Louise L. Hay sagði að sumt fólk færi í gegnum lífið eins og það væri í leikskóla og annað færi í gegnum háskóla. – Þetta eru auðvitað myndlíkingar fyrir lífsreynsluna okkar, – og þýðir þess vegna að þau sem lenda í fleiri áföllum – eða mótlæti eru á hærra skólastigi. –
Enginn auðkýfingur getur keypt sér lífsreynslu, – sama hversu mikið hann á af peningum og getur þess vegna ekki keypt þroska, né andlega dýpt með peningum. –
Það er auðvitað hægt að vera bæði ríkur (af veraldlegum auði og þeim andlega, eitt útilokar ekki annað).
En hvað eigum við að gera með lífsreynsluna okkar sem er svona dýrkeypt? – Til hvers er hún eiginlega? Er kannski enginn tilgangur með henni? –
Ef við látum lífsreynsluna, áföllin, sorgina, mótlætið – buga okkur alveg – og „notum“ það ekki til góðs, þá er þessi dýrkeypta lífsreynsla kannski lítils virði – og þó, hún þroskar okkur örugglega eitthvað. En hvernig getum við nýtt þessa lífsreynslu til góðs? Í fyrsta lagi hlýtur öll reynsla að vera til þess að við eigum auðveldara með að setja okkur í spor náunga okkar. Við eigum auðveldara með að skilja, og því að elska.
Á enskunni er talað um að annað hvort verðum við „bitter eða better“ eða annað hvort bitur eða betri. Flest viljum við örugglega verða betri.
Hvað gerum við með það? Hvert er æðsta boðorðið? –
„Elskaðu náungann eins og sjálfan þig“
Að deila lífsreynslu, að vera skilningsrík og að „nýta“ þessa dýrkeyptu reynslu til að vera til stuðnings fyrir náunga okkar, er væntanlega hinn göfugi tilgangur. –
Það er bara takmarkað sem við getum lært af bókum eða fyrirlestrum, og takmarkað sem við getum lært af reynslu annarra. – En ein leið til að „lifa af“ eða komast í gegnum erfiða lífsreynslu er að skilja verðmæti hennar, – kannski ekki og reyndar alls ekki á meðan henni stendur, heldur síðar meir, þegar þú getur gripið til hennar þegar þú mætir náunga þínum í erfiðleikum. – Þú hefur verið þarna ❤