Hvað hefur hugrekki með heiðarleika að gera?

Ég hlustaði á mjög góðan fyrirlestur á ted.com,  þar sem rannsóknarprófessorinn og fyrirlesarinn Brené Brown sagði sína reynslu og frá sínum rannsóknum á „Mætti berskjöldunar“ eða mætti þess að fella varnir.    „Power of Vulnerability“ ..

Það er hægt að  skoða margt í þessum fyrirlestri,og ég er búin að skrifa marga punkta, en það sem mér er efst í huga núna er það sem hún minntist aðeins á en það er hugrekkið, eða „courage“ .. 

Íslenska orðið hugrekki bendir til hugans, en courage bendir til hjartans, en er komið af latneska orðinu cor, sem þýðir hjarta. Á frönsku er hjartað coeur.  Úr enskunni þekkjum við svo orðið core og notar það fyrir kjarna. 

En hugrekkið er eitthvað sem kemur frá kjarnanum, frá hjarta manneskjunnar. Það er þó umdeilt í  andans fræðum hvort að kjarni hugsunar manneskjunnar sé í maganum (gut feeling)  eða hjartanu (follow your heart).  Kannski bara bæði og það skiptir ekki höfuðmáli.  

En hvaða hugrekki er Brené Brown að tala um?  Hún er að tala um hugrekkið: 

– við að sætta sig við að vera ófullkomin

– við að leyfa sér að lifa, 

– við að  lifa eins og við viljum sjálf 

–  að lifa eins og við erum í innsta kjarna en ekki eins og utanaðkomandi vilja eða halda að maður vilji lifa

– að lifa eins og við erum í innsta kjarna, en ekki eins og við HÖLDUM að aðrir vilji að við lifum. (Sjá t.d. söguna um hjónin og rúnstykkið).

–  til að meta sjálfa sig sem gilda manneskju

 ——–

Fólk sem er tilbúið að faðma sjálft sig fyrst og svo aðra, er hugrakkt, það óttast ekki að AÐRIR álíti það sjálfselskt!

 Fólk sem er tilbúið að vera það sjálft, láta af því að vera það sem aðrir vildu að þeir væru.

– til að samþykkja varnarleysi sitt eða viðkvæmni sína.

Það þarf hugrekki til að ganga inn í erfiðar tilfinningar, við eigum það til að svæfa þær eða deyfa með neyslu, fá okkur tvo bjóra, rauðvínsglas, of mikið af mat.  En málið er að það skilar okkur ekki hamingjusömum, heldur er skammgóður vermir (eins og að missa piss í skóna).   

Til að geta upplifað hamingju, gleði, ást – þá þurfum við líka að hafa hugrekki til að ganga inn í andstæðuna; óhamingju, sorg, reiði o.s.frv.  Það er það sem það þýðir að vera tilfinningavera.

Að fara inn í sorgarferli krefst því hugrekkis.  Nýlega var grein þar sem var talað um að fólki væri gefið lyf við sorg. Það er ekki lækning, aðeins deyfing.  

Hugrekki – er þá þor til að takast á við tilfinningarnar, horfast í augu við þær, vera sýnilegur þeim og fólki út á við.  Jafnvel bera þær á torg, sem þótti mikið tabú hér áður.

Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga inn í aðstæður, án þess að vita hver útkoman verður.

Ástæðan fyrir því að við oft höfnum ást er óttinn við að vera hafnað sjálfum, eða óttinn við að særa aðra.   Það þýðir að við erum farin að setja óttann í forgang fyrir ástina.  Hugrekki er að fara af stað þrátt fyrir óttann, þannig sigrumst við á honum. Útkoman verður bara að koma í ljós, en ef við stöðvum okkur vegna óttans verður engin útkoma og við lifum í stöðnun. 

Það sem hér á undan kemur er blanda af mínum eigin hugrenningum og Brene Brown. 

Hlustið endilega á  Brene Brown (smellið á nafnið hennar).  það er margt sem hægt er að læra af henni.

Fann svo þessa fallegu mynd af jörðinni sem hjarta – það er gott að hugsa til hennar sem hjartað sem slær fyrir okkur öll sem eitt. 

  heart_earth.jpg

 

 

 

 Það er svo mikill léttir 😉 .. og að þurfa ekki alltaf að vita „hvað næst“ og hvernig fer þetta eða hitt.  Það stöðvar mann í áskorunum sem okkur er ætlað að takast á við, aftengir okkur frá fólki sem okkur er ætlað að þekkja og kynnast.  Við þurfum ekki, og eigum ekki, að vera alltaf að skammast okkar fyrir þetta og hitt.  „Skammastu þín“ er eitt það ljótasta sem hægt er að segja við fólk, hvað þá við okkur sjálf. 

Ein hugrenning um “Hvað hefur hugrekki með heiðarleika að gera?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s