Hugrekki og trú …

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli.

Reinholdt Niebuhr

Fáar bænir segja meira í ekki fleiri orðum, eins og æðruleysisbænin. –

Ég verð að viðurkenna að í fyrstu þuldi ég þessa bæn án þess að tileinka mér hana, eða hugsa djúpt , og hugsaði ekkert endilega hvað væri þarna á bak við. –

Fyrsta orðið/hugtakið í bæninni er Guð, – því er þetta bæn til Guðs og með því erum við að biðja um hjálp sem er gjöf Guðs.-

Þessi Guð er sá/sú/það Guð sem er bara Guð út frá okkar sjónarhorni, eitthvað stærra okkur, eitthvað máttugra. Eitthvað sem bara ER. –  Eitthvað afl sem vill okkur vel og getur elskað okkur skilyrðislaust, en það er meira en við yfirleitt getum sjálf.  Þess vegna, m.a.,  er það stærra og meira.

Við getum líka séð þetta út frá því sjónarhorni að Guð sé ský, og við séum regndroparnir sem lendum á jörðinni, verjum þar tíma með öllum hinum regndropunum – og svo gufum við upp aftur og sameinumst skýinu. –  Skýið er alltaf stærra, en sama eðlis. Það harmónerar líka alveg við það að vera sköpuð „í Guðs mynd“ …

En útgangspunkturinn er að það segir ÞÉR enginn hvað og hvernig Guð er,  því að þrátt fyrir að við séum öll eins að því leyti að við erum líkami, sál og hugur, erum við öll einstök.  (Á sama hátt og engir tveir dropar eru 100%  eins í laginu)

ÞAKKLÆTI

Hinn djúpvitri höfundur Paolo Coehlo sagði einhvers staðar að ef við kynnum aðeins tvö orð, „hjálp“ og „takk“ á öllum tungumálum myndum við aldrei týnast. –   Stundum erum við eins og tveggja ára barnið sem er að reyna að reima á sig skóna, – við segjum „ég get“ en höfum ekki enn kunnáttuna.  Að sjálfsögðu höldum við áfram að reyna, en fáum hjálp þar til við höfum náð þeim þroska að geta reimað okkar skó. –

Að sama skapi, er mikilvægt að þakka fyrir, þakka fyrir það sem við höfum nú þegar og þakka fyrir þegar okkur er hjálpað. –

 Þakklæti elur af sér þakklæti. –

ÆÐRULEYSIÐ

„….æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.. “

Við biðjum um gjöf æðruleysis (serenity) til að öðlast sátt eða samþykkja  það sem er og við getum ekki með nokkru leyti breytt. –  Æðruleysið er í mínum huga, ró, friður, jafnvægi, sátt, dýpt, kyrrð.  Það sem við fáum stundum með því að stunda yoga, bæn, íhugun, hugleiðslu, slökun, með sporavinnu, úti í náttúrunni o.s.frv. –

 Við þurfum öll að finna okkar leið að æðruleysinu. –  En munum að leiðin er inn á við en ekki út á við. –  Við þurfum að nálgast okkur en ekki fara frá okkur. –

KJARKURINN

„….kjark til að breyta því sem ég breytt …. “

Það þarf kjark til að breyta, kjark gagnvart sjálfum sér, kjark gagnvart innsta hring og gagnvart samfélaginu. –

Þegar okkur langar að breyta heiminum, þá byrjum við á byrjuninni: okkur sjálfum –  Það þarf hugrekki til þess.

Við þurfum að hafa nægilegt hugrekki til að ganga inn í óttann, og þá er gott að vita að við göngum ekki ein og þá leitum við aftur til Guðs sem gengur með okkur. –  Höfum nægilega trú til að gera það sem við óttumst. –  Horfast í augu við okkur sjálf og náunga okkar.  Náunginn getur verið einhver í fjölskyldunni, vinahóp eða eitthvað ókunnugt fólk. Fólk sem þú býst við að leggi dóm á það sem þú ert að gera. –  Við getum einnig verið okkar hörðustu dómarar og því þurfum við að mæta eigin dómhörku með hugrekki. –  Þá er gott að hafa Guð með sér, því að Guð elskar skilyrðislaust. –

VAL

Samfélagið tekur okkur ekki endilega vel þegar við förum að fella af okkur hlekki skammar og ótta. –  En við getum valið á milli frelsisins að vera við sjálf og fangelsins að þurfa að lifa eftir því sem aðrir vilja og segja okkur. –  Nú eða eftir því sem við HÖLDUM að aðrir vilji, því oft er það bara okkar mistúlkun eða ranghugmyndir um vilja annarra í okkar garð.

(Að sjálfsögðu verðum við að vera ábyrg gjörða okkar, og virða þau sem eru í kringum okkur, og sinna þeim skyldum sem við höfum tekið að okkur, sérstaklega þegar um börn er að ræða, og okkar frelsi má ekki felast í því að hefta aðra eða beita þá ofbeldi).

Kjarkurinn kemur frá kjarnanum, – frá hjartanu sem yfirleitt veit hvaða leið er best, en við þurfum að sjálfsögðu að vera viðstödd kjarnann til að heyra hvað þar hljómar. –  Ef röddin í höfðinu er hávaðasöm, eða raddirnar sem koma að utan, truflar það oft rödd hjartans. –  Oft er talað um „úrtöluraddir“ – og áhrif þeirra. –  Úrtöluröddin eða niðurrifsröddin er líka okkar innri rödd, sem stundum hlustar á úreltar eða útrunnar hugmyndir um okkur sjálf og segir með hásum rómi „Hvað þykist þú vera?“ –  „Þú getur ekki“ .. o.s.frv.  Hverju ætlar þú að trúa? –

„… og vit til að greina þar á milli.“

Hvernig greinum við á milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki breytt? –

Sumt er borðleggjandi;  Við getum ekki breytt fortíðinni, en við getum breytt viðhorfi okkar til fortíðarinnar. –

Þegar við glímum við  vandamál  þurfum við fyrst að sjá vandamálið, svo orsakir þess,  þá hvaða lausnir eru í boði – er hægt að breyta eða þarf ég að sættast við aðstæður mínar? –  Og hvað felst í sáttinni?

Við verðum að taka ákvörðun, og við þurfum vit til að velja hvort og hverju við getum breytt. –

Gremja yfir stöðu okkar, eyðir orku okkar og heldur aftur af eldmóði okkar.

Í stað þess að fyllast gremju yfir aðstæðum, samþykkjum við þær og byrjum frá þeim punkti að gera eitthvað í aðstæðunum. –

Einhver gæti farið að berja sig niður fyrir að vera búinn að koma sér í vondar aðstæður, hafa farið illa með líf sitt – hingað til – en það að berja sig niður byggir ekki upp –  Við berjum ekki sáttina í okkur.  Það hjálpar heldur ekki til að fara í ásakanagírinn, jú – það getur vel verið að það hafi verið komið illa fram við okkur, en það að fyllast gremju yfir því, bitnar ekki á þeim heldur okkur.

NÚIÐ

Að sættast við það sem er, þýðir ekki að við séum að gefast upp, heldur að samþykkja núið, – samþykkja og gera okkur ljósa stöðu okkar,  sjá raunveruleikann til að geta haldið áfram. –

Þetta er að doka við, viðra fyrir okkur útsýnið, spyrja til vegar og leita hjálpar ef það þarf, en ekki vaða áfram bara eitthvað út í bláinn og á sama vegi og kom okkur í villuna.

Með samþykkinu á því sem er, stöðvum við, sorterum það sem við þurfum að taka með okkur,  hvað ætla ég að taka með mér og hverju ætla ég að henda.

Með sáttinni erum við lögð af stað nýja leið, með því höfum við breytt án þess að breyta. –  Eins mótsagnakennt og það hljómar. –

Við getum breytt okkur, hugarfari okkar og sjónarhorni.

Ef við stöndum inní herbergi og horfum upp, sjáum við aðeins upp í loft, en ef við göngum nokkur skref, út um dyrnar sjáum við himininn. –

Ef við förum með þetta hugarfar inn í líf manneskju sem er búin að missa tökin á mataræði, peningum, sambandi, vinnu .. eða hverju sem er,  þá þarf hún fyrst að opna augun og samþykkja ástandið,  viðurkenna það en ekki afneita,  samþykkja það eins og það er og sættast við – fyrirgefa sjálfri sér fyrir að vera komin þangað sem hún ætlaði sér ekki,  skoða hvaða leið hún fór og hvað það var í hennar lífi sem leiddi til þess að hún villtist af leið.

Þá er farið í það að sortéra,  greina og átta sig á því hvað það er sem leiddi hana afvega og hvað það er sem hélt henni þó inni á veginum sem hún vildi. –

Það þarf að velja á milli þess sem er enn nýtilegt og þess sem er löngu orðið súrt og komið langt fram yfir dagsetningu.  Var jafnvel ónýtt frá upphafi. –

Svo þegar við höfum staldrað við, þá er að halda áfram með þann kjark að sleppa þeim hækjum sem í raun voru hlekkir sem héldu okkur niðri. –

Við þurfum að lifa í þeirri trú að Guð styðji við okkur,  þegar okkur finnst við vera að detta. –

Það má nota líkinguna af barni sem er að læra að hjóla án hjálparadekkja. Foreldrið heldur við, og svo einn daginn hjólar barnið og heldur að foreldrið haldi við, en um leið og það uppgötvar að foreldrið heldur ekki lengur,  þá missir það kjarkinn og dettur. –  En auðvitað getum við líka treyst því að mamma eða pabbi styðji okkur á fætur á ný. –

En hversu velviljuð sem foreldrar okkar eru, með allan sinn stuðning og elsku,   þá erum það alltaf við sjálf sem þurfum að læra að hjóla …

Ein hugrenning um “Hugrekki og trú …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s