Framhald um meðvirkni og góðmennsku ..

Þessi pistill, er í raun framhald af fyrri pistli, sem ég birti undir heitinu „Meðvirkni er ekki góðmennska“ – og má lesa hér á undan þessum.  Þessi er þó sjálfstæður. –

Ef að gjörðir okkar snérust aðeins um mig, eða aðeins um þig, þá væri þetta ekkert voðalega erfitt. –  Stundum eru dæmin miklu flóknari, og oftast – því að þegar við förum að tjá okkur um sögu OKKAR, erum við ekki ein í heiminum, heldur er fullt af fólki þarna í kring.  „Hvað ef ég segi frá þessu, er ég að rjúfa leyndarmál ekki bara mitt, heldur hinna og hvernig verða viðbrögðin?“ – Verð ég bara einhvers konar hornreka í eigin fjölskyldu? –

Orð hafa áhrif, og það er því nauðsynlegt að biðja aðstoðar Guðs/æðri máttar,  eins og gert er í æðruleysisbæninni,  þar sem við biðjum um hjálp um sátt við það sem er og við getum ekki breytt,  hugrekki til að breyta því sem við getum breytt og vit eða visku til að greina þar  á milli. –

Það er e.t.v. fyrsta skrefið, en svo að leita sér hjálpar ekki bara æðri máttar, heldur mannlegs máttar,  en til þess eru sálfræðingar, geðlæknar, prestar og auðvitað við starfsfólk Lausnarinnar,  sem erum búin að kafa djúpt í orsakir meðvirkni,  okkar eigin og annarra. –  Þeir eru þó reyndari samstarfsfélagar mínir,  enda ég frekar nýgræðingur á svæðinu. –  (Skoh, byrja ég: „I´m not good, and not worthy“ 😉 .. )

Ég er þó ekki nýgræðingur í að vera meðvirk!

Meðvirkni er svoooo smitandi,  eða afleiðingar hennar.  Ég ætla að halda áfram að segja frá sýndarveruleikakonunni henni Önnu.    Eins og fram hefur komið var maður Önnu bæði búinn að halda framhjá henni og svo átti hann við drykkjuvandamál að stríða, – var með öðrum orðum virkur alkóhólisti og hún virkur meðvirkill. –

Anna var búin að kyngja gremju sinni, – fletta upp í „gullkornakistunni“  – Já, já, sá vægir er vitið hefur meira, – hún ætlaði ekki að halda til streitu neinum  leiðindum gagnvart Tedda. –  Fyrirgefa honum bara sem sannkristin manneskja, – ekki vera að ýfa upp meiri öldur,  enda var Teddi í þokkalegu jafnvægi þessa vikuna, –  fyrir utan þarna þegar hann kom heim drukkinn í leigubílnum um nóttina og hafði týnt veskinu sínu,  svo hún þurfti að koma út, „svona getur nú komið fyrir besta fólk“! ..      Svona var sjálfssefjunartal Önnu, en inní henni var kvika, – kvika gremju og reiði,  kvika skammar fyrir að standa ekki með sjálfri sér,  kvika sem hún fann að stækkaði í maganum hennar. –

Anna hafði haldið því leyndu fyrir fjölskyldunni hvernig Teddi hafði komið fram við hana.  Ekki bara til að hlífa honum, – Ekki bara til að hlífa öðrum fjölskyldumeðlimum .. hmmm? – Hvað meina ég með þessu? –

Hún var að hlífa sjálfri sér,  því hún skammaðist sín innst inni fyrir að hafa leyft honum að komast upp með allt sem á hafði gengið í gegnum árin.  Þegar hann henti út í brjálæðiskastinu og ölæðinu  um miðja nótt á náttfötunum. –  Þegar hann reif  í blússuna hennar og hún rifnaði – þegar hann var að ásaka hana um að vera of glyðrulega klædd. –   Þegar dóttir þeirra hafði séð blússuna sagðist hún hafa krækt henni í krók útí gróðurhúsi og blússan rifnað. –   Hún var að ljúga fyrir pabbann,  fyrir sjálfa sig til að fela skömm sem hún taldi sína og var að „hlífa“ dótturinni svo hún vissi ekki hvernig pabbi hennar kom fram við hana. –

En allt þetta og meira til hafði haft niðurbrjótandi áhrif á Önnu,  hún var farin að skammast sín fyrir tilveru sína, – og þurfti því enn meira á að halda að hún fengi utanaðkomandi klapp á bakið og að heyra að hún væri nógu góð. – Vítahringurinn versnar og vernsar. –

En Anna mætti í vinnunna, – hún var skólaritari í grunnskóla og hún var venjulega hress og kát og setti jafnvel upp sparibrosið, – henni leið oftast  vel í vinnunni, en hún fann að kvikan var orðin henni næstum ofviða. –  Hún hvæsti þá á nemanda sem kom of seint, – gekk um og skammaðist og reifst. –  Það voru allir sem voru farnir að finna fyrir vanlíðan Önnu og sumir kölluðu hana herforingjann, þegar hún fór yfir strikið í skapofsanum. –  Dóttirin sem hún hafði verið að hlífa heima fann líka fyrir vanlíðan mömmu sinnar. – Því að auðvitað fann hún spennuna,  en skildi engan veginn hvað var þar á bakvið.

Engar tilfinningar ræddar og það ruglaði auðvitað tilfinningaástandi dótturinnar.  Af hverju var sagt að allt væri í lagi þegar ekki var allt í lagi? – jú það var einu sinni þegar að ekki var hægt að fela,  dóttirin hafði séð ástandið.  Þá ræddu þau um að halda þessu fyrir sig, innan fjölskyldunnar,  og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist.

En það hafði „í skorist“  og skoran fór ekki í burtu. –  Þarna var dóttirin búin að fá „kennslustund“ í því að halda leyndarmál, jafnvel eitthvað sem hún hefði þurft að ræða,  en virti heiður hússins, þ.e.a.s. fjölskyldunnar, sem var þó bara gerviheiður. –

Anna ber ekki virðingu fyrir eigin tilfinningum,  hún virðir ekki sín mörk, henni finnst aðrir merkilegri en hún sjálf, en á vissum stöðum verður hún alvitur og best og er því æðri öðrum,  en Anna er óhamingjusöm,  því að kvikan og skömmin vex innra með henni. –

Hvað getur Anna gert? –

Hvar á hún að fá hjálp? –

Hvað ef þessi kvika væri krabbamein? –  Myndi Anna bara hunsa hana? –

Eflaust ekki.

Þegar kvikan er orðin svona sterk,  hraunið utan um sálina farið að skyggja á útgeislunina og þá um leið lífsneistann,  þá er auðvitað lífs-nauðsynlegt að leita sér hjálpar. –

Það þarf fyrst og fremst að segja frá.  Þó ekki sé sagt öllum heiminum,  þá þeim sem kemur þetta við og það hefur áhrif á. –  Svo er hægt að leita til trúnaðarmanneskju sem hefur vit á meðvirkni. –

Enginn á að sitja einn með leyndarmál eða skömm. –  Það er alltaf einhver þarna úti sem gæti hlustað án þess að dæma.  Það er mjög mikilvægt að hlustandinn sé fær um það.  Hversu hrikalegt sem málið hljómar og er,  þá er það svo skrítið að við það að deila með öðrum þá léttir á. –

Margir halda að þeir séu að missa vitið  þegar þeim er farið að líða svona illa út af meðvirkninni,  og það vantar oft ekki að t.d. maki haldi því að viðkomandi að hinn aðilinn sé í raun bara geggjaður! ..

Það er alveg rétt að sá meðvirki verður týndur,  týnir spegilmynd sinni.  Sér í speglinum flesta aðra en sjálfa sig og jafnvel löngu farna forfeður og mæður, – en kannski sér hann engan í speglinum.  Bara tóm. –

Það er mikilvægt að hér komi fram að bæði Teddi og Anna eru meðvirk. – Og sambandið er aldrei heilbrigðara en veikari aðilinn er.  Í raun eins og fyrirtæki er jafn sterkt og veikasti hlekkurinn.  –  Hjónaband þeirra er svokallað þarfasamband,  þar sem þau eru háð (codependent)  hvoru öðru. –  Teddi er voða fegin að Anna er svona opin og skemmtileg og sér um samskiptin við aðra, hann er það bara þegar hann er í glasi, – en í raun er hann hrikalega lokaður og feiminn,  enda sjálfur með þannig „forritun“ frá bernsku.

Hann var barnið sem kom heim með 9.5 í einkunn úr smíðakennslunni, og þegar hann var 12 ára kom hann heim með þennan flotta skjöld sem hann hafði smíðað.   Pabbi hans hafði litið á skjöldinn og sá á einum stað að vantaði að pússa betur, og sagði – „já, ég skil af hverju þú fékkst ekki 10“ .. og ekki orð um það meir! – (Börnum var ekki hrósað, því þau gætu orðið of montin) – Pabbi Tedda var jafnframt þessi harða týpa sem „beit á jaxlinn“ – og „vældi ekki eins og kerling.“ – Mamma hans var aftur á móti róleg týpa sem stjórnaði umhverfinu með píslarvotta hegðun og  samviskustjórnun. –

Teddi gerði aldrei neitt nógu vel,  að eigin mati – hann hélt s.s. við mati föður síns,  og þráði eins og Anna að fá hrós, viðurkenningu, athygli á réttum forsendum, þó hann skildi það kannski ekki sjálfur.  Honum leið ekki skár en Önnu og lét það bitna óspart á henni. –   Hann ræddi ekki tilfinningar sínar, „bar ekki sín vandamál á torg“ –  Hann var ekki að leita sér hjálpar eða ræða við einhvern „Gvöð“ –  heldur drakk hann úr flösku. –

Anna leitaði aftur á móti í súkkulaðið,  sem flóttaleið þegar kvikan gerði vart við sig, –  hún gat ekki gengið í gegnum tilfinningarnar, hún fór frekar að baka eða borða. –  Það var ekki í boði að ræða neitt. –

Óyrtar tilfinningar,  ósögð orð, upphlaðin skömm og sektarkennd,  hausinn fullur af súrum og útrunnum skilaboðum frá bernsku sem er viðhaldið af innri rödd sem er ekki lengur þín eigin. –

„You have to see your pain to change“  sagði sálfræðingurinn Sophie Chiche þegar hún var að segja frá leið sinni að komast frá A til B í lífinu og þar sem hún lenti alltaf í svartholi. –

Við þurfum að þekkja einkennin og virða þau til að breyta.

Við höfum notað þessar útrunnu hugsanir um okkur sjálf allt of lengi:  „Hver þykist þú vera“ – „Þú ert ekki verðug/ur“  „Þú ert algjör lúser“ –  „Þú átt ekkert gott skilið“ – „Þú gerir aldrei nógu vel“ … og svo framvegis og svo framvegis. –

Ástæðan fyrir því að ég hef verið að prédika fyrir fólki að tala jákvætt við sjálft sig,  koma með jákvæðar staðhæfingar,  er vegna þess að það er sem móteitur við þessari neikvæðu útrunnu rödd. –

Fólki finnst væmið, skrítið og óeðlilegt að tala fallega um sig, og jú, því finnst það ekki eiga það skilið! –  Hringir þetta einhverjum bjöllum? –

Ef við höfum hatað okkur næstum allt okkar líf, hafnað okkur, óvirt og vantreyst,  þá er viðsnúningur aldrei of seinn.   NÚNA er punkturinn að snúa við tannhjóli neikvæðninnar,  – tala fallega í eigin garð, líka um líkamann okkar,  aldrei hata neinn part af okkur. –  Heldur sættast við hann. –  Öll eitruðu spjótin í eigin garð virka sem eitur. –  Öll eitruðu spjótin í garð annarra virka líka sem eitur á okkur,  vegna þess að þau eru eins og bjúgverpill,  – það er karmað, það er bergmál lífsins.  – Ef við tölum illa um aðra, erum við að tala illa um okkur sjálf,  því að við erum þegar upp er staðið ÖLL EITT mannkyn. –

Öll vorum við saklaus börn, – það gerðist eitthvað á leiðinni, – og skyggja eitthvað á perluna okkar,   sálina okkar.   Okkur batnar ekki við að kenna öðrum um,  okkur batnar ekki við að óska öðrum óhamingju.  Okkar hamingja bætist ekki við það,  það er amk ekki raunveruleg hamingja að sjá aðra engjast um.  Það er hefndarþorstinn sem ræður. –

Drykkurinn sem svalar þeim þorsta er ekki hollur. –

Þegar við komumst svo út úr hausnum á öðrum,  og náum að dvelja í sjálfum okkur, – virða, elska og treysta,  fara að veita sjálfum okkur athygli. –  Þá erum við komin á ágætan stað. –

Leiðin er að tjá sig,  nota fallegt tungumál, velja sér vini og holla andlega næringu (líka í fjölmiðlum)  virða sín mörk,  samþykkja sig sem ófullkomna manneskju og fyrirgefa sér það af einlægni,  – líka þegar við gerum mistök,  ekki dæma, ekki fyllast sektarkennd því það startar vítahringnum aftur. –

Við þurfum að komast upp úr gamla farveginum, – breyta viðhorfum okkar til sjálfra okkar og tilverunnar.  Æfa okkur í hamingjunni. –

Sophie Chiche, sálfræðingurinn franski,  sem ég minntist á hér fyrr,  var spurð hvernig hún hefði farið að því að losa sig við 40 kíló,  – en hún svaraði að bragði  „I didn´t DO anything I shifted my state of BEING“ –    Hún breytti tilveru sinni en GERÐI ekki neitt, – að sama skapi er hægt að losna við andleg 40 kíló sem hvíla eins og hraunið á sálinni,  – offita hugans, eða í sumum tilfellum þegar við glímum við of mikla stjórnsemi og erum með of strangar reglur gagnvart okkur sjálfum: anorexía hugans. –

Hugleiðsla er leið inn á við,  náttúran er leið til að kynnast okkur sjálfum,  að einfalda líf sitt og sortéra er ein aðferð. –

Hér ætla ég að staðnæmast í dag, en munum það að við megum vera og eigum að vera ófullkomin, engin/n mannleg vera getur verið fullkomin – nema hin fullkomna útgáfa af sjálfum sér.

Við eigum ekki að þurfa að óttast að gera mistök, – eflaust kæmumst við upp með það að gera aldrei mistök ef við gerðum aldrei neitt, eða tækjum okkur aldrei neitt fyrir hendur, tækjum aldrei áhættu. –  En það er uppskrift af leiðindum. –

Núna er tíminn okkar allra til að njóta lífsins, við skulum verja tíma okkar vel. – Meðalhófið er best, – að komast í sátt og jafnvægi er best. –  Of eða Van eru hættumörkin, –  ef það er eðlilegt að sveiflast pinku þegar við förum að breyta.  Foreldrar sem aldrei hafa fengið hrós eða elsku,  eiga það stundum til að ofvernda börnin sín, ofhrósa, ofelska,  en þessi „ofelska“  Ofelska er ekki raunveruleg elska,  það er elska á röngum forsendum. –  E.t.v. hræðsla við að missa börnin,  hræðsla við að þau lendi í því sama og við,  en við verðum að leyfa þeim að fljúga úr hreiðrinu, – því að þeim eru gefnir vængir til að fljúga. – Ef við stöðvum þau, gætum við eins vel vængstíft þau. –

Eigum góðan dag og njótum hans sem við, í elsku til okkar sjálfra og í elsku til annarra. –  Einlægri elsku.

Biðjum fyrir OKKUR

Lífið er okkar, himininn, jörðin, vatnið er okkar og  við erum himinn, jörð og vatn

Við erum öll tengd líffræðilega, við erum öll tengd jörðinni efnafræðilega

Við erum öll eitt, eitt með hvert öðru og eitt með jörðu og himni

Eitt með Guði

Uppsprettan er óendanleg

Gefum henni frelsi til að flæða

Hið ytra og hið innra

Leyfum lífsins orku  að flæða um okkur

Heila, lækna og frelsa

Upplifum gleðina og hugrekkið í hversdeginum

Tökum í hendur okkar sjálfra og segjum “Takk”

Öndum djúpt, hugsum fallegar hugsanir, drekkum meira vatn og lifum:

HAMINGJUSÖM

Hægt er að skoða meira um meðvirkni og aðferðir á http://www.coda.is  og http://www.lausnin.is  en þar starfa ég. –

Ein hugrenning um “Framhald um meðvirkni og góðmennsku ..

  1. I see a lot of interesting content on your blog.
    You have to spend a lot of time writing, i know how to save you a lot of time,
    there is a tool that creates unique, SEO friendly articles in couple of seconds,
    just type in google – k2 unlimited content

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s