Hugar-og líkamsvirðing – hvað er það?

Virðing =  verðmæti? 

Virðing =  að virða fyrir sér?

Skoðum aðeins rót enska orðsins respect, en það þýðir einmitt að virða fyrir sér, eða líta á.  Taka tillit til.  (Til-lit  er að líta til).

Sjá:

The word respect from the latin word respicere meaning „look at, regard, consider“. Respicere itself is a combination of two words RE „I“ + SPECERE „Look“, hence the word for glasses „spectacles“.

(þetta fékk ég á þessum tengli)

Virðing, eða að virða, er því að sjá, veita athygli – og svo mætti segja að vera vakandi, eða með meðvitund. MEÐ VITUND vs ÁN VITUNDAR.

Virðing felst þá í því að veita athygli, en andheiti athygli er t.d. tómlæti. – 

Jákvæð athygli er yfirleitt það sem flestir sækjast eftir. 

Í öðru sæti er það neikvæð athygli.

Tómlæti eða að fá enga athygli er svipað og að vera ósýnileg. Þar kemur aftur inn, það að sjá.

Við viljum öll vera séð, en ekki týnd, eða ó-virt –

Versta tilfellið er þegar við erum týnd sjálfum okkur.  Þegar við veitum sjálfum okkur ekki athygli, sjáum okkur ekki = VIRÐUM okkur ekki. –  

Kannski erum við að horfa á okkur í gegnum gleraugu annarra, en höfum týnt okkar eigin gleraugum og höfum því ekki sjálfsvirðingu. –

Þetta er svolítill orðaleikur, en segir margt.

Þegar fólk talar um að vera í sjálfsleit, þá þarf það fyrst og fremst að byrja á að finna sín eigin gleraugu.  Því að það þekkir sig ekki í gegnum aðra, eða á ekki að gera það. –

Yfirskrift pistilsins var hugar- og líkamsvirðing hvað er það?

Mikið hefur verið rætt um líkamsvirðingu undanfarið,  og áhersla á að allir líkamar séu virtir.   Já, tek undir það; sjáum og verum séð.

Hvernig virðum við okkar eigin líkama? –

Við tölum fallega til hans, hugsum fallega til hans, nærum hann á hollri fæðu, ofgerum honum ekki, þrengjum ekki að honum með of þröngum fatnaði eða skóm, ofgerum honum ekki með vinnu sem ofbýður honum.-  Hlúum að honum, verndum og styrkjum. –  Við veitum honum athygli.  Við hlustum þegar hann kvartar undan verkjum og reynum að skilja hvað hann er að segja okkur. 

Ef við erum með vöðvabólgu, magabólgu eða háþrýsting, er ekki líkaminn okkar að segja okkur að slaka á? –  

Við óvirðum líkamann með ýmsu.  Við óvirðum hann með mat sem hann þolir illa, með of miklu áfengi, – eða í raun með hvers kyns óhófi eða vanrækslu.  Við tökum ekki til-lit til hans. – (ég skipti orðinu tillit viljandi).

Líkaminn á skilið virðingu okkar, hann er farartækið okkar og hulstur sem gerir okkur kleift að lifa sem manneskjur.

Að sama skapi á hugurinn skilið virðingu, hugur og sál.  Allt sem við köllum andlegt. 

At-huga.  Gæta að huganum? –  Við virðum (fyrir okkur)  hugann.

Við verðum að gæta að með hverju við nærum hugann, hvað við bjóðum honum upp á. 

Eckhart Tolle talar um að maðurinn næri sársaukalíkama sinn. 

Sársaukalíkami eða „Pain body“ eins og hann kallar hann – er sá hluti okkar sem þjáist.  Það er sársauki okkar, reiði, ótti, gremja og óánægja.  Það er einhvers konar skuggatilvera okkar sem hefur öðlast sjálfstætt líf.

Þetta skuggalíf minnir mig á blómið í Litlu Hryllingsbúðinni, sem kallar í sífellu „GEF MÉR“ ..

Skuggaveran vill taka yfir og fitna. Hún vill fá ATHYGLI eins og aðrar verur.   Hún fitnar á því sem er óhollt, hún fitnar á því sem við flokkum oft undir fíkniefni, eða það sem við nærum fíkn okkar með. – 

Fyrirsagnir um skelfingu selja betur en fallegar fréttir. 

Fólk talar um að það eigi ekki líf, ef það getur ekki reykt sígarettuna sína, drukkið kókið sitt eða borðað kokteilsósuna. 

Það er ekkert skrítið.  

Einhver „verðlaunar“ sig með því óhollasta sem hann veit.   Hvern er hann að verðlauna? –  Er hann að verðlauna sig eða þennan sjálfstæða sársaukalíkama?

Er hann ekki að virða (sjá)  ljósveruna, þessa sem vill vera heilbrigð?  –

Við erum flókin fyrirbæri og eigum ekki að fara í kleinu eða skömm yfir að næra skuggaveruna, eða sársaukalíkamann.  Þá viðhöldum við vítahringnum, því að skömmin er uppáhaldsfæða sársaukalíkamans.

Aðal málið er að ganga vakandi um þennan heim,  VIRÐA SIG ..   sjá dýrðarveruna, ÞIG –  veita henni athygli og næra.  Eftir því sem hún tekur meira pláss og verður sýnilegri,  þess auðveldara er að virða sársaukalíkamann ekki viðlits.  Eftir því meiri athygli sem við veitum hinu góða, eftir því betra andlegt sem líkamlegt fæði við notum þess minna pláss er fyrir hið vonda. –  Þetta er ekkert átak,  þetta er bara hugarfarsbreyting.

Hvoru viljum við gefa meira pláss,  hvorn ætlum við að fóðra? –

Við höfum val.

Ein hugrenning um “Hugar-og líkamsvirðing – hvað er það?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s