Eftirfarandi pistil birti ég upphaflega á Pressunni í júní 2011. –
Við munum eflaust flest eftir því sem börn þegar einhver spurði, “viltu vera memm” og hjartað tók örlítinn kipp af gleði, yfir því að einhver sóttist eftir vináttu okkar.
Það er misjafnt hvort að við sækjumst eftir vináttu eða til okkar er sótt. Oftast eru þeir sem sækjast eftir vináttu, hugrakkari, því margir eru hræddir við höfnun, – “hvað ef að hinn segir nú nei”!.. Jafnvel þó að höfnunin hafi lítið sem ekkert með þig að gera, hún sé af ástæðum sem eru ekkert persónulegar. Skemmst er nú að líta til rafrænnar vináttu, þar sem sumir jánka öllum sem banka á vegginn, en aðrir vilja bara hafa sinn þrengsta hring sem fésbókarvini.
Það fer eftir forsendum okkar á miðlinum. Höfnun hefur því sjaldnast neitt með þig persónulega að gera. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum var hugleiðing út frá umræðum um nemendur og skóla, mikilvægi þess að tilheyra hópi.
Við höfum reyndar öll þörf fyrir að tilheyra hópi.
Í félagsfræðinni er talað um félagsleg festi, og þegar ég var að útskýra það fyrir nemendum mínum, – teiknaði ég mynd af perlufesti, þar sem hver perla væri hópmeðlimur. Hópurinn getur verið fjölskylda, vina- eða kunningjahópur, félagasamtök, íþróttafélag eða hvers konar hópur sem maður tilheyrir. Ekki er verra ef hópurinn á sameiginlega reynslu.
Hvað áttu margar svona (perlu)festar í þínu lífi?
Það virðist skipta okkur miklu máli að tilheyra hópi, að vera samþykkt af hópi og eiga samskipti innan hóps. Samvera er andheiti orðsins einvera. Í samveru nærum við þörfina til að þiggja og gefa.
Nemendur sem eru félagsfælnir, eða eiga erfitt með að nálgast aðra að fyrra bragði, þurfa samt sem áður á samveru að halda. Þess vegna er betra fyrir slíka aðila að vera í bekkjarkerfi en í opnu kerfi, þar sem þarf að hafa fyrir því að nálgast aðra.
Kunningjahópar virðast oft myndast í gegnum sameiginleg áhugamál eða markmið. Kannski leitum við að þeim sem eru líkust okkur og tengjumst best.
Vegna þess að við erum mismunandi tengjumst við fólki á mismunandi hátt. Sumum löðumst við að umsvifalaust, eins og við höfum alltaf þekkt þau, en önnur virka næstum eins og rafstraumur á okkur og við hrökkvum í burtu. Oftast byggir þetta á okkar eigin viðhorfi, viðmóti, sýn, sjálfsöryggi og því að vera tilbúin að taka náunganum eins og hann er. Þegar okkur finnst allir eða flestir orðnir leiðinlegir eða fúlir, þá er kominn tími til að líta í eigin barm. (Mjög mikilvæg lexía!) Kannski erum við bara sjálf ómöguleg og illa upplögð?
Grundvallarreglan er gamla klysjan um súrefnisgrímurnar í flugvélinni, anda að sér fyrst og sinna svo barninu. Súrefnislaus erum við einskis nýt og getum ekkert gefið af okkur. Við getum kannski gefið í stutta stund en verðum svo andlaus. Þess vegna þurfum við að spyrja okkur sjálf fyrst “viltu vera memm” – vera vinur eða vinkona okkar sjálfra, og þegar við höfum játast okkur sjálfum og eignast eigin vináttu verður hitt miklu auðveldara, við verðum miklu hugrakkari og við eigum auðveldara með að deila vináttu okkar. Þó einhver vilji ekki vera memm, þá blásum við á það, “Their loss” og höldum áfram að hitta aðra sem eru á okkar línu, eða eigum við að segja sem passa í okkar perlufesti? Þú ert dýrmæt og náttúruleg perla, farðu vel með perluna þína og kastaðu henni ekki fyrir svín. Veldu þér félagsskap sem samþykkir þig eins og þú ert.
„The most abrasive sand creates the most radiant pearls…“