Reynsla mín af sorg – er sú að það er mjög erfitt að komast áfram ef við festumst í sorgarferlinu. Sorg er yfirskrift yfir margar tilfinningar – og sorg er eitthvað sem við göngum í gegnum þegar eitthvað fer öðruvísi en við ætluðum.
Að festast í sorgarferli þýðir það t.d. að festast í reiði, e.t.v. reiði út í maka vegna trúnaðarbrests. Reiði út í maka fyrir að hafa brugðist, – eða gremju hreinlega út í aðstæður, svona átti þetta alls ekki að fara.
Það er ekkert nema eðlilegt að fara í gegnum sorgarferli, en það er önnur sorg sem getur orðið meiri en hin eiginlega sorg eftir skilnað, það er ef að enginn verði þroskinn, en ég tel að ef að fólk lærir ekkert af þessu ferli og stöðvast í því eða flýi það þá komi ekki sá þroski sem okkur er ætlað að fá út úr ferlinu.
Sorg og þjáning er skóli – þungur skóli.
Diplóma þess skóla er sáttin, og sáttinni náum við ekki nema að fara í gegnum tilfinningarnar, vð náum henni ekki í gegnum mat, áfengi, annað fólk – eða annan flótta eða bælingu tilfinninga. Við verðum að taka þennan „bekk“ sjálf.
Margir skilja vegna þess að þeir telja sig ekki finna hamingjuna í hjónabandinu – en átta sig kannski ekki á því að í raun finna þeir ekki hamingjuna sem er innra með þeim sjálfum.
Í sjálfsrækt eftir skilnað er því nauðsynlegt og gagnlegt, að horfa inn á við – og fókusera á sjálfa/n sig. Byggja sig upp, rækta og efla – virkja innri gleði, ást og frið. Með því er líka verið að fyrirbyggja að farið sé í „sama“ sambandið aftur.
Það er ekkert á hverra færi að finna út úr þessu, – en námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ – byggja á því að viðurkenna sorgina eftir skilnað, gera sorgarferlið að þroskaferli og læra að setja fókusinn inn á við. Ekki hanga á ásökun í garð makans, jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur, verið afskiptur eða tilfinningakaldur, – ef fólk er skilið og ætlar að halda því til streitu þarf að taka fókusinn af fyrrverandi og setja hann heim á sjálfa/n sig. –
Enn er laust á námskeið sem hefst 5. október nk. í Lausninni, námskeið fyrir konur í þetta sinn – og hægt að skrá sig ef smellt er HÉR
Athugið að það eru engin tímamörk – hversu langt er liðið frá skilnaði, þetta snýst ekki um tíma, heldur hvort að sátt sé náð eða ekki. Stundum er fólk enn ósátt við sinn skilnað þó mörg ár séu liðin og er fast í gömlu fari.
Sáttin hefur þann töframátt að þá fyrst hefst nýr vöxtur.
Er sammála þessu – nema upphafsorðunum, „as you get older“ – vegna þess að þroski fylgir ekki alltaf aldri. – Hef mætt ungu fólki með mjög mikinn þroska og eldra fólki sem er staðnað. – Setningin „aldur er afstæður“ gildir ekkert bara þegar fólk er í ástarsamböndum þar sem aldursbilið er eins og eitt stykki unglingur eða meira. –
Þroski kemur með lífsreynslu og hvernig við vinnum úr henni. Það eru ekki allir sem læra né þroskast í lífsins skóla, við verðum að vera viðstödd til að læra. Að vera ekki viðstödd þýðir að við flýjum, afneitum eða deyfum tilfinningar okkar. Þroski næst með því að virða tilfinningar okkar. (Virða hér getur líka staðið fyrir að viðurkenna tilfinningar eða sjá þær, „respect“ ). Ef við gerum það ekki er hættan á að við förum í flótta, afneitun, fíknir o.s.frv. – þá verður ekki þroski.
Við höfum flest ef ekki öll óendanlega þörf fyrir að einhver skilji það sem við erum að ganga í gegnum. Skilji sársauka okkar, reiði, og sérstaklega ef okkur þykir að á okkur sé brotið. –
Það eru oft tilfinningar fólks eftir skilnað, – mikil sorg, höfnunartilfinning, skömm, reiði, trúnaðarbrestur, einmanaleiki og svona má lengi telja.
Ef síðan makinn nær sér í annan eða aðra, bætist í tilfinningaflóruna, afbrýðisemi, og kannski hefnigirni, – „af hverju getur hann/hún verið hamingjusöm/samur en ekki ég“ ..
Fyrrverandi á að skilja sársaukann, skilja vanlíðanina og ef hann/eða hún gerir það ekki fara stundum bréfasendingar í gang – á hinn og þennan.
Sorgin er sannarlega til staðar, sársaukinn og allar þessar ofangreindu tilfinningar. Og það sem makann vantar er skilningur.
Ef makinn skilur ekki, eða vill ekki dragast inn í sársauka hins, þá verður oft reiði og stjórnsemi ofan á og þá kemur þetta „þú átt að skilja mig – no matter what“ eða „Ef ég er ekki glöð/glaður mátt þú ekki vera það heldur“ – „Af hverju ertu glöð/glaður með þessum/þessari en ekki með mér?“
Einhvers staðar hér á blogginu er hægt að finna pistilinn „Er fókusinn á fyrrverandi“ – sem fjallar um það að meðan fókusinn er á fyrrverandi maka, þeim sem þú ert skilin/n við og hans/hennar nýja maka og hans/hennar nýja lífi þá lifir þú ekki þínu lífi og ert ekki að byggja upp þína hamingju.
„The Blaming Game“ er allsráðandi og það þýðir að viðkomandi er föst eða fastur í bakkgír. „Stuck in Reverse“ eins og sungið er um hjá Cold-Play.
When you try your best, but you don’t succeed When you get what you want, but not what you need When you feel so tired, but you can’t sleep Stuck in reverse
And the tears come streaming down your face When you lose something you can’t replace When you love someone, but it goes to waste Could it be worse?
Lights will guide you home And ignite your bones And I will try to fix you
And high up above or down below When you’re too in love to let it go But if you never try you’ll never know Just what you’re worth
Á námskeiðinu „Lausn eftir skilnað“ förum við í gegnum alla tilfinningaflóruna – og skoðum leiðir að bata. Ég „fixa“ enga/n en bendi á „fix“ – Við sleppum tökum á fyrrverandi eins og það er hægt, og yfirleitt eru lágmarkssamskipti ráðlögð, og þá aðeins ef um börn er að ræða, til að fara yfir þeirra mál.
Það er mikilvægt að hin fráskildu gleymi heldur ekki börnunum í stundum leiðindamálum sem upp koma á milli þeirra. Börnin verða oft stærstu fórnarlömbin í skilnaðarmálum, ekki vegna skilnaðarins sjálfs, heldur vegna vondra samskipta foreldra eftir skilnað.
En hvað skiptir stærstu máli? – Jú, að einhver skilji þig, einhver geti sett sig í þín spor, þú skoðir hvað gerðist og hvað gerðist ekki. Takir þína ábyrgð á skilnaðinum því það þarf undantekingalaust tvo til að skilja. Þar er ekki um að ræða tvo vonda eða illa aðila, heldur tvo aðila sem ekki kunnu betri samskipti sín á milli en það fór sem fór.
Það getur vel verið að annar aðilinn hafi farið alveg eftir bókinni og gert allt „rétt“ en hinn ekki. En sama hvernig það er – við berum ábyrgð á eigin hamingju, það er ekki hægt að sækja hana til makans í sambandinu og ekki heldur eftir að sambandinu lýkur. Því fyrr sem við sleppum tökunum á þessum sem við erum skilin við því fyrr skapast pláss fyrir nýjan vöxt.
Eins og við alla sorg og við öll vonbrigði þarf að viðurkenna þau og gráta þau, fara í gegnum tilfinningarnar og ræða þær – en ekki dvelja þar að eilífu, því þetta er eins og fenjasvæði. Ef við stoppum of lengi erum við föst. Ekki reisa hús í dimmu feninu. Leyfum ljósinu að lýsa okkur heim, „Lights will guide you home“ –
Við erum í þessu námskeiði sem öðrum í Lausninni að koma heim til okkar sjálfra, heila okkur, læra að við þurfum ekki hamingju frá öðrum því hún er hið innra.
Næsta námskeið, Lausn eftir skilnað – fyrir konur, er áætlað 21. september kl. 9:00 – 15:00
Lausninni, Síðumúla 13
Eftirfylgni er í fjögur skipti – á fimmtudögum kl. 17:15 – 19:00
(Ath! þær sem komu á örnámskeið – Lausn eftir skilnað fá það gjald frádregið).
Hámark 10 konur í hóp.
Umsagnir um námskeiðið Lausn eftir skilnað.
„Í september 2012 stóð ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að skilja við manninn minn eftir 14 ára samband. Allt í einu var ég orðin einstæð þriggja barna móðir og fannst ég alein. Vinkona mín benti mér þá á Lausnina og þar fékk ég upplýsingar um að innan skamms hæfist námskeið fyrir konur sem stæðu í sömu sporum og ég. Ég var niðurbrotin og ringluð og fannst ég virkilega þurfa að byggja mig upp. Þess vegna ákvað ég að skrá mig á þetta námskeið og sé sko alls ekki eftir því. Leiðbeinandinn á námskeiðinu, miðlaði af sinni reynslu og hvatti okkur endalaust áfram. Hún fékk mig til þess að horfa öðruvísi á hlutina og gaf mér von um að það væri betra líf handan við hornið ég þyrfti bara að trúa því sjálf. Á námskeiðinu kynntist ég frábærum konum og eftir að námskeiðinu lauk héldum við sjálfar áfram að hittast og hittumst einu sinni í mánuði. Þetta veitir mér mikinn stuðning og það er gott að finna að maður stendur ekki einn. Mér finnst þetta námskeið hafa hjálpað mér mjög mikið á þessum erfiðu tímamótum í lífi mínu og ég stend tvímælalaust uppi sem sterkari kona. Ég hvet því alla sem eru að ganga í gegnum skilnað eða hafa gengið í gegnum skilnað að fara á þetta námskeið vegna þess að mun hjálpa ykkur að komast yfir þennan erfiða kafla í lífi ykkar.“
35 ára kona
—————————————————————————————
„Mesta áfall í lífi mínu var að skilja. Mér fannst mér hafa mistekist, þetta var ekki ætlunin, ég var uppfull af sorg og skömm og föst þar. Ég hafði engar aðferðir og engin tæki til að vinna úr þessu áfalli. Á námskeiðinu Lausn eftir skilnað með Jóhönnu Magnúsdóttur kom léttirinn, því ég var ekki ein og til var leið til úrvinnslu. Lausn eftir skilnað er réttnefni námskeiðsins, það var mér ómetanlegt á leið minni til betra lífs.“
44 ára kona
SKRÁNING OPNAR Á VEF LAUSNARINNAR Í NÆSTU VIKU.
ath! – Þetta námskeið er ætlað konum, en við höfum verið með námskeiðið fyrir karla og voru þeir mjög sáttir. Ég skora á karla að hafa samband ef þeir hafa áhuga á svona námskeiði og ég mun setja upp námskeið! –
Sagan sem ég sagði oftast í sunnudagaskólanum, var um tvo engla sem stóðu á skýi og voru að hífa upp bænir í körfu. –
Annar fékk óskir og hinn þakkir.
Engillinn sem fékk óskirnar tók á móti hverri körfunni á fætur annari, á meðan engillinn sem tók á móti þökkunum fékk hálftómar körfur.
Sagan segir að það sé mikilvægt að þakka meira, – en af hverju?
Af hverju? Af hverju? Af hverju? – Já, Af hverju?
Og haldið ykkur nú fast.
Þakklætið er forsenda þess að óskir rætist. Við byrjum ekki á öfugum enda. – Og nú skal það útskýrt hvernig það virkar.
ÞAKKLÆTIÐ VEKUR GLEÐI OG GLEÐIN LEIÐIR TIL ÁRANGURS
VANÞAKKLÆTIÐ SKAPAR ÓÁNÆGJU SEM LEIÐIR TIL ÞESS AÐ NÁ EKKI ÁRANGRI.
Við verðum að „praktisera“ þakklætið til að það virki. Veita því eftirtekt sem við erum þakklát fyrir og skrifa litlar bænir fyrir englakörfuna, þakklætisbænir.
– Sniðugt að eiga eina svona heima, hvort sem við erum einstaklingar eða fjölskylda. Það er líka gaman og gott að eiga litla þakklætisdagbók og skrifa á hverju kvöldi nokkur atriði sem við erum þakklát fyrir. – Ekki endilega stór og mikil – bara byrja smátt.
Ekki gleyma að þakka fyrir okkur sjálf og líf okkar. Fyrir andardráttinn, vatnið og einfalda hluti sem við tökum sem sjálfsögðum.
Þakka fyrir að heyra hurðarskell þegar vinur kemur í heimsókn, þakka fyrir þegar þú hlóst að brandara – o.s.frv.
Gleði er orkugjafi – gleði er líka þannig að þegar við erum glöð er svo erfitt að reiðast við aðra, vera í fýlu, eða hreinlega vera að pæla í því hvað náunginn er að gera, svona eitthvað sem okkur kemur e.t.v. ekki við.
Takmark hinna fráskildu er að finna til gleði, – svo þau hætti að lifa í hausnum og lífi fyrrverandi maka síns – og stilli fókusinn inn á við. Úff það er svo vont að lifa í gremju, reiði og ásökun og æða um í sársauka og vilja særa aðra. Sársaukinn verður að fá útrás á annan hátt. Sorgin er eðlileg, reiði er líka eðlileg, en bræði og hefndargirni er ekki eðlileg. Sönn gleði fæst aldrei með því að draga aðra niður í sína eigin vanlíðan.
(Verð með námskeið „Lausn eftir skilnað í lok september – fylgist vel með á http://www.lausnin.is).
Takk – er kraftaverkaorðið, – og þá þarf að stilla fókusinn á það sem við erum þakklát fyrir.
Hefur þú eitthvað til að vera þakklát/ur fyrir? ..
Hvað nú ef við vitum þetta leyndarmál þakklætisins?
Að forsenda þess er ekki árangur, heldur bara að þakka fyrir tilveru sína, – allir sem eru að lesa þetta geta t.d. þakkað það að geta lesið.
Það er ekkert lítið í raun.
Hversu margir eru það í heiminum sem ekki hafa tækifæri á að lesa?
Hvað er það sem við upplifum við fæðingu barns, – kemur gleðin fyrst? – Eða upplifum við þakklæti og kemur ekki gleðin í framhaldi.
Þakklæti og gleðin haldast í hendur.
Tilgangur lífsins er gleði og ást.
Gerum það sem við gerum af ást til heimsins og þökkum það sem okkur er gefið í staðinn fyrir að senda endalausar óskir – það þarf að vera jafnvægi þar á milli. –
❤ ❤ ❤
TAKK
p.s. af því þetta er persónulega heimasíða mín – ætla ég að þakka hér fyrir allt yndislega fólkið í lífi mínu, þakka fyrir náðargáfuna að geta skrifað, þakka fyrir heilsuna mína, þakka fyrir að ég get unnið við ástríðu mína að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og síðast en ekki síst (svona í dag) þakka fyrir mig og líf mitt.
Ég finn fyrir gleði og ljósi í hjartanu bara við að skrifa svona. Ég hugsa: Ég óska þess að fleiri finni fyrir gleði og ljósi í hjartanu – því fleiri sem finna það því betra.
Ég las grein nýlega um samband hjónakornanna Angelínu og Brads, þar sem látið var að því liggja að þar væri komin yfirlýsing frá Brad um það hvernig hann bjargaði konu sinni þegar hún var orðin andlegt hrak, allt of horuð og sinnulaus, með því að baða hana í gjöfum, hrósi, láta alla vita hvað honum finndist hún æðisleg og greinin klykkti út með því að hún Angelína væri spegilmynd hans! – eða réttara sagt að konan væri spegilmynd mannsins síns. Hér er hægt að smella á greinina: Spegilmynd manns síns.
Þessi grein hljóðaði svona (með 1.7 þús læk á BLEIKT)
„Konan mín varð veik. Hún var sífellt á taugum annaðhvort vegna vandamála í vinnunni, sínu persónulega lífi, vegna misstaka sinna og barnanna. Hún tapaði 15 kílóum og var orðin aðeins 40 kíló. Hún varð horuð og grét án afláts. Hún var ekki hamingjusöm kona. Hún þjáðist vegna tíðra höfuðverkja, verkja fyrir hjartanu og klemmdum taugum í baki og í rifbeinum. Hún svaf ekki vel, var að sofna undir morgunn og varð fljótlega þreytt á daginn. Við vorum á barmi skilnaðar, fegurð hennar yfirgaf hana eitthvert, hún hafði mikla bauga og hætti að hugsa um sjálfa sig. Hún neitaði að fara í kvikmyndatökur og neitaði öllum hlutverkum sem henni buðust. Ég missti vonina og hugsaði sem svo að senn myndum við skilja […] En þá ákvað ég að gera eitthvað. Þrátt fyrir allt á ég fallegustu konu heims. Hún er átrúnaðargoð yfir meira en helming karla og kvenna í heiminum, og ég var sá maður sem naut þeirra forréttinda að sofna við hlið hennar og faðma hana. Ég byrjaði að baða hana í blómum, kossum og hrósum. Ég kom henni á óvart og gladdi hana hverja mínútu. Ég gaf henni fjölmargar gjafir og lifði aðeins fyrir hana eina. Ég talaði aðeins um hana opinberlega. Ég aðlagaði allar samræður og öll umræðuþemu að einhverju um hana. Ég hrósaði henni í návist vina sinna og í návist okkar sameiginlegu vina. Þú munt ekki trúa því, en hún blómstraði. Henni batnaði. Hún þyngdist, var ekki lengur á taugum og elskaði mig jafnvel meir en nokkru sinni fyrr. Ég hafði ekki hugmynd um að hún gæti elskað svo heitt.Og þá uppgötvaði ég einn hlut: konan er spegilmynd eiginmanns síns. Ef þú elskar hana af öllu hjarta, þá verður hún það.“
Hmm… Ég veit varla hvar ég ætti að byrja, en langar fyrst og fremst að vara við því að við hengjum ábyrgð á okkar (fullorðins) lífi á herðar maka okkar eða annars samferðafólks. „Make Me Happy“ .. Hvað ef að Brad félli frá, hvað sæi Angelína í speglinum? –
Það er eitthvað mikið skakkt við þessa hugmyndafræði og mér finnst hún ýta undir þessi eilífðarvæntingavandamál í samböndum. Þ.e.a.s. að leggja ábyrgðina á hamingju sinni og heilbrigði á herðar maka síns.
Það er engin/n að segja að það megi ekki hvetja og hrósa og gefa, en það á ekki að þurfa að hvíla 100% á makanum, eins og áður segir því þá er 0% eftir ef makinn fellur frá.
Samband samanstendur – eða á að samanstanda af tveimur 100% einstaklingum. Við minnkum ekki niður í 50% þegar við förum í samband.
Skoðum grein sem ég fann á síðunni Ascended Relationship í þessu samhengi:
Getur samband gert þig hamingjusama/n?
Ef þú ert ekki hamingjusöm/samur einhleyp, verður þú aldrei hamingjusöm/samur í sambandi. Að vænta annars, þýðir það að einhver önnur/annar á að gera þig hamingjusama/n, og þó að fólk geti vissulega stuðlað að hamingjutilfinningu þinni upp að einhverju marki, getur engin/n, og ekki á nokkurn máta – verið algjörlega (100%) ábyrg/ur fyrir þinni eigin hamingju.
Ef þú ferð inn í samband með þær væntingar að hin persónan geti gert þig hamingjusama/n eða gefið þér ástina sem þú heldur að þig vanti – setur þú í gang meðvirkt samband. Meðvirkni er eins og orku(blóð)suga og tekur frá okkur orku á mismunandi vegu.
Meðvirknin fer í gang þegar þú reynir að fá út úr einhverjum það sem þú telur þig ekki hafa.
Meðvirkni er í grunninn þannig að hún stafar af skorti á sjálfsást, að mistakast að upplifa sína eigin dýrð og sitt eigið verðmæti, sem leiðir til þess að þú þarft samþykki annarrar persónu, og vegna þess að þú þarfnast elsku annarrar manneskju til að sanna þitt sjálfs-virði (að þú sért verðmæt/ur) – verður þetta DRAMATÍSKUR leikur – þar sem þú ert að draga að þér eða soga út elsku, samþykki og viðurkenningu frá öðru fólki. „Elskaðu mig!!!
Ef sett á annað plan þá býður þetta upp á stjórnunarvandamál – og ákveðna „ráðsmennsku“ þar sem þú gerir hinn aðilann í sambandinu ábyrgan fyrir ÞINNI hamingju, þannig að undirmeðvitundin upplifir að þú sért að missa tök á eigin lífi (stuðlar að ósjálfstæði) svo það að þú farir að ráðskast með persónuna sem ber ábyrgð á þinni hamingju (þú ert búin/n að afhenda valdið) skapar auðvitað mikið drama.
Meiri hluti fólks telur að það sé einungis hamingjusamt ef það er í sambandi. Það er víst fjarri sannleikanum. Samband er ekki svarið við hamingju þinni, Annað fólk getur ekki „gert þig hamingjusama/n“ – einungis ÞÚ berð ábyrgð á hamingju þinni. Á þeirri stundu sem þú áttar þig á því að hamingjan kemur innan frá og að þú getir verið „happy“ einhleyp/ur – aðeins þá ertu tilbúin/n í heilbrigt, virkt og skemmtilegt samband.
Hamingjan er val, svo hættu að leita út fyrir sjálfa/n þig eftir hamingjunni. Veldu hamingjuna NÚNA – og þá munt þú senda frá þér þannig strauma sem munu laða að þér farsælt samband.
(Mæli með greininni „Hamingjuforskotið“ – en þar er sýnt fram á að það er hamingjan sem er forsenda árangurs – en ekki öfugt!). Hér fyrir neðan er mynd af bolla – á honum staðhæfingar, en til að trúa þessum staðhæfingum þurfum við stundum að aflæra gamalt forrit um okkur sjálf þar sem við í raun erum að staðhæfa hið gagnstæða, en það er það sem byrjaði að lærast í bernsku og við höldum við í meðvirku sambandi.
Ef þú ert sannfærð/ur um að þú sért yndisleg og verðmæt manneskja þá er mun líklegra að aðrir trúi því. – Hvaða skilaboð ert þú að gefa út í alheiminn?
Ef þú gefur út að þú sért einmana og þurfandi og einhver þurfi að fylla upp í þín skörð, þá vissulega kemur einhver riddari sem getur fyllt upp í skörðin – en þá skapast þetta ójafnvægi sem er akkúrat kjarninn í þessum meðvirku og ég kalla stundum „eitruðu“ samböndum. Samböndum sem litast af því að annar aðilinn eða báðir eru að biðja hinn um að fylla í skörðin en verða aldrei ánægð – vegna þess að ánægjan felst í því að ganga fjallið sjálf/ur og standa á toppnum ánægð með árangurinn, en ekki að láta bera sig heilu og hálfu leiðina.
Tveir aðilar – heilir – jafningjar – ganga hlið við hlið. E.t.v. þarf að styðja einstaka sinnum, en það er leiðinleg að þurfa að láta bera sig heilu og hálfu leiðina og sá/sú sem ber verður líka lúin/n og þreytt/ur.
Báðir aðilar verða óhamingjusamir og kenna hinum um. Arrrgg..
Horfðu í spegil – ef þú sérð BRAD ertu í meðvirku sambandi, þú átt að sjá ÞIG.
Lífið er eins og á – og stundum koma óvæntar flúðir, fossar í ánna – eitthvað sem erfitt er að undirbúa sig undir.
Jú, við getum græjað okkur svo við lendum í sem minnstu hnjaski en við sleppum ekki við að sigla ánna.
Stundum óskum við þess að geta séð ánna fyrir, þá förum við til spákonu eða einhvers sem við trúum að sjái okkar framtíð – okkar á.
Áin er þarna, en hún er eflaust misbreið og kannski hægt að sigla hana á misjafnan máta – fara hægra megin eða vinstra megin, en henni stjórnum við ekki.
Stundum hvolfir bátnum og þá súpum við hveljur, – réttum af bátinn og skríðum aftur uppí. Kannski höfum við steytt á steini og erum sár eftir, við erum köld og hrakin og stundum berum við sár – og ör eftir. En áfram siglir báturinn.
Við erum með samferðafólk í bátnum, – fjölskyldu, vini, stundum maka.
Eins og ég sagði – er margt óvænt sem getur komið uppá, ekki endilega bara í ánni. Samferðafólkið getur ákveðið að skipta um bát. Maki þinn sér að annar bátur er áhugaverðari en ykkar og hann svissar yfir. – Æ, þetta átti ekki að fara svona. Kannski er hann búinn að pæla lengi í að hann sé óánægður í ykkar báti, og verst er þegar hann læðist að nóttu til yfir í annan bát og þú ert algjörlega grandalaus þegar að einn daginn segist hann bara vera ánægðari í einhverjum öðrum báti! ..
Jú, þú þarft auðvitað að jafna þig eftir uppgötvunina, hvort sem hún kom hægt og hljóðlega eða eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þetta var ekki planið, en úr því svona fór þá er ekki að mæna yfir á hinn bátinn, bátinn sem maki (nú fyrrverandi maki) þinn fór yfir í – heldur halda fókusnum á þínum báti. Þú getur fengið hjálp við að róa, við að stýra – í flúðunum, en því fyrr sem þú sleppir tökunum á þeim sem vill ekki vera með þér í bátnum og hættir að reyna að senda til hans línu sem hann neitar að grípa í – og hefur engan áhuga á, því betra, því þá getur þú haldið áfram.
—
Nýtt námskeið: „Lausn eftir skilnað“ verður haldið í Lausninni http://www.lausnin.is Síðumúla 13, 3. hæð Laugardaginn 7. september nk. 9:00 -15:00 og síðan 4 tímar í eftirfylgni, mánudaga kl. 17:15 – 18:45.
Ekki er farið að skrá á námskeiðið en ef þú hefur áhuga á að fá tilkynningu um skráningu sendu þá póst á johanna@lausnin.is
Námskeiðsgjald verður 31.900.- (hægt að skipta greiðslu).
Að sama skapi er í boði námskeið „Lausn eftir skilnað“ fyrir karlmenn – og þegar nógu margir (lágmark 8) hafa komið á lista verður send út tilkynning hvenær það verður. Það hefur gefið góða raun. –
Aðal leiðbeinandi er ykkar einlæg – Jóhanna Magnúsdóttir!..
Við eigum mörg erfitt með að segja „Nei takk“ og segjum stundum „Já takk“ þegar við meinum Nei. Já, því miður er það þannig.
Við borðum matinn hennar ömmu því við viljum ekki særa tilfinningar hennar, jafnvel þó hann sé ótrúlega vondur. – Eða hvað?
Hér ætla ég þó ekki að ræða samskipti við ömmur, heldur á milli para eða hjóna.
Oft býður makinn upp á hegðun sem þér mislíkar. Oft, eða stundum skulum við segja. –
Því oftar sem þú segir „já takk“ – ekki upphátt endilega en þó í huganum við einhverju sem þér mislíkar, þvi´meira mislíkar þér við sjálfa/n þig. Þetta er keðjuverkandi og þú verður allta lélegri og lélegri í að segja nei takk og ferð að taka við ýmsu sem þú átt í raun ekkert að taka á móti.
Hvað ef að maki þinn blandaði nú drykk fyrir þig, edik, lýsi, súrmjólk og engifer skulum við segja og rétti þér hann og byði þér, eða jafnvel ætlaðist til að þú drykkir. Hvert væri svarið? – myndi það vera „já takk?“ eða „nei takk?“ Það þarf nú varla að spyrja að því.
Í þessu tilfelli væri nú varla um það að ræða að þú værir að sýna kurteisi eða vernda tilfinningar, þú værir kannski að gera þetta til að halda friðinn, makinn yrði til friðs ef þú bara drykkir drykkinn sem hann blandaði fyrir þig.
Stundum er ákveðin framkoma eins og ógeðisdrykkur, þér líður a.m.k. eins og eftir að hafa drukkið slíkan. Þá er að átta sig, virða sig nógu mikils til að segja „Nei takk, þetta er mér nú ekki bjóðandi.“
Kannski eru bragðlaukarnir orðnir dofnir? – Erfitt að skynja eða átta sig á hvað er ógeð og hvað er bara gott. Er ekki lýsi hollt? Er ekki engifer hollt? Drekka ekki sumir edik til að grennast? Súrmjólk, það þarf nú enginn að kvarta undan henni, eða kannski er hún full súr?
Kannski veistu bara ekkert í þinn haus og ekki viss hvað þér er bjóðandi og hvað ekki? –
Stundum erum við búin að venjast einhverju sem er vont.
Stundum þurfum við að leita ráða og biðja aðra um að smakka, ef að bragðlaukarnir eru orðnir dofnir af ógeðisdrykknum. Þá er gott að fá lánaða dómgreind, eða hitta einhvern sem er tilbúin/n að segja þér sitt álit. Ekki einhvern sem tiplar á tánum í kringum ykkur parið og þorir ekki að skipta sér af, heldur einhvern ómeðvirkan sem er tilbúin/n að segja hlutina hreint út.
Þá þarf líka að koma heiðarlega fram, heiðarlega við sjálfa/n sig og heiðarlega við þann sem um ræðir.
Það þarf yfirleitt tvo til að klúðra sambandi – það er sjaldnast bara einn sem ekki kann á samskiptin. Einn getur ýtt undir ókosti annars, að sjálfsögðu óvart og vegna kunnáttuleysis.
Hluti af því að stöðva slikt ferli er að átta sig á hvað manni er bjóðandi, hluti af því er að segja „Nei takk“ .. og sjá svo hvað gerist! …
Þegar við erum ung og verðum kærustupar þá er lífið þokkalega einfalt. Það er bara þú og hann, eða þú og hún, svona eiginlega bara svoleiðis.
Svo gerist það svo oft, því miður alllt of oft, að þetta par með einfalda lífið fer að flækja það því það kann ekki alveg að vinna saman eða lifa saman og endar sambandið þá oftar en ekki með skilnaði, ef þau þá ekki hanga á óánægjunni einni saman – nú eða af gömlum vana.
Annað hvort ætti fólk að leita sér hjálpar hvað sambandið varðar og finna sátt í sambandinu eða slíta því. Svona hvorki né, er varla neitt til að hrópa húrra fyrir.
En hvert vorum við komin, jú, þegar flæða svona fyrrverandi út á „sambandsmarkaðinn“ þá eru þessir fyrrverandi oftar en ekki komin með börn – og fyrrverandi eiga fyrrverandi í misgóðu andlegu jafnvægi eða stuði til að láta fyrrverandi í friði. Fókusinn er allt of oft stilltur á fyrrverandi, hvað hún/hann er að gera, o.s.frv. Annað hvort er að vera eða ekki vera í sambandi, er það ekki?
Það er ekkert auðvelt að byrja í nýju sambandi, en fólk tekur áhættuna því það er gott að elska og vera elskuð. Snerta og vera snert. En vegna þess að fólk kemur með farangur inn í sambönd vill farangurinn oft verða of þungur að dröslast með og þá verður að kunna að losa sig við þannig að það passi í ferðatöskuna. „Hámarkvigt 20 kg“ .. eins og í flugvélunum!
Það þarf að sortera – svo vélin geti flogið! ..
Farangur getur þýtt ýmislegt, eins og áður hefur komið fram; fyrrverandi – það er engin spurning að það má alveg losa sig við hann/hana, börn eru líka farangur en það skilur enginn við börnin sín, eða ætti ekki að gera það þó sumir geri því miður. Þau eru hluti farangurs sem verður að taka með í reikninginn og læra að púsla þeim inn í nýja sambandið. Hljómar einfalt? – Það er það ekki og sérstaklega ekki þegar fyrrverandi hefur ítök og reynir að spilla fyrir. Skil ekki að fólk hafi ekki meiri sjálfsvirðingu en að vera að böggast í fyrrverandi og nýja sambandinu? – Eða jú ég skil það, þetta eru særðar manneskjur sem oft hafa upplifað mikla höfnun og vanlíðanin er slík að þær vilja skemma fyrir – „Ef ég finn ekki hamingjuna má hann/hún ekki finna hana“ –
„Hann/hún á ekki gott skilið eftir það sem hann/hún gerði – og ég ætla að skemma fyrir“ …
En ojbara – af hverju ekki sleppa tökum á þessum „njóla“ sem fyrrverandi hlýtur að vera og fara að lifa í eigin lífi en ekki hans/hennar?
Snúið?
Svona vesen er allt of algengt – og ég hvet alla/r til að líta í eigin barm.
Fyrirsögnin er „Að eignast maka … upp úr miðjum aldri“ .. það þarf ekkert að vera „miðjum“ aldri .. það er bara hvenær sem er.
Það getur verið um þrítugt – fertugt – fimmtugt og uppúr ..
Ég talaði við konu á sjötugsaldri og hún saknaði þess að eiga „partner“ – þegar þú segir „ping“ – þá er einhver annar sem segir „pong“ .. Það er koddahjal og knús og svona „hvernig var dagurinn hjá þér“ rabbið sem margir sakna. Einhver sem deilir með þér lífinu, þú kastar og það er einhver sem grípur, kastar til baka og þú grípur.
Einhver sem nýtur með þér sólarlagsins.
Það er ekki þannig að það sé alltaf skemmtilegra að eiga partner – sérstaklega ef þeir eru leiðinlegir 😉 .. eiga við drykkjuvandamál að stríða eða með einhver önnur vandræði þá dregur þessi partner, eða það sem fylgir honum úr þinni eigin lífsgleði.. þá sannast hið forkveðna að betra er autt rúm en illa skipað.
Það er dýrmætt að eiga góðan maka – sem mætir þér á miðri leið, þarf ekki að vera í samkeppni við þig, þið styðjið hvort annað, hafið kósý saman á köflóttum náttbuxum – og dekrið hvort annað til skiptis. Undirstaða góðs sambands er að vera í góðu sambandi við sjálfa/n sig. Það er gott að vera í góðu sambandi og njóta sólarlagsins.
„What is wrong in my life, that I must get drunk every night“ .. Johnny .. sungu þeir í Fine Young Cannibals, – þessi spurning „What is wrong in my life“ – er grundvallarspurning.
Af hverju drekkur fólk? –
Stundum til að gera sér glaðan dag, eins og kallað er, en stundum til að deyfa, flýja og jafnvel hverfa.
Flýja hvað?
Sársauka?
Sannleikann?
Sannleikurinn getur stundum verið sár, en hann frelsar.
Ef við förum ekki í gegnum sársaukann þá finnum við eflaust ekki sannleikann og því síður frelsið.
Alkóhólistinn getur verið grimmur við sína nánustu, sagt vonda hluti vegna þess að orðin hans fæðast í sársauka. Svo veit hann að hann mun leggja sársaukann í alkóhól og deyfa hann – en aðeins um stund – því svo kemur hann aftur og þá finnur hann aftur til.
Er ekki til önnur leið til að nálgast þessi sár? Er ekki til önnur leið til að lifa lífinu heldur en að leggja sig í alkóhólbað?
Ég sé sorgina sem hann veldur, sé tortíminguna,
Fjölskyldur hrynja eins og dóminó kubbar fyrir áhrif alkóhólisma, því það er nóg að það sé einn sem er háður – allir sem þykir vænt um viðkomandi eru snertir á einn eða annan hátt. Jafnvel þó þeir slíti sig frá alkóhólistanum, það hefur áhriif að slíta sig frá ástvini.
Alkóhólistinn sem er annars dagfarsprúður breytist í skrímsli – breytist í aumingja – breytist í einhvern sem er sama um þig og sama um sjálfan sig.
Sama um lífið.
„Maðurinn minn er alkóhólisti og það vita það allir nema hann sjálfur“ ..
„Mér finnst vont þegar mamma drekkur, því hún breytist, en ég þori ekki að segja henni það.“
„You have to see your pain to change“ .. (Sophie Chiche)
Þú verður að sjá sársauka þinn til að breyta – eða vilja breyta.
Af hverju ættir þú að vilja breyta ef þér finnst þú allt í lagi? –
Kemur einhverjum við hvað þú drekkur og hvernig?
Er ekki betra að hvíla í faðmi Tortímandans en faðmi fjölskyldu eða vina?
Er ekki í lagi að hrekja frá sér ástvini, meðvitað eða ómeðvitað, þegar þú veist að þú getur gripið í flöskuna, flöskuna sem þú þekkir svo vel og er ekki með neitt vesen eða kjaftæði?
Ég spyr stundum sjálfa mig af hverju lífið hefur leitt mig þangað sem ég er komin. Það er næstum sama til hvaða starfs ég hef verið ráðin, ég enda einhvern veginn alltaf sem leiðbeinandi – diplómat – leitandi lausna til bætts samstarfs eða samskipta.
Þegar ég var barn dreymdi mig um að stöðva styrjaldir, – nú – fullorðin dreymir mig um að stöðva styrjaldir inni á heimilum og styrjaldir innra með okkur sjálfum.
„Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum“ – sagði Gandhi.
Ég fyllist eldmóði þegar ég hugsa þetta. Mig langar þetta einlæglega – þ.e.a.s. að vera breytingin þó stundum komi stórt bakslag í minn eigin heim. Eitthvað hræðilega óvænt og óbærilegt – sem ég þó verð að bera og þegar upp er staðið gerir mig sterkari þó að sá styrkur sé dýru verði keyptur, mjög, mjög dýru.
Af hverju skrifa ég og af hverju starfa ég sem ráðgjafi og held námskeið – er leiðbeinandi og kennari?-
Vegna þess að ég trúi að heimurinn verði miklu betri ef við stöndum saman í stað þess að við séum sundruð.
Hversu mörgum líður ekki illa, þjást vegna alls konar kvilla – nú eða vegna þess að þeir eiga ekki fyrir reikningum – hvað þá mat um mánaðamót? – Sumir deyja úr hungri á meðan aðrir deyja vegna offitu.
Ég held þetta sé spurning um að taka betur höndum saman, – styðja betur við hvort annað, láta okkur náungann varða, ekki ala á bjargarleysi – heldur að styðja, virkja og hvetja. Hjálpa til sjálfsbjargar.
Vera saman en ekki sundur þegar bjátar á.
Meiri elska og minna stríð. Það er löngu vitað.
Það er líka löngu vitað að það eru tvær hliðar á öllum málum.
Ef þú talar við tvær stríðandi fylkingar þá hefur hvor fylking sína söguna. Hinn er „vondi kallinn“ Svoleiðis er það oftar en ekki í skilnaðarmálum. Stundum er enginn vondur kall, bara tveir aðilar sem eru í innra stríði og því kunna þeir ekki neitt og geta ekkert gefið nema stríð.
Af hverju geri ég það sem ég geri? – Af hverju skrifa ég?
Ég trúi að við getum gert lífið betra ef við erum betri við hvort annað. Það er víst nóg af öðru sem við ráðum ekki við.
Minni á örnámskeiðið „Lausn eftir skilnað“ sem verður haldið 20. júní nk. – sjá: http://www.lausnin.is og á einkaviðtölin mín, hugleiðslur, hugvekjudiskinn RÓ – og fyrirlestra t.d. fyrir fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir.
Af hverju að hlusta?
Ég trúi á meiri og óplægða möguleika til betra lífs sem liggja innra með ÞÉR.