Barn í Paradís

Barn í Paradís – óður til afa og ömmu

Mikið er ég sæl að eiga fallegar æskuminningar. Einar fallegustu minningarnar eru úr Lindarbrekkunni, þá verandi bústaðnum þeirra afa og ömmu og nú verandi bústað stórfjölskyldunnar þar sem afi og amma eru fallin frá.

Amma mín stendur mér alltaf fyrir hugskotssjónum sem brosandi og falleg kona. Hún elskaði sólina og varð fallega brún á sumrin. Amma og afi tóku mig stundum með sér í Norðurleiðarrútunni sem setti okkur af við Hreðavatn. Þar gengum við inn Grábrókarhraunið eftir veginum. Fyrst gamla veginum sem lagður var mosa og svo „nýja“ veginum sem ruddur var til að hægt væri að aka að ánni. Við gengum með pinkla og pjönkur og stundum pappakassa með snæri. Við vorum öll í betri fötunum; ferðafötunum, en þegar komið var í bústaðinn fór ég í hversdagsföt og amma í rósóttan slopp, sem eflaust má kalla Hagkaupsslopp, hvíta sandala með fylltum hæl. Einhvern veginn finnst mér samt alltaf að amma hafi ekki tekið af sér perlurnar né fallega gullúrið. Hún var alltaf svo falleg og glæsileg sama hverju hún klæddist.

Amma og afi undu sér þarna yfir sumartímann. Afi var þúsund þjala smiður, dyttaði að bústaðnum, hjó við í eldinn, vitjaði um silunginn, hamraði á ritvélina sína. Hann var alltaf að, nema þegar hann lagði sig eftir matinn! 

Ég fékk að fara með honum að vitja um, og við giskuðum á fyrirfram hvað kæmu margir fiskar í netið. Yfirleitt voru þeir nú bara tveir til fimm eða eitthvað svoleiðis en það var meira en nóg fyrir okkur. Silungur var borðaður á hverjum degi, a.m.k. í minningunni, og mér þótti hann alltaf góður. Afi beinhreinsaði alltaf fyrir mig, en það var ákveðin stund í að verða fullorðin að þurfa að fara beinhreinsa sjálf! Sporðurinn var í uppáhaldi.

Stundum kom amma með útá bát, þá kallaðist hún á við himbrimann, sem kallaði á móti. Ég hlustaði dolfallin á, sitjandi í mínu björgunarvesti úr frauðplasti í gulum og grænum lit. Þessi vesti eru nú orðin börn síns tíma, þó ennþá séu þau til og orðin músétin á köflum.

Á sólríkum dögum, en það var mjög oft gott veður í gamla daga. Settumst við amma og stundum afi,  niðrí „laut“ með teppi og stundum tókum við útvarpið með okkur og hlustuðum á útvarpssöguna. Man sérstaklega eftir Kapítólu. Stundum sat ég bara og hlustaði á afa og ömmu mala, eða þegar við amma vorum tvær sagði hún mér sögur úr Hólminum. En amma ólst þar upp. Ég elskaði þessar stundir og ég var barn í Paradís.

Tilveran var ekki flókin í Sumó. Ég lék mér í búinu og eldaði dýrindis drullukökur og skreytti með sóleyjum og bláklukkum og bauð ömmu í kaffi. Stundum voru systkini mín eða frændsystkini líka á staðnum og þá var fjör.

Í sumó var handsnúinn grammófónn, og skemmtilegar plötur. Á 17. júní og á fögrum sumarkvöldum var farið með fóninn út á pall og við dönsuðum af lífs og sálar kröftum. Kannski er ég svona hrifin af gömlum lögum þess vegna.

Mér þótti gaman að leika mér við önnur börn, fara í ævintýraferðir alla leið á fimmta fjall, renna niður skriður og uppgötva ætíð nýja og nýja staði í birkiskóginum. Bjarga sílum úr ánni sem var að þorna upp og færa þau yfir í vatnið. Stundum dóu einhver og við jörðuðum sílin með athöfn.

Þegar ég var ein, þá fór ég í ímyndunarleiki, þóttist vera skógarbarn og gekk berfætt heilu dagana. Óvinirnir voru beljurnar, sem ég var dauðhrædd við,

Lindarbrekka heitir eftir fallegri lind sem rennur í brekkunni og við sóttum þarna vatnið í fötum lengi, lengi, þar til lindin var loksins „virkjuð“ og rennandi vatn fékkst í bústaðinn.  Við þessa lind gerði afi líka að silungnum og við krakkarnir, stóreygð, fylgdumst  með öruggu handbragði hans. Það var sérstakur fiskihnífur og sérstakur hvítur pottur sem fiskurinn var settur í þegar búið var að gera að. Amma sá síðan um matreiðsluna.

Ég elti afa minn í fleiri verkefni, út á veg að skila tóma mjólkurbrúsanum og sækja þann fulla og kannski smá Borgarnesskyr (sem var besta skyr í heimi – með krækiberjum) og útí skóg að sækja við í eldinn. Einu sinni þegar við vorum að ganga upp brekkuna sagði afi mér að hann hefði kallað systur sína, sem ég er skírð í höfuðið á og er alnafna, Jógu þegar hann vildi stríða henni. En þá hafði ég verið að segja honum að sumir kölluðu mig Jógu. Mér þótti það samt aldrei ástæða til að líka ekki við Jógugælunfnið og hef haldið því.

Einu sinni höfðu afi og amma áhyggjur af því að ég hefði ekkert dót til að leika mér að. Þau tóku sig saman og saumuðu handa mér dúkku í minni stærð, ég hef eflaust verið 5-6 ára gömul. Dúkkan var samsett úr gömlum íþróttagalla af föður mínum frá því hann var strákur, andlitið, hendur og fætur úr ljósu lérefti. Síðan var bróderaður munnur, nef og augu með aftursting. Þessi brúða fékk nafnið Labbi og var félagi minn í mörg ár. Hann fór einhvern tímann í „andlitslyftingu“ þegar mamma þurfti að sauma á hanna nýtt höfuð, þegar hið upprunalega var farið að slitna.

Ilmurinn í birkiskóginum í Lindarbrekku, sem blandaðist við reykinn úr skorsteininum er sætasti og besti ilmur sem ég get hugsað mér. Vatnið er besta vatnið, silungurinn besti silungurinn, brauðið sem amma bakaði í kolaofninum var besta brauðið. Soðna vatnið með mjólk og sykri besti kvölddrykkurinn. Amma mín og afi voru yndisleg amma og afi og bý ég að því alla ævi að hafa fengið að dvelja stund og stund undir þeirra verndarvæng, svo skrítin og svolítið einræn sem ég var sem barn.

Það er gott að skrifa svona minningar, sérstaklega fyrir mig sjálfa, en líka börnin mín, ættmenni og aðra sem þekkja til, eða þekkja ekki til njóta vonandi líka.

Ég skrifaði þennan pistil 2009,  en færi hann hér inn á bloggið mitt til varðveislu.
Eva Lind, dóttir mín –   (sem fékk nafnið Lind einmitt eftir lindinni í Lindarbrekku)   skrifaði við upprunalegu færsluna hjá mér:

„Oh.. já.. fallegt … ég ELSKA Lindabrekku, þetta er paradís á jörð … þetta er uppáhaldsstaður okkar litlu fjölskyldunnar 

Minningarnar eru ótal margar og ég er svo glöð að mamma og pabbi hafi gefið okkur þessar minningar í Lindabrekku og nú get ég gefið börnunum mínum part af Lindabrekku … Þessi staður er verðmætari mér en skínandi gull og glitrandi gimsteinn.“

Ev.

Myndin sem er hér fyrir neðan  af mér með elsta barnabarnið mitt, Ísak Mána,   í gamla  ruggustólnum í Lindarbrekku –  en Ísak er einmitt strákurinn hennar Evu – og  er  að verða 15 ára og á að fermast 18. maí nk.    ❤

10401051_1054804844126_8160_n

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s