Steinninn – Minning um Pálu f. 8.11.1955 d. 2.4.2019

56835707_10219005891318639_260827965112188928_o

Stundum hittir maður fólk og  upplifir að maður hafi þekkt það alla ævi.    Þannig voru kynni okkar Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur –  Pálu.     Fyrst töluðum við í gegnum skilaboðaskjóðu fésbókarinnar,  en síðan hittumst við í „raunheimum“  á heimili Pálu í Danmörku.  –   Þar var vel tekið á móti mér af Pálu og dætrum hennar Elísabetu og Sólveigu og sátum við í fallegu stofunni á Valbyvej,  einnig voru þar heima barnabörn og auðvitað fullt af dýrum,  en Pála var mikill dýravinur,  og einhver dýranna hennar fengu sérstakt leyfi til að heimsækja hana á líknardeildina. –   Þau skiptu hana miklu máli. –
Dagurinn sem við Pála hittumst var 12. desember 2017.      Ég gat flett því upp í samskiptum okkur á fésbókinni.     En þar var líka annað sem ég gat flett upp, –    og það voru samskipti sem byrjuðu miklu fyrr. –    Ég,  eins og svo margir aðrir,  hafði fylgst með framgangi Pálu í biskupsmálinu,  máli sem varð henni þyngsti steinn lífs hennar.
Ég hafði gert meira en að fylgjast með,  en ég hafði skrifað a.m.k. tvo pistla – og annan þeirra skrifaði ég eftir að ég las hugvekjur  Pálu,  sú fyrri var flutt í  Bessastaðakirkju 20. febrúar 2011  og nefndist   „Hendur kærleikans“   og sú seinni bar yfirheitið  „Sátt“  og var flutt í  Grensáskirkju 22. júlí 2011.

þar afhenti Pála kirkjunni táknrænan stein – en um leið sagði hún þessi orð:

„Í tilefni baráttu minnar ætla ég að færa ykkur þennan stein sem er táknrænn fyrir öll þessi ár. Hann er hrjúfur og auðvelt að meiða sig á honum en jafnframt er hann fallegur og mosinn er tákn þess að það sé að byrja að gróa um heilt.
Í þessum steini er sú ábyrgð sem ég hef borið og vil ég núna afhenda ykkur hann sem tákn um að ábyrgðin er ykkar. Ábyrgðin á Biskupsmálinu og þeim afleiðingum sem það hafði og hefur enn fyrir svo marga.
Steinninn á að minna okkur á að við megum aldrei gleyma, heldur verðum við að læra af mistökunum og nýta reynsluna til að byggja upp framtíðina.
Steinninn er áfram hrjúfur og kaldur eins og raunveruleiki Biskupsmálsins er, en mosinn grær samt á honum.“

—–
Víkjum að samskiptum okkar Pálu:

Þann 11. janúar 2013,  eftir að Eva dóttir mín lést,    skrifaði Pála til min  „Elsku Jóhanna mín ég skrifa til þín með djúpa sorg í hjarta. Ég finn svo til yfir missi þínum. Ég þekki þig svo lítið en samt svo mikið. Ég votta þér mínar innilegustu samúðarkveðjur og megi Guð styrkja þig í sorg þinni. Ég gæti ekki hugsað mér meiri harm en að missa börnin mín og að barnabörnin mín yrðu móðurlaus. Ég bið fyrir ykkur og þ ú ert í hjarta og huga mínum daglega og ert búin að vera síðan að Eva veiktist.

Kærleiksknús Pála“

eftir að við hittumst í desember 2017 …. skrifaði Pála m.a.  til mín:  Gleymdi að segja þér að þegar að þú varst hérna þegar að Eva var veik, þá fylgdist ég með hvernig gekk. Ég var með svo sterka tilfinningar fyrir þér og ykkur. Hvað eftir annað var jeg að hugsa um að mæta upp á spítala til að styðja þig. Gerði það ekki af því að við þekktumst ekkert þá. Þorði ekki og fannst ég hálf klikkuð að ætla bara að mæta 😊😘Knús og kram.“

Pála var kona sem lét sig náungann varða,  –  mér hefði svo sem ekki veitt af stuðningi þarna á spítalanum  þar sem við ættingjar sátum við dánarbeð dóttur minnar.  –  Seinna skrifaði Pála mér í júní 2015,  en þá var Sólveig dóttir hennar á spítala og vart hugað líf.   Við skrifuðumst á,  en Pála vildi spyrja mig hvernig væri hægt að lifa það af að missa barnið sitt.    Sem betur fer fór betur en á horfði og hún þurfti ekki að fara í gegnum þá reynslu,  en nú eru það börnin hennar og eiginmaður sem þurfa að lifa það af að missa hana.

—-

Næsti „hittingur“ hjá okkur Pálu varð síðan á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn,  en það var í maí 2018.    Við hittumst á kaffiteríunni og spjölluðum í a.m.k.  klukkutíma.  –
—–
Þarnæst var það heima hjá bróður mínum og mágkonu minni heitinni.   Það var  í Kaupmannahöfn í október síðast liðnum,   en þær  Þóra og Pála  náðu að tengjast í gegnum sjúkdóminn, en   Pála sagði að það væri ekki tilviljun að þær væru að tengjast á þessum tíma.   Við höfðum reynar allar þrjár tilheyrt  hópi á facebook  sem ég stofnaði á sínum tíma og heitir „Kærleikur og krabbamein“ –  sem er ætlaður sem jafningjastuðningur fyrir okkur sem höfum greinst.   Pála setti þar oft inn hvetjandi orð,  en var líka með sínar pælingar og spurningar – eins og við öll.   Það er það jákvæða við svona hóp, – að finna að við erum ekki ein og engin spurning er „asnaleg“ –   en á móti er býsna erfitt þegar það er að týnast úr honum vegna sjúkdómsins,  en kannski er það einmitt þessi  raunveruleiki sem þarf að horfats í augu við og ræða opinskátt,   að  krabbamein er dauðans alvara og  einhver munu deyja og önnur lifa,  en meðan við getum stutt hvert annað þá gerum við það.    Höfum í huga orð Stefáns Karls heitins;  „Lífið er núna.“

Pála kom svo í heimsókn á Amagerbrogade og var það indæl heimsókn og rætt um margt sem skipti máli – eins og t.d. hræðsluna – eða ekki hræðsluna við dauðann.     Flestir foreldrar ræða það að þau séu hræddari fyrir hönd afkomenda sinna og maka en um sig sjálf.     Þess vegna er fólk oft lengi að sleppa,   þó lífsgæðin séu orðin rýr.

Eftir heimsóknina kom Alli hennar Pálu upp að sækja hana,  og Pála ljómaði eins og ástfangin unglingsstúlka og  sagði okkur að henni fyndist maðurinn sinn svo fallegur.   Það var yndislegt að sjá fallegu tenginguna  á milli þeirra.

Síðasta skiptið sem ég hitti Pálu var svo í útför Þóru mágkonu,  þann 1. mars sl.  en hún og Alli mættu og ég sat hjá þeim dágóða stund og við röbbuðum.   Pála var mjög hrifin af hversu látlaus og falleg útförin var – og var farin að  tala um sína útför, hvernig hún vildi hafa – og það var hálf skrítið.     Það leið aðeins mánuður – og þá var Pála farin,  en hún lést 2. apríl sl.       Daginn sem útför Þóru var,  varð fyrri eiginmaður Pálu og faðir barnanna hennar,   Sigurður Blöndal bráðkvaddur,   –  en það frétti Pála eftir útförina.

Ég fékk símtal frá Alla þann 2. apríl  um að Pála væri dáin.   Ég hafði fylgst með fréttum eins og aðrir á síðunni hennar og það sem fjölskyldan hennar skrifaði.   Ég varð sorgmædd og grét upphátt, og ég þurfti á því að halda  – þar blönduðust tvær sorgir,  sorgin yfir mágkonu minni sem lést aðeins mánuði fyrr  og þá var ekki svo mikið ráðrúm til gráturs  – og kannski fleiri sorgir –    því það er eins og þegar fólk sem við tengjumst vel, deyr – að minning alls okkar fólks hellist yfir.    Ég grét vegna fjölskyldu Pálu og allra vina hennar og vegna baráttu hennar sem var á enda.    Hún var og verður alltaf sigurvegarinn,  því að þó að dauðinn yfirtaki líkamann – lifir Pála alltaf.

Andstæðurnar eru fæðing og dauði.     Pála fæddist og Pála dó,  en hún lifir –  því að lífið á sér enga andstæðu.

Í bókinni  „A course in Miracles“  stendur þessi fallega setning:

„Nothing real can be threatened.   Nothing unreal exists.   Herein lies the peace of God.“

„Engu sönnu verður ógnað.    Ekkert óraunverulegt  er til.   Hér er friður Guðs fólginn.“

Pála var og er sönn. 

Ég ætla að víkja aftur að steininum.   Ég man að þegar ég hitti Pálu fyrst spurði hún mig hvort ég vissi hvar steinninn væri,  þessi sem hún hafði afhent kirkjunni.   Ég sagðist ekki vita það og hefði ekki séð hann.    Hún rifjað þá upp sögu steinsins, –  eins og hún kemur fram hér að ofan. –


Eftir að Pála dó hef ég hugsað mikið til hennar,  og ég hef sent henni  „skilaboð“  út í alheiminn að ef það er eitthvað sem hún vill koma til skila til mín –  eða sem ég á að bera áfram þá sé ég móttækileg.    Ég er næm og hef oft upplifað hluti sem eru ekki „séðir eða heyrðir“   heldur skynjaðir á annan hátt.     Það eina sem hefur ekki látið mig í friði er þetta með steininn.    Mundu:  „steinninn“   var eina sem ég hef getað skynjað og það oftar en einu sinni. –

Ég var svolítið ringluð,  átti ég að hringja á biskupsstofu og spyrja um steininn?   Var það ekki eitthvað skrítið? ..       En ég er búin að fá svarið.

Um miðjan apríl hafði sr. Bjarni Karlsson samband við mig og spurði hvort ég vildi þjóna með honum,  Jónu Hrönn og Agnesi biskup í útför Pálu á Íslandi.   Ég svaraði eins og var að það væri mér sannur heiður og hjartað fylltist þakklæti.     Í gær hringdi svo Bjarni í mig og sagðist myndu senda mér textana sem ég á að lesa,  en ég var líka orðin forvitin hvað yrði fyrir valinu.   –    Jú, sagði Bjarni,   mér var ætlað að lesa ritningarlesturinn  sem var ritaður á steininn sem  Pála afhenti kirkjunni.

Ritningarlesturinn er:

„Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn,
hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi.
Og ekki einungis mér heldur og öllum sem
þráð hafa endurkomu hans. (2.Tím 4:7-8)“

Í gær dró ég fallegt englaspil fyrir fjölskyldu Pálu og  ég varð ekki hissa þegar ég dró  Verndarengilinn.   –    Það er stór manneskja sem kveður,  manneskja sem vildi vernda alla og það getur verið að hinn jarðneski líkami sé of „þröngur“  þegar að því kemur.    Hún getur nú verið til staðar á Íslandi og Danmörku –  hjá ykkur öllum og líka konum eins og mér,   hana langaði að koma á spítalann þegar ég sat hjá dóttur minni, – kannski gerði hún það í huganum og kannski var ég sterk vegna þess að ég fékk hjálp sem var ekki hægt að sjá,  en ….  skynja.

Guð blessi Pálu og allt hennar góða starf og hennar góða og einlæga hug.

Far þú í friði fallegi engill  – en vertu líka hjartanlega velkomin,  alltaf.

Ég elska þig  ❤

 

guardian

Mig langar að leyfa Pálu að eiga síðasta orðið í þessum pistli,  en þetta ljóð flutti hún í Bessastaðakirkju 20. febrúar 2011.

Nú stend ég hér. Í húsi kærleikans.
Ég er rödd sannleikans og ég er hætt að vera hljóð.
Þið heyrið í mér. Sjáið mig.
Þið trúið mér og ég finn kærleikann.
Ég þarf ekki að vera fullkomin eða góð.
Ég rétti ykkur höndina.
Ég er búin að ryðja brautina
og saman hefjum við græðsluna.
Við tendrum ljós.
Þá hverfur hræðslan.
Ég róla mér hátt, hátt upp í himin og þar eru augun blíð og góð.
Nú veit ég hvað Guð vildi mér
Við ykkur segi ég: Munið að gæta ykkar vel.
Og glöð segi ég: Takk fyrir mig.

 

 

 

Ein hugrenning um “Steinninn – Minning um Pálu f. 8.11.1955 d. 2.4.2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s