Okkur líður illa að horfa upp á fólk sem líður illa. Okkur líður illa að horfa upp á fólk sem fer illa með líf sitt. – Við getum sagt að þetta sé vegna þess að okkur þyki svo vænt um þetta fólk – og það er örugglega 100% rétt, en við bætum ekki ástand þeirra með því að líða illa yfir því að þeim líði illa.
Við verðum eins og „litli stjórnandinn“ sem lítur á alla og heimtum að þeir komi lífi sínu í skikkanlegt form svo okkur líði betur. – þetta getur tekið svo mikla orku af okkur, allar þessar áhyggjur af öðru fólki og þeirra lífi, að við sjálf verðum eins og afgangsstærð í okkar lífi og okkur fer að líða illa. Þá fer fólk að hafa áhyggjur af okkur og hvernig við högum okkar lífi. – Þetta verður keðjuverkun – og/eða víxlverkun.
Hvað getum við gert í þessu? Það sem er mest „skaðaminnkandi“ er að passa sig á að sogast ekki inn í vanlíðan hinna, eða fara í þráhyggju við að „laga“ aðra og þeirra líf – SVO okkur geti liðið betur. –
Verum breytingin sem við viljum sjá. Okkur getur aldrei liðið nógu illa svo hinum líði betur, við getum aldrei orðið nógu veik svo hinum batni. – Það hjálpar ekki að fara ofan í holuna með viðkomandi og vera fastur þar líka. –
Látum OKKUR líða vel – hugsum vel um líkama og sál og kennum þannig með því að vera fyrirmyndir. Að sjálfsögðu látum við okkur náungann varða, þegar hann liggur særður við vegakantinn – og gerum viðeigandi ráðstafanir. En sumir vilja bara hreinlega fá að bjarga sér sjálfir. – Það er ekki við allt ráðið, og þá þarf að sleppa tökunum.