Við höfum að sjálfsögðu ekki val um allt, – sumt er okkur gefið og annað ekki. En það mikilvægasta höfum við; það er hinn frjálsi vilji.
Eins og þarna stendur þá kemur sá tími í lífinu, eða við komum að þeim gatnamótum þar sem tökum ákvörðun um að láta ekki bjóða okkur upp á hvað sem er, „drama“ eða hvað sem við köllum það á íslensku þar sem stundum er verið að gera úlfalda úr mýflugu – sem óhjákvæmilega gerist þegar að fókusinn er fastur á neikvæðni og leiðindi. Sumt fólk nærist á vandamálum, því miður er það nú þannig, – það reyndar fitar bara skuggahliðina sína eða sársaukann sinn, en það er nóg til að það er erfitt að umgangast það.
Við getum valið okkur fólk sem nærir sólarhliðina okkar, og nærir sólarhliðina sína, – Gleymum þessu vonda, og setjum athyglina á hið góða og það sem við veitum athygli vex. Þökkum það sem við höfum og viljum hafa og það vex líka.
Elskum fólkið sem kemur fallega fram við okkur og biðjum þeim blessunar sem gerir það ekki. Lífið er of stutt til að lifa í óhamingju.
Að skrika fótur, gera mistök og jafnvel detta kylliflatur er bara eðlilegur hluti lífsins, en að rísa upp aftur, eftir fallið, er að lifa. –
Í aðstoðarskólastjóratíð minni hafði ég oft orð á því við nemendur að það væri hverjum manni hollt að prófa það að falla. – Það er ekki síðri skóli en að læra stærðfræði eða íslensku.
Sjálf féll ég í stærðfræði í framhaldsskóla og síðan í grísku í háskólanum. – Það var voðalega vont í bæði skiptin, og sérstaklega í seinna skiptið þá var ég alveg komin að því að gefast upp. En ég kláraði mitt embættispróf í guðfræði. –
Ég veit að ég var betri aðstoðarskólastjóri vegna þess að ég hafði reynt það á eigin skinni að falla. Ég átti betra með að setja mig í spor þeirra sem komu niðurbrotin eftir fall og settust inn á skrifstofu, en um leið gat ég líka hvatt þau og spurt hvað þau ætluðu að gera í framhaldinu. Hversu lengi þau hyggðust ætla að liggja og gráta fallið eða hvort þau væru búin að taka ákvörðun hvernig þau ætluðu að nálgast verkefnið í annað sinn. Hvort þau væru búin að skoða prófið, hvað gerðu þau rétt og hvað rangt. Því öðru vísi er erfitt að læra af mistökum sínum. – Fókusinn þarf ekki síst að vera á því sem gert var rétt og svo þarf þá bara að bæta við. –
Þetta er allt spurning um viðhorf, ekki gefast upp og ekki gera ekki neitt. Ákvörðun um að eiga gott líf er fyrsta skrefið á þinni réttu leið. – Ákvörðunin um að lifa í heiðarleika við okkur sjálf og aðra, og láta heldur ekki bjóða okkur hvað sem er. –
Og nú ítreka ég nýjasta uppáhaldsfrasann minn:
„When you say yes to life, life says yes to you“ –
eða
Þegar þú segir JÁ við lífið segir lífið JÁ við þig. – Hlustaðu