Með hjartað í brjóstahaldaranum …

Neale Donald Walsch – sá hinn sami og segir frá samtölum sínum við Guð, segir að við séum alltaf að fá skilaboð frá Guði,  þau geta birst sem orð í dagblaði, setning sem talar til þín úr ljóði, eða bara komið sem skilaboð með fólki. –

Vegna þess að ég þykist stundum vera svo meðvituð, held ég að ég sjái þau alltaf,  en eflaust fara þau mörg framhjá mér – kannski vegna þess að ég er ekki að veita þeim athygli, hlusta ekki og sé ekki. –

„Sá sem augu hefur hann sjái,  sá sem eyru hefur hann heyri“ –

En það er ekki alltaf svo.

Það var í ágúst 2012 að ég var í fimmtugsafmæli vinkonu minnar, var búin að skemmta mér mjög vel auk þess að vera veislustjóri.  Þemað mitt var „kærleikur“ – og hafði ég keypt límband og límt það inn í möppu fyrir afmælisbarnið ásamt ýmsu propsi, en á límbandinu stóð „kærlighed“  –  enda keypt í dönsku verslunarkeðjunni Tiger.

Þar verslaði ég líka falleg rauð steinhjörtu og hafði sett eitt inn í brjóstahaldarann til að hafa í hjartastað (ein af mínum sérviskum) og ætlaði jafnvel að nota það sem einhvers konar gigg í afmælinu, – ef að sú staða kæmi upp, en það væri pínu í anda Siggu Kling sem raðar steinvölum í sinn haldara,  og dreifir. –

Ég var ekki nógu frökk um kvöldið og leyfði steininum að hvíla í friði! 😉 ..

Um eitt leytið var ég orðin lúin, búin að drekka nokkur hvítvínsglös, en lá vel á mér – (s.s. ekki of mörg glös) og við ákváðum að panta leigubíl.  Fórum við í samfylgd,  ég og síðan vinkona mín og maðurinn hennar enda öll á leið í 101.  –

Þau settust í aftursætið, og ég í framsætið, – en bílstjórinn var notalegur eldri maður og var hann að spila hlýlega Salsa tónlist. – Ég hreifst strax af tónlistinni og bauðst hann þá til að hækka. –  Við fórum síðan að ræða um lífið og tilveruna, börn, barnabörn,  sjósund, sumarbústað fjölskyldunnar við Hreðavatn og síðast en ekki síst Tango og Salsa.  Sagðist hann fara reglulega að dansa,  bæði í Iðnó og Thorvaldsen og hvatti okkur til að prófa það. –

Jæja, þegar við vorum komin á fyrri áfangastað réttu vinir mínir fram visakort og vildu borga bílinn,  en leigubílstjórinn sagði þeim að láta það vera. –  Við urðum smá spurningamerki, en hann sat fastur við sinn keip. – Þá héldum við áfram ég og hann og enduðum á Holtsgötu, en héldum áfram að tala um dansinn.  Ég var auðvitað kurteis og tók upp veskið,  en hann ítrekaði þá að hann vildi enga greiðslu,  hann væri búinn að þiggja svo mikinn kærleika þetta kvöldið að hann þyrfti enga greiðslu 😉   … Ég verð að viðurkenna að ég fékk trú á mannkynið og kærleikann þetta kvöld. –  Ég þakkaði honum auðvitað hjartanlega fyrir elskulegheitin, – hljóp létt á fæti inn – og þegar ég háttaði var ég búin að gleyma hjartanu í brjóstahaldaranum sem valt nú fram á gólfið………..

Þessi saga er frá því í ágúst – og nú er kominn febrúar, bráðum mars og ég enn ekki farin að dansa!  Að dansa er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og fyrir utan það að vera góð hreyfing. (Búin að ákveða eitt lag fyrir útförina mína og það er Dancing Queen með Abba, ekki ráð nema í tíma sé tekið!)

Í morgun var ég á fundi þar sem þessi saga rifjaðist upp, – ég ætla að íhuga það hvort að ég hafi bara horft fram hjá því að Guð hafi verið að senda mér skilaboð um að fara að dansa, – en hvort sem það eru skilaboð frá Guði, alheiminum eða leigubílsjóra er kominn tími til að dansa!

Ein hugrenning um “Með hjartað í brjóstahaldaranum …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s