Jólabarnið

Það var eitt af mínum stóru gæfusporum í lífinu að vera kölluð til þjónustu sem sóknarprestur í árs afleysingu í Kirkjubæjarklaustursprestakall frá hausti 2018 fram á haust 2019. – Ég fékk hringingu í ágúst og var flutt á Klaustur í byrjun september. Ég hafði fengið spurnir af því hversu vel fólkið í Skaftárhreppi tæki á móti prestunum sínum, en móttökur voru samt framar vonum. Verkefnin voru nokkuð hefðbundin prestsverk, halda guðsþjónustur, sinna barnastarfi, sálgæslu, skíra, gifta og jarða – og auðvitað ferma. Eitt af verkefnum prestsins á Klaustri var að heimsækja eldri borgarana á Klausturhólum. Það eru tvær kynslóðir sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér; það eru börnin og það eru eldri borgararnir, þannig að það var mikil og einlæg tilhlökkun í mínu hjarta í hvert sinn sem ég rölti yfir (ég bjó á móti) til vina minni á Klausturhólum.

Aðra hvora viku var ég með helgistund í kapellunni, – og fólkið þurfti sko enga sálmabók – því þau kunnu sálmana. Sumir voru með alzheimer, en það er nú þannig með fólk með heilabilun gleymir síðast því sem það lærði á unga aldri. Hina vikuna sat ég í fallegri vinnustofu þar sem fólk vann við prjónaskap, hekl – eða var bara með, undir leiðsögn starfsmanns. Í þessum stundum las ég oft ljóð eða frásagnir af fólki og svo var það að ein heimilskonan fór að segja mér frá Aðalheiiði Bjarnfreðsdóttur, og lánaði mér bókina sem hafði verið skrifuð um ævi hennar; „Lífssaga baráttukonu“ – en Inga Huld Hákonardóttir hafði skráð. – Þessi bók varð síðan framhaldssagan okkar. Ég las nokkra kafla í hvert sinn og við ræddum þessa kafla og lýsingar á aðstæðum hennar í heimahögum kveiktu minningar hjá íbúunum og þeir lögðu orð í belg og útskýrðu meðal annars orð sem ég þekkti sjálf ekki vel, orð eins og „fátækraþurrkur“ – og bættu þannig söguna – og samverustundina.


Þegar ég vaknaði þennan aðfangadagsmorgun, kom í huga mér þegar ég las kaflann úr bók Aðalheiðar um jólabarnið. – Ég átti reyndar erfitt með lesturinn á tímabili þegar kom að einlægasta kaflanum, um jólabarnið. Hann snerti mína dýpstu hjartastrengi, því ég þekkti þessa kyrrlátu gleði sem Aðalheiður lýsti og mín jól með mömmu og systkinum mínum urðu ljóslifandi. Kannski fyrstu jólin eftir að pabbi dó – þar sem Lotta systir var „jólabarnið“ – liðlega eins árs og að geta fundið jólafrið og sátt í hjarta, bara með að sitja og horfa á jólaljósin á trénu. Ég var svo lánsöm að finna kaflann um jólabarnið í sögu Aðalheiðar – svo ég deili henni með þér með ósk um gleðileg jól!

Lífssaga baráttukonu – JÓLABARNIÐ:

„Strax í vetrar­byrjun fórum við börnin að hlakka til jólanna, þótt okkar jólaveislur mundu ekki þykja margbrotnar á nútíma mælikvarða. Það var öruggt, að jólin komu einu sinni á ári og nærri því jafn öruggt að eitt systkini bættist í hópinn einhvern tíma á árinu, Alltaf voru lítil systkini sem ekki mundu eftir jólunum. Þau spurðu margs. „Úr hverju eru jólin? Komu þau á bílnum hans Bjarna í Hólmi? Í hvernig fötum eru þau? Eru þau í stígvélum?“ Þessum og þvílíkum spurn­ingum man ég eftir. Auðvitað gekk fáfræðin fram af okkur sem eldri vorum, þó við hefðum gaman af. Við notuðum skamm­degið til að segja þeim allt um jólin og kenna þeim jólasálmana. Svo fór hátíðin að nálgast. Síðustu dagana var allt skúrað og skrúbbað og fjósið sópað hátt og lágt. Eitt olli alltaf heila­brotum; hafði pabbi náð í spil? Hann hristi höfuðið og við leituðum alls staðar en fundum ekki.

Mamma trúði á fátækra­þurrkinn, enda áttum við oft ekki nærföt til skiptanna. Aldrei man ég að það brygðist að hún gæti þurrkað það nauðsyn­legasta.
Á Þorláks­messu var hangi­kjötið soðið. Það held ég að pabbi hafi annast.
Mamma steikti hálfmána og kökur. Ekki laufa­brauð, heldur kökur. Ég veit ekki hvaðan hún hafði þann sið. Þetta var ekki gert almennt.

Svo kom aðfanga­dagur. Mikið var hann lengi að líða. Ég var elsta systirin heima frá sex ára aldri. Fljótlega tók ég að mér að þvo yngri systkinunum upp úr bala. Allir urðu að vera hreinir. Enginn möglaði. En tvennt er mér minnis­stætt í sambandi við þetta. Hvað þau voru eitthvað rýr og umkomulaus í baðinu, og hvað mér fannst þau falleg, þegar þau voru komin í hreint og sátu kyrrlát og eftir­vænt­ing­arfull og biðu jólanna. Svo höfðum við, þau eldri fataskipti og mamma fór í peysu­fötin. Ég man ekki eftir að hún færi í peysu­fötin heima, nema á aðfanga­dags­kvöld, og fyrsta daginn sem hún steig á fætur eftir barnsburð. Klukkan 6 varð heilagt. Eftir það mátti ekki deila og ekki segja ljótt. Húslestur var ekki lesinn en við sungum alla jólasálma, sem við kunnum. Svo kom maturinn. Fyrst þegar ég man eftir skammtaði pabbi hangi­kjötið. Heima var alltaf skammtað. Við vissum upp á hár hvernig mamma skammtaði. Hún reyndi að deila því sem til var sem jafnast milli allra. Sjálf borðaði hún það sem eftir var, oft kalt og lítið. En pabbi. Kunni hann að skammta? Gaf hann t.d. ekki Bergi bitann sem mig langaði í og mér bitann hans? Öll sátum við stein­þegjandi og pabbi fór sér hægt. En aldrei man ég eftir að neinn yrði óánægður með sitt. Þegar búið var að borða, gekk pabbi út, og þegar hann kom inn, dró hann spil upp úr vasa sínum og sagði: „Þau verða ekki snert fyrr en á morgun.“ Kerti fengum við alltaf, en jólagjafir voru óþekktar. En um það leyti sem ég komst á skóla­aldur, fór Gyðríður í Seglbúðum í Landbroti að senda okkur pakka fyrir jól. Ég veit ekki hvort ég man upp á hár hvað þetta var, en ég man að það voru nýir svartir ullar­sokkar og sauðskinnsskór handa okkur öllum. Þessir sokkar voru alltaf skóla­sokk­arnir mínir. Svo var líka sætabrauð.

Einu sinni man ég eftir að báglega horfði með pakkann frá Seglbúðum. Það var kominn aðfanga­dagur og ekkert var komið. Þar við bættist að mamma var eitthvað lasin og lá fyrir. Ég var orðin nokkuð stálpuð og nú horfðu öll yngri systkinin á mig. Eitthvað varð ég að gera. Björn elsti bróðir minn, var snemma duglegur og aðdrátt­ar­samur. Hann komst í vinnu í strandi. Fyrir kaupið sitt keypti hann sitthvað handa heimilinu, m.a. skipspönnuna. Þetta var stór og djúp panna með löngu skafti með krók á endanum. Ég tók mig til, hrærði fulla vatnsfötu af pönnu­köku­deigi og setti upp pönnuna góðu. Hún var svo þung að ég varð að nota báðar hendur til að velta henni til. Ég stóð og bakaði eftir hádegi frá klukkan eitt til fimm. Pönnu­kök­urnar urðu níutíu. Kannski hafa það nú frekar verið lummur. Varla hafði ég lokið bakstrinum þegar rösklega var barið og inn snaraðist Sigurður Einarsson, vinur okkar frá Steinsmýri, þá vinnu­maður í Seglbúðum, með jólapakkann. Hann hafði átt að koma daginn áður en eitthvað sérstakt kom fyrir sem tafði hann.
Ég hef oft undrast það á seinni árum, hvað við vorum róleg og stillt á aðfanga­dags­kvöld. Nú þætti ekki mikið við að vera. Engin leikföng, engar nýjar bækur, ekkert útvarp lengi vel. Bara heilög jól.

Yngsta barnið var kallað jólabarn. Það gekk á milli allra. Það var eins og okkur fyndist það í nánum tengslum við Jesúbarnið. Við sögðum þeim yngri falleg ævintýri og helgi­sögur. Ein af helgi­sögum mömmu var, að Jesú hefði fæðst um miðnættið. Við sem gátum vakað, vöktum þangað til. Þá stóðum við upp, röðuðum kertunum okkar saman og sungum „Í Betlehem er barn oss fætt,“ og þegar kom að erindinu „Hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér,“ þá var eins og rómurinn styrktist og birtan yrði skærari. Ég trúði því bókstaflega og ég er viss um að við öll og mamma, já og kanski pabbi, a.m.k. raulaði hann með. Við trúðum því, að Guð væri sjálfur gestur hér.
Þá kyrrlátu gleði sem sú vissa færði fátæku barni fær enginn skilið nema sá sem reynir.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s