Majoneskrukka og tveir bollar af kaffi ..

Dæmisagan um hvernig við forgangsröðum hefur verið í loftinu í langan tíma.  Veit ekki hver er höfundur hennar, en það er heldur ekki aðalmálið.

Ég hef skrifað um hana áður,  t.d. þegar ég skrifaði bloggið um Brian Tracy og að breyta gömlum siðum í nýja. –

Það blogg má lesa ef smellt er HÉR.

En sjaldan er góð vísa of oft kveðin, og ég sá nýja og eiginlega bestu útgáfu af sögunni áðan, þar sem systir mín setti hana á facebook-vegginn sinn.

Eftirfarandi er mín þýðing:

„Þegar þér er farið að líða þannig að þig vanti tíma í sólarhringinn, til að sinna því sem þú þarft að sinna, – lífið er að verða of stórt til að ráða við, – mundu þá eftir majoneskrukkunni og tveimur bollum af kaffi.  (Þetta er þýðing frá Bandaríkjunum og majonesið er yfirleitt í krukkum hjá þeim! – fann margar útgáfur af þessu á netinu).

Prófessor stóð fyrir framan nemendur sína í heimspeki og var búinn að raða nokkrum hlutum fyrir framan sig á borðið.

Í upphafi tímans tekur hann upp,  alveg þegjandi og hljóðalaust, mjög stóra majoneskrukku og fyllir hana af golfkúlum.

Þá spyr hann nemendur sína hvort að krukkan sé full.  Þeir samþykkja það.

Þá tók prófessorinn upp kassa af steinvölum og hellti þeim í krukkuna og hristi hana. – Þær hrundu inn á milli golfkúlanna.

Þá spurði hann aftur hvort að krukkan væri full, og aftur fékk hann samþykki nemendanna.

Þá tók prófessorinn upp kassa með sandi og hellti í krukkuna, og auðvitað fyllti sandurinn upp í restina af plássinu.

Hann spurði enn á ný hvort að krukkan væri full, og fékk hátt og snjallt, einróma svar:   „JÁ“ ..

Prófessorinn hafði geymt tvo kaffibolla undir borðinu, og nú tók hann kaffibollana og hellti innihaldi þeirra í krukkuna sem auðvitað var pláss fyrir og lak inn á milli sandkornanna. –

Nemendurnir hlógu.

„Núna“ – sagði prófessorinn, og hláturinn hjaðnaði, „Langar mig að biðja ykkur að átta ykkur á því hvað þessi krukka þýðir í ykkar lífi.

Golfkúlurnar eru það sem er mikilvægast í ykkar lífi –

Guð, fjölskyldan, börn, heilsan, vinir, uppáhalds ástríða. Hlutir sem að, ef allt annað væri tapað, og aðeins þeir eftir, væri líf ykkar samt fullt.

Steinvölurnar eru hlutir sem skipta máli, eins og starfið, húsið og bíllinn.

Sandurinn er allt annað,  litlu hlutirnir“  – sagði hann.

„Ef þú setur sandinn fyrstan í krukkuna, hélt hann áfram, „Er ekkert pláss fyrir steina eða golfkúlur.  Það sama á við um lífið. Ef þú eyðir öllum þínum tíma og orku í litlu hlutina, hefur þú ekki tíma fyrir það sem eru þér mikilvægastir.“ sagði hann þeim.

„Þannig að veitið því sem er mikilvægt athygli, hlutum sem skipta ykkur máli.  Metið fjölskylduna ykkar.  Leikið við börnin ykkar.  Bjóddu maka þínum út að borða.  Verðu tíma með góðum vinum.  Það finnst alltaf tími til að taka til og þrífa heimilið og laga lekann í krananum.  Hugið fyrst að golfkúlunum – hlutunum sem skipta raunverulegu máli.  Veldu þinn forgang.  Afgangurinn er bara sandur.“

Einn af nemendunum rétti upp hendi og spurði hvað kaffið stæði fyrir.  (ég er nú líka forvitin um það!) 😉

Prófessorinn brosti og sagði, „Mikið er ég ánægður að þú spurðir.  Það sýnir að hversu upptekin sem þú ert í lífinu, er alltaf tími fyrir kaffibolla með vini þínum.“

Ég kemst ekki hjá því að tengja einmitt þessa kaffibolla við systur mínar, – svo það er sniðugt að ég skyldi reka augun í  söguna með þessari útgáfu á síðu Lottu systur! –  Þar að auki,  var ég búin að ákveða ákveðna lífstílsbreytingu (ef það má kalla það það) en það er að vera duglegri að heimsækja einmitt vini og ættingja, eða fá þau með á kaffihús. – Minna af fjarveru og meira af nærveru. 😉  … það verður m.a. mín forgangsröðun.

Annar endir á dæmisögunni, er að bollarnir tákni „Care and Love“ eða umhyggju og kærleika. –

Sami hlutur? ..

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s