarnámskeiði – fékk það verkefni að tala ekki. – Fékk skilti framan á sig sem stóð „I don´t talk“ – og þetta stóð yfir í viku. Hvers vegna ekki að tala? – Skýringin hjá leiðbeinendunum var sú að hún talaði yfir tilfinningar sínar, – eða til að losna við finna þær. Í stað þess að tala eða grípa í mat – sat hún uppi með tilfinningar sínar – og þær fengu að koma fram í þögninni. –
Þetta fannst mér magnað að sjá. –
Það þarf því ekki að vera samasem merki á því að tala mikið og að vera opinn persónuleiki. Það skiptir máli hvað það er sem talað er um. –
Annar aðili var á þessu námskeiði, (sem sýnt var í þættinum) fékk það hlutverk að ganga um með klút fyrir augum í viku. – Þessi manneskja átti erfitt með að biðja um hjálp, en var sett í þá aðstöðu að þurfa að biðja um aðstoð. – Hvers vegna biðjum við ekki um hjálp?
Margir gera það ekki því þeir óttast að vera byrði á öðrum, eða taka of mikið pláss. Svo eru sumir hræddir við að fá neitun, – og upplifa það jafnvel sem höfnun. Hluti af því að lifa hugrökku lífi og einnig að finnast maður mikils virði, er að biðja um hjálp.
Það skiptir í rauninni ekki máli hver fíknin er, eða „The addiction“ – Fíkn er flótti frá sjálfum sér – eða einhvers konar aftenging frá sjálfum sér, og þegar maður er ekki í tengslum við sjálfan sig er erfitt að vera í tengingu við aðrar manneskjur. Tengingin er því andstæða fíknarinnar og það er þegar við förum að upplifa þessa tengingu sem við erum í bata. Í tengingu við okkar tilfinningar. Við stoppum þær ekki með tali.
Kannski er það þess vegna sem hugleiðsla, þar sem við sitjum í þögn, er leiðin til sjálfsuppgötvunar og leiðin til að tengjast sjálfum sér?