SORG er yfirheiti yfir margar tilfinningar. Eins og risastórt mengi sem inniheldur margar tilfinningar sem við flokkum oft sem neikvæðar, svo sem, doða, reiði, söknuð, vonbrigði, vonleysi, depurð, máttleysi, afneitun, þunglyndi .. en sorgin á líka tilfinningar eins og von, þakklæti og sátt.
Við höldum stundum að sorgarferlið sé slétt og fellt .. og byrji með einni tilfinningu og færist svo yfir á aðra og endi bara í þakklæti og sátt. Það er ekki min upplifun, stundum geta allar tilfinningarnar komið á einum degi.
Fyrst hafa þær erfiðu þó oftast yfirhöndina – og maður trúir því ekki að maður komist yfir t.d. saknaðarpollinn. Svo kemst maður uppúr og yfir og labbar á þurru í einhvern tíma, en þá kemur kannski úrhelli og þá kemur nýr pollur, þó oftast minni en þeir voru í fyrstu. Maður hefur enga stjórn á því hvenær tilfinningarnar koma. Það er þó ýmislegt sem getur „triggerað“ þær – eitthvað lag, eitthvað sem er sagt – staður sem minnir á og svo framvegis.
Eitt dæmi um „trigger“ hjá mér – og að mér fannst veröldin grimm var þegar ég var send í jáeindaskanna til Danmerkur, áður en hægt var að fara í þennan skanna hér á landi. Skanninn var til húsa á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Eva mín dó á Ríkisspítalanum og mér fannst þessi bygging eins og ófreskja. Mér þótti það óhugnanleg hugsun að fara sjálf og leggjast í skanna – í sama spítala, en það skrítna var að það var gott þegar upp var staðið. Bara að mæta ófreskjunni! … Þess vegna tel ég ekkert endilega betra að forðast að hlusta á lög sem minna á þau sem við höfum misst – eða staði sem tengjast þeim á erfiðan hátt, eins og mér fannst með spítalann.
Annað sem er mikilvægt við sorgina við missi okkar nánustu, er að muna eftir þeim sem eru enn lifandi. Að eftirsjáin eftir hinum dánu verði ekki það sterk að við getum ekki horft fram á við og á þau sem eru hjá okkur hér og nú í lifanda lifi. Nota það að missa einhvern úr þessu jarðneska lífi, til að minna okkur heldur á að sinna enn betur þeim sem við þó höfum hjá okkur og höfum enn tækifæri til að eiga í samskiptum við.
Meira ætlaði ég ekki að skrifa í dag … en það er gott að muna eftir þessum „elementum“ sorgarinnar … von, þakklæti og sátt – því það eru hinir græðandi og heilandi þættir.