Út úr skrápnum …

Þetta hljómar ekki ósvipað og „út úr skápnum“ – og þýðir ekkert ósvipað heldur. –

Allir setja upp skráp, þessi skrápur myndast eins og hrúður og þykknar með hverju áfalli.

Vandamálið er að þessi skrápur lokar ekki aðeins á vondar tilfinningar, heldur líka góðar tilfinningar.  Þeir sem eru með þykkasta skrápinn, eru orðnir ófærir um að yrða eða virða tilfinningar sínar. –

Kannski ófærir um að elska eða taka á móti elsku?

Eftir því fleiri tilfinningum, vonbrigðum og sárindum yfirleitt við kyngjum eða tökum á móti án þess að virða þær, gráta yfir þeim, segja frá þeim eða leyfa okkur finna þær,  þess þykkari, harðari OG þyngri verður skrápurinn.

Það liggur í hlutarins eðli. að það sem er þungt það iþyngir okkur, hamlar og stöðvar. –

Ef við erum með þykkan skráp, vegna ítrekað mislukkaðra sambanda, höfnunar, vantrausts, sorgar og sára þá heldur hann auðvitað aftur af okkur að taka skref inn í nýtt samband. –

Skrápurinn er eins og varnarskjöldur, –  við látum hvorki sverð stinga, né ástarpílur amors hitta því að við erum í vörn.

 

Partur af því að lifa er að finna til.  Vera viðkvæm.  Vera ófullkomin. Vera auðsæranleg. –

Það sem ég er að segja hér, er í takt við það sem Brené Brown, rannsóknarprófessor er að tala um þegar hún ræðir „Power of Vulnerability“ ..

Vald berskjöldunar

Sigur þess að koma út úr skrápnum

Þau sem eru inní skrápnum erum við.

Það er hugrekki að stíga út úr skápnum, viðurkenna veikleika sína, viðurkenna tilfinningar sínar og jafnvel að ræða skömm sína, en eins og áður hefur komið fram þá hatar skömmin að láta tala um sig því þannig eyðist hún. –

Það eru nefnilega tilfinningarnar, þessar erfiðu sem hafa búið til skrápinn, – skömmin, samviskubitið, gremjan og allt eftir því, – tilfinningar sem við höfum upplifað en kannski ekki rætt við einn einasta mann.

Viljum við vera tilfinningalaus? – Dofin? –  Er það ekki bara auðveldast?

Það væri voða gott ef það væri bara hægt að loka á vondu tilfinningarnar, – hægt að velja úr,  en því miður er það ekki hægt því þær spila saman.

Við verðum að virða tilfinningarnar (sjá þær) ganga í gegnum þær,  það er stysta og áhrifaríkasta leiðin, – ekki festast í þeim, ekki hafna þeim,  því þannig búum við til þykkari skráp. –  Þannig festumst við í sama farinu og komumst hvorki lönd né strönd. –

Það er ekki neikvætt að vera tilfinningavera – „E-motional“  vera hreyfanleg.  Andstæða þess að vera hreyfanleg, er að vera föst, jafnvel frosin.

Hver kannast ekki við tilfinningakulda? –

Kannski er einhver tilfinningavera ólgandi inní skrápnum, en þorir ekki út?

Hvað veldur? –

Það er ekkert voðalega mörg ár síðan að Hörður Torfason hrökklaðist frá Íslandi vegna þess að hann kom út úr skápnum með sína kynverund, sem samkynhneigður einstaklingur. –

Kannski þarf brautryðjendur til að koma út úr skápnum með sína tilfinningaverund,  sem tilfinningavera.  –  Kannski má gráta, líka fyrir framan aðra.  Kannski má sýna tilfinningar? –  Líka stóru og sterkbyggðu karlmennirnir sem líður illa inní sér?

Það má hlæja og það má gráta,  það er okkar eðli.

Komum út úr skrápnum og förum að lifa lífinu af tilfinningu.

„Það er bara ekki ÉG að gráta fyrir framan fólk“ –  hef ég sjálf sagt og heyrt marga aðra segja.   Hver er það þá sem var að gráta, ef það var ekki ÉG? –

Var það ekki bara akkúrat ÉG?

Öld Vatnsberans er runnin upp, vatnið er tákn fyrir tilfinningar í ýmissi táknfræði,  tárin okkar eru vatn.  Þau spretta fram við tilfinningar,  við grátum af gleði og við grátum af sorg.

Ef við byrgjum inni, þá er svo mikil hætta á að vanlíðanin brjótist út í ljótum orðum, gjörðum og jafnvel ofbeldi.  Birtingarmyndin getur verið ofbeldi gagnvart okkur sjálfum eða gagnvart öðrum.  Meðvirkni er t.d. í mörgum tilfellum sjálfspíslarhvöt sem myndast þegar eigin tilfinningar eða þarfir eru ekki virtar.  –  Ofbeldi gagnvart öðrum er aðferð særðu manneskjunnar í skrápnum við að kalla á hjálp. –

Brené Brown segir eftirfrandi, – og ég hef oft haft það eftir henni:

„Djúp þörf fyrir að tilheyra og vera elskuð er eitthvað sem engin manneskja getur gefið afslátt af. Við erum líffræðilega, vitsmunalega, líkamlega og andlega „víruð“ til að elska, vera elskuð og tilheyra.
Þegar þeim þörfum er ekki fullnægt, virkum við ekki eins og okkur er ætlað. Við brotnum. Hrynjum niður. Við dofnum. Okkur verkjar. Við meiðum aðra. Við verðum veik.
Sannarlega eru aðrar ástæður veikinda, doða og sársauka, en fjarlægð við ást og að tilheyra mun alltaf leiða til þjáningar“ …

Hleypum streyminu af stað, losum stíflur, gleðjumst, hryggjumst, grátum heitum tárum …

Hluti af sjálfsvirðingu er að virða tilfinningar sínar.

Við eigum að finna til,  hvort sem það er til gleði eða sorgar.  Ekki deyfa, flýja eða afneita tilfinningum okkar. – Það eru engin „short-cuts“ ..

Að lifa af heilu hjarta, að fella skjöldinn eða koma út úr skrápnum, er að hafa hugrekki til að sýna tilfinningar, hugrekki til að viðurkenna veikleika, hugrekki til að tjá sig um langanir sínar og drauma, hugrekki til að  elska þrátt fyrir yfirvofandi sár eða höfnun,  því þegar við elskum lifum við í yfirvofandi skugga þess að vera hafnað eða að missa ástina, –  það er eins og lífið er,  við lifum í skugga þess að einn daginn endi lífið,  en við hættum ekki að lifa. –

Að elska er að lifa.

Að finna til er að vera til.

ég óttast ekki svikin loforð
vegna þess að ég held
að betra sé að elska og missa
en missa af því að elska

(Kristján Hreinsson)

6 hugrenningar um “Út úr skrápnum …

  1. Bakvísun: Lausn eftir skilnað fyrir karlmenn | LAUSNIN - Fjölskyldumiðstöð

  2. Bakvísun: Mest lesnu pistlarnar … | JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s