Er fókusinn á fyrrverandi? ..

Er að endurvekja þennan pistil – en hann var upphaflega birtur í byrjun maí 2012.

Þessi pistill er skrifaður til þeirra sem hafa gengið í gegnum skilnað.

Ég er nú búin að hlusta á marga lýsa hvað þeir eru að upplifa eftir skilnað og eitt af því sem fólk er mjög upptekið af, er  hvað fyrrverandi maki er að aðhafast.  Svo ekki sé talað um ef að hann er kominn með nýjan maka.

Fókusinn getur í ákveðnum tilfellum orðið svo sterkur á líf fyrrverandi maka,  að eigið líf fellur alveg í skuggann, og reyndar gleymist alveg.

Ef  það sem fyrrverandi er að gera hefur ekki bein áhrif á þig,  fjárhagslega eða ef það eru börn í spilinu og hegðunin snertir þau illa,  þá kemur þér það ekkert við! ..

Annað hvort er fólk skilið eða ekki.

Situr þú heima og hugsar:  „Hvað ætli hann sé að gera núna?“ –  „Oh, nú er hann búinn að bjóða henni til Spánar“  – eða   „Æ, er hún að fara með þessum gaur á skíði“ .. „Hún gerði þetta nú aldrei fyrir mig“ ..   „Hvað ætli þau séu að gera núna?“ .. o.s.frv. –

Svo er það samviskubitsskilnaðurinn „Æ, ætli hún/hann bjargi sér“ – „Hvernig getur hún/hann reddað þessu?“ – „Rosalega er ég vond/ur að skilja við hann/hana,  ég hefði kannski bara átt að þrauka þetta“ ..

Við verðum að gera ráð fyrir að hér sé um fullorðna einstaklinga að ræða,  sem verða  að læra að vera sjálfbjarga.  Engin/n á að vera í hjónabandi gegn sínum vilja, bara af skyldurækni.  Það er í raun óheiðarleiki, og gæti líka valdið því að viðkomandi færi að vera vondur við maka sinn, vegna eigin vanlíðunar.   Það ætti að mínu mati alltaf að leita hjálpar, ráðgjafar eða að skoða orsakir þess að hjónaband er að trosna,  áður en út í skilnað er farið, og endilega áður en út í einhver hliðarspor er farið.  Það er mun dýrara að skilja en leita sér ráðgjafar,  en þegar fólk hefur tekið ákvörðun og er jafnvel búið að taka skrefið,  hjálpar það engum að lifa við samviskubit.

Ef þú ert með hugann, eða fókusinn á fyrrverandi maka, þá ertu ekki með hugann hjá sjálfum/sjálfri þér og þá ertu heldur ekki að vinna í þínu lífi, að koma því á flot á ný,  heldur stödd/staddur víðs fjarri þér. –   Jafnvel, í sumum tilfellum,  að reyna að komast (meðvitað eða ómeðvitað) upp á milli þíns fyrrverandi og nýju konunnar/nýja karlsins. –

Þetta virkar auðvitað í báðar áttir,  sá eða sú sem er komin/n í samband er stundum,  samt sem áður, upptekin/n af sinni/sínum fyrrverandi eða er stjórnað af honum/henni og það er kannski ekki sérlega áhugavert fyrir nýja aðilann í lífi hans/hennar.

Því fyrr sem þú sættir þig við að þinn/þín fyrrverandi er farin/n að lifa sínu lífi, getur þú farið að lifa ÞÍNU lífi, og það skiptir ÖLLU máli. –

Athugaðu líka eitt;  að ef að þið eigið börn saman, hlýtur þú að óska fyrrverandi maka hamingju, – vegna þess að börnin græða alltaf á að eiga hamingjusama foreldra.

Pabbi og mamma eiga kannski ekkert voðalega auðvelt með að vera glöð svona fyrst eftir skilnað,  og jafnvel þó að sumir nái sér í annan félaga fljótlega eftir skilnað,  þýðir það ekki að sárin séu ekki enn að gróa. –

Að óska öðrum velfarnaðar og hamingju,  á aldrei að skaða okkar eigin hamingju.  Ef að hamingja annarra skyggir á okkar hamingju,  þá þurfum við að íhuga okkar gang. –

Allir eiga skilið að njóta farsældar.

Þó að par eða hjón skilji, þarf það ekki að þýða að þau séu vond, eða annar aðilinn vondur.  Það getur þýtt að þau hafi ekki kunnað á samskiptin sín á milli. Hafi þroskast í sitt hvora áttina eða eitthvað álíka.  Hafi e.t.v.  ekki kunnað að veita hinu athygli, – og ekki kunnað að veita sjálfu sér athygli.

Kannski fær makinn meiri athygli eftir skilnað, en nokkru sinni í sjálfu hjónabandinu? –   Hvað er það?  Var ástin þá á eigingjörnum forsendum eða var hún skilyrðislaus? –

Hver og ein manneskja,  hvort sem hún er fráskilin eða ekki, ber ábyrgð á sinni hamingju.  Það getur vel verið að hún sé niðurbrotin, orðin lítil í sér eftir átök og árásir stjórnsams maka, – að hún komi viðkvæm og veik út úr brostnu hjónabandi,  en þá er vinnan að gera sig heila/n.  Ekki með því að standa í hefndaraðgerðum gegn fyrrverandi,  eða vera með hugann  hjá honum sí og æ,   heldur með því að setja fókusinn á sjálfa/n sig. –

Fullt af fólki lagði leið sína í Bauhaus þegar það opnaði, – hvert erindi þessa fólks var kemur okkur nákvæmlega ekkert við. Við gætum eytt tíma okkar og orku í að dæma þetta fólk og pæla í erindi þeirra,  en hvað hefur það upp á sig? – Kemur okkur eitthvað við hvað annað fólk er að gera á meðan það er ekki að beita ofbeldi eða fremja einhver hryðjuverk? –

Það sem skiptir aðal máli er ekki hvar hinir eru, eða hvað þeir eru að gera – heldur hvar við sjálf erum staðsett í okkar lífi. – Njótum þess að vera þar sem við erum, á okkar stað og í okkar tíma.

Skilnaður hefur mismunandi aðdraganda, hann getur komið okkur algjörlega í opna skjöldu,  eða fólk hefur lengi verið að íhuga skilnað.  Hann getur komið í friði, þ.e.a.s. hjón finna að sambandið er kulnað og þau treysta sér ekki til að blása lífi í það á ný,  eða hann getur komið eins og stormveipur,  algjört áfall fyrir annan aðilann. –

Aðdragandinn getur verið enginn eða langur, alveg eins og ef að um dauðsfall væri að ræða.   Hvernig sem hann ber að höndum, fylgir honum sorg og sorgarferli,  það þarf að fara í gegnum það ferli,  væntanlega sárar tilfinningar eins og höfnun, reiði, doða, afneitun … en það er aðeins með því að fara í gegnum þessar tilfinningar sem við náum þroskanum. –

Sá sem er þroskaður fer líka að skilja það að dómharka eða hefnd virkar helst á þann sem hana ber í brjósti. –  Það gerir hjartanu ekki gott. –

Það er því best að leyfa tilfinningunum að koma,  fara í gegnum þær,  kveðja þær og blessa, og um leið sinn fyrrverandi  og fara svo að lifa SÍNU lífi. –

4 hugrenningar um “Er fókusinn á fyrrverandi? ..

 1. Góð lesning… takk 🙂 Ég er blessunarlega laus við að vera með fókusinn á fyrrverandi… á 2 svoleiðis… sá fyrri er barnsfaðir minn og hann á góða konu sem mér líkar vel við og hún er góð við börnin okkar 🙂 Sá seinni er einhversstaðar… við bjuggum saman í 10 ár þangað til í fyrravor… ég er svo innilega laus við hann að ég man yfirleitt ekkert eftir því að hann er til… 😉 Mig var líka svo lengi búið að langa til að losna við hann úr lífi mínu… og það tókst, loksins… 😉

  • Það er eftir þér Jónína mín, – þú ert nú með jákvæðari manneskjum sem ég hef „kynnst“ – Set „kynnst“ í gæsalappir, því við höfum bara átt í skriflegum samskiptum og þekkjumst í gegnum netið. Það væri gaman að hitta þig „Live“ við tækifæri! 😉 .. Það er annars mjög „mannlegt“ þegar að fólk skilur, og e.t.v. hefur ekki óskað sér skilnaðar að sakna síns fyrrverandi maka og vera þá með hugann við hans gjörðir, – en þegar að sá hugur fer að snúast upp í hefndarhug og óska honum ófarnaðar eða að hugsa að makinn sé ósjálfbjarga án hans, – þá er fólk komið í óefni. Ein kona sagði við fv. manninn sinn „Ég vona að þú verðir aldrei hamingusamur“ – auðvitað talaði hún út frá sínum sársauka, en maðurinn sat uppi með þessi „álög“ sem honum fannst, og trúði því að þetta fylgdi honum. Þessi hjón áttu börn saman, og það er býsna alvarlegt að óska föður barnanna sinna að ná ekki hamingju, – því það eru um leið óskir til handa börnunum, þó að viðkomandi hafi örugglega ekki tengt það á sínum tíma.

 2. Góðu pistill Jóhanna og margt satt í þessu og sem betur fer hef ég nú ekki verið í mörgum samböndum og var hvorki gift barnsföður mínum né mínum fyrrverandi sem ég „skildi“ við sumarið 2008 og vorum við búin að vera saman í 14 og 1/2 ár og ég hugsaði aldrei „hvað ætli hann sé að gera núna“ eða neitt í þessum dúr sem betur fer,ég fókuseraði bara á mitt líf og hvað ég vildi og naut þess í botn að vera „laus“ úr þessu sambandi og ég hugsaði bara jákvætt til míns fyrrverandi og óskaði honum góðs gengis í lífinu :)Og ég er svo mikið sammála þér varðandi það að maður á ekki að hugsa hvað aðrir eru að gera!!Og lifa bara í núinu og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur 😀

 3. „Engin/n á að vera í hjónabandi gegn sínum vilja, bara af skyldurækni. Það er í raun óheiðarleiki, og gæti líka valdið því að viðkomandi færi að vera vondur við maka sinn, vegna eigin vanlíðunar“.
  Svona var það hjá mér en samt var það talsvert áfall þegar hún einu og hálfu ári eftir skilnaðinn fann sér annan. Mér líður eins og ég eigi ekkert líf en hún sé að skemmta sér konunglega og hef verið voðalega upptekinn af þessu.
  „Ef það sem fyrrverandi er að gera hefur ekki bein áhrif á þig, fjárhagslega eða ef það eru börn í spilinu og hegðunin snertir þau illa, þá kemur þér það ekkert við! ..“ Nei ég veit að mér kemur það ekkert við en það er auðvelt að segja svona, það er margt sem kemur mér ekki við sem kemur við tilfinningalífið s.s. fátækt í heiminum, langveik börn etc.
  Ég er þó held ég að komast yfir þetta og er farinn að gera plön fyrir mitt eigið líf.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s