Höldum dampi – og dveljum í kærleikanum … og gleðinni!

Þegar ég sat við dánarbeð dóttur minnar – á sjálfum jólunum, þá hugsaði ég; hvernig getur fólk verið „þarna úti“ og verið glatt og fagnað þegar heimurinn er að hrynja? –
Það var minn heimur – þá.

Það var hugsun þeirrar stundar,
það er hugsunin sem kemur fram í ljóði Audens – sem vill stöðva allar klukkur heimsins þegar ástvinur deyr. –

‘Stop all the clocks, cut off the telephone’

Stop all the clocks, cut off the telephone, 
Prevent the dog from barking with a juicy bone, 
Silence the pianos and with muffled drum 
Bring out the coffin, let the mourners come. 

Let aeroplanes circle moaning overhead 
Scribbling on the sky the message He Is Dead, 
Put crepe bows round the white necks of the public doves, 
Let the traffic policemen wear black cotton gloves. 

He was my North, my South, my East and West, 
My working week and my Sunday rest, 
My noon, my midnight, my talk, my song; 
I thought that love would last for ever: I was wrong. 

The stars are not wanted now: put out every one; 
Pack up the moon and dismantle the sun; 
Pour away the ocean and sweep up the wood; 
For nothing now can ever come to any good. 

W H Auden


Ég skildi það síðar að þannig virkar heimurinn ekki,  og á alls ekki að gera.

Við sýnum samhygð – en eigum að nýta allar mögulegar stundir til að vera glöð – og njóta á meðan við getum notið.

—–
Ég vil líta á heiminn sem kennslustofu – en eins og við sjálf leyfum börnunum okkar ekki að velja að fara í skóla – heldur er það skylda. Þá er það okkar skylda að sitja í þessum skóla og við fáum ekki að velja okkar námsgreinar.

Hvað er verið að kenna okkur núna? – Það er örugglega margt, en það sem ég vil leggja áherslu á er að sjá það sem vírusinn er að sýna okkur. Það eru engin landamæri. „Imagine there´s no country“ ..

Það eru ekki VIÐ og ÞIÐ – við erum öll í þessu saman. Leiðtogar eru hins vegar ekki að átta sig á því og þjóðernishyggjan birtist í því að kalla „SITT“ fólk heim.

„Já, bara ef að okkar fólk kemst í öndunarvél – þá skítt veri með hina? .. “

Ég hef hugsað margt í gegnum alla þessa vírusumræðu – en við sjáum varla neitt annað núna. Hvarf hungursneiðin? Hurfu allar aðrar plágur og stríð? – Hvar eru krabbameinsveik börn núna?
Vírusinn er grafalvarlegur og harður kennari – en við verðum að átta okkur á því hvað hann er að kenna.

Þegar ungt fólk deyr – segjum við gjarnan: „Þetta er svo óréttlátt“ og það er það svo sannarlega skv. okkar hugmyndum um réttlætið sem er:

Við eigum að deyja í réttri röð og allir að fá að deyja „saddir lífdaga“ ..

Hvað er kórónuvírusinn að kenna okkur? –

Mér finnst rétt að taka hin ungu framyfir hin eldri ef til kemur að það þurfi  að forgangsraða aðgengi að öndunarvélum. Þannig er okkar menning. Mér finnst ekki rétt að vera svona upptekin af því að kalla „okkar“ fólk heim því kannski er þetta ekkert lengur spurning um „Við og þið“ – heldur að við þurfum að læra að við erum öll íbúar á einum stað sem heitir JÖRÐIN.

Hið góða:

Við erum byrjuð að bregðast við með söng, með tónlist – íbúar standa á svölum og kallast á og hlusta – sem kannski hafa ekkert samband haft. Neyðin færir okkur nær hvert öðru og náunginn fer að skipta máli. Þegar ég greindist með krabbamein í annað skipti – þá hélt ég að ég væri dauðvona, enda komin á 3. stig á þeim skala, en ákvað að útbúa síðu sem hét „Tækifærið“ – Hvaða tækifæri liggja í því að vera greind með krabbamein?

Ný hugsun, nýtt mataræði, nýjar áherslur, njóta – eða eins og Stefán Karl heitinn orðaði það – og fleiri: „Lífið er núna“ –
Kóróna vírus er kennari og krabbamein er kennari. Við förum að hugsa öðruvísi. Hvað skiptir máli og hvað sjáum við? –

Kær æskuvinkona mín  lést úr krabbameini 2008. Hún hafði náð lexíunni áður en hún fór. Við vorum í göngutúr í Kópavoginum – og ég var að horfa á veggjakrot og sóðaskap í undirgöngum þar sem við gengum framhjá og ætlaði að fara að „fussa og sveija“ yfir þeim ófögnuði – þegar hún stöðvar mig með orðunum:

„Jóhanna sjáðu hvað himininn og skýin eru falleg!!“ .. Ég vaknaði, já vaknaði – og áttaði mig á hvar hugur minn var og fókusinn var. Það var hún sem vakti mig og sýndi mér fegurðina sem var allt í kring – en ég sá ekki fyrir ljótleikanum vegna þess að ég valdi að horfa á hann.

Já, við þurfum að vera raunsæ og ekki líta undan yfir því vonda sem er að gerast, en við verðum líka að gæta okkar að sogast ekki öll inn í sjúkraherbergið yfir þeim deyjandi.

Einhverjir verða að halda jól og hafa gaman og gleði – börnin okkar eiga það skilið, þeirra er framtíðin – og JÖRÐIN.

Höldum dampi og gleði – og verum eitt í kærleikanum.

Lífið heldur áfram ..

good

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s