Vitundarvakning um brjóstakrabbamein – „Ég pissaði í buxurnar – góða skemmtun“

Ég hef ekki fengið brjóstakrabbamein,  en ég er með krabbamein sem heitir melanoma eða sortuæxli.  Fyrst greindist ég 2008 og svo kom það fram í eitlum 2014 og ég fór í aðgerð og geislameðferð, er laus við meinið – en enn undir eftirliti.
Árið 2008 missti ég bestu vinkonu mína úr brjóstakrabbameini og í vor dó mágkona mín  úr brjóstakrabbameini.

Nú er í gangi „samkvæmis“ – leikur á Facebook,  þar sem talað er um að markmiðið sé vitundarvakning um brjóstakrabbamein árið 2019.
Fólk setur einhvern mis – trúverðugan status á Facebook (nokkra sem ég féll fyrir – eins og „Ég mun koma fram í næsta þætti af Landanum“ – eða „Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni“ )  Þetta gæti bara alveg verið og alveg trúverðugt og margir hafa eflaust samglaðst eins og ég gerði.    Aðrir statusar voru ótrúverðugri: „Það er íkorni í bílnum mínum!“  „Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn“ ..  og svo þessi:  „Ég pissaði í buxurnar“..
Það var örugglega mörgum skemmt – í þessum samkvæmisleik, en mér finnst þessi aðferðafræði slæm – til að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein. –
Þó einhverjum – og kannski mörgum sé skemmt,  þá tel ég líka að þetta hafi særandi áhrif.   Ég las pistil frá bandarískri konu sem er á 4. stigi (lokastigi) þar sem hún ræðir um þessa leiki á facebook og segir sér ekki skemmt.

Textinn sem fólk fékk sem „varð það á“ að samgleðjast þeim sem vann 20 þús kallinn, eða setti athugasemd við að einhver hefði pissað á sig er eftirfarandi – og þar sjáið þið líka möguleikana.

„Nú verður þú að velja eitt af neðantöldu og setja sem status hjá þér. Þessi leikur snýst um meðvitund um brjóstakrabbamein árið 2019. Ekki skemma leikinn. Veldu eina setningu og settu sem status hjá þér.
1. Það er íkorni í bílnum mínum!
2. Ég notaði börnin mín sem afsökun til að sleppa við hraðasekt.
3. Hvernig losnar maður við fótasvepp?
4. Allir brjóstahaldarnir mínir eru týndir!
5. Ég held að ég hafi óvart tekið bónorði á netinu?!
6. Ég hef ákveðið að hætta að ganga í undirfötum.
7. Það er staðfest að ég er að verða mamma/pabbi.
8. Ég var að vinna tækifæri til að mæta í áheyrnarprufu í Jólastjörnur Bjögga!
9. Ég mun koma fram í næsta þætti af „Landanum“.
10. Ég er að fara fá apa!
11. Ég pissaði í buxurnar!
12. Er í alvörunni að hugsa um að fá mér púða í rassinn!
13. Ég vann 20 þúsund kall í Happaþrennunni!
14. Við flytjum til Vermont í lok árs!
Settu setninguna sem þú valdir í status hjá þér án útskýringa. Afsakaðu, ég féll líka fyrir þessu. Hlakka til að sjá statusinn þinn (ekki ljóstra upp um leyndarmálið). Og mundu að allt snýst þetta um vitundarvakningu um brjóstakrabbamein árið 2019. Góða skemmtun!“

„Afsakaðu ég féll líka fyrir þessu“ ..stendur þarna.    Já – fólk er platað og það fellur í gryfju – og ofan í gryfjunni á það að verða svakalega meðvitað og vakandi um brjóstakrabbamein???
Mig vantar greinilega bæði greind og húmor til að fatta tenginguna.

Ég held reyndar að það þurfi ekki leik til að vekja okkur til meðvitundar um brjóstakrabbamein eða annað krabbamein.  Við eigum flest – nær undantekningalaust – vini eða fjölskyldumeðlimi sem hafa greinst ef ekki við sjálf.

Það væri forvitnilegt að heyra frá fólki hvernig þessi „skemmtun“  jók meðvitund þeirra um brjóstakrabbamein og hvað fólkið gerði annað en að skrifa eitthvað fyndið á facebook í framhaldinu? –

Ég tek það fram hér í lokin að ég er í góðu skapi  þó mér sé ekki skemmt við þennan aprílsgabbsleik í október.   Markmið þessa pistils er að vera vitundarvakning  um það sem fólk er að taka þátt í á facebook og hvort það sé raunverulega til góðs, eða bara til að taka þátt í „leiknum“ ..  


personal-freedom

 

Ein hugrenning um “Vitundarvakning um brjóstakrabbamein – „Ég pissaði í buxurnar – góða skemmtun“

  1. Mikið lifandis skelfing er ég sammála þér, þetta er með eindæmum vanhugsað og hreinlega bara asnalegur „leikur“. Mig skortir líka gáfur til að skilja hvernig svona asnagangur á að hafa tengingu við vitundarvakningu um krabbamein.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s