„Ofbeldi er andstæða uppeldis“ – sagði góð kona einu sinni á námskeiði sem ég sótti um „Ofbeldi orða og þagnar“ eins og það var kallað.
Það er hægt að meiða með orðum, en líka með þögn. Það er hægt að beita augnaráði, það er hægt að stynja eða hvað sem er og það nægir til að þér sé stjórnað – þ.e.a.s. ef þú ert vön/vanur ákveðinni hegðun eða nærveru viðkomandi. Það er hægt að stjórna með látbragðinu einu saman. –
En eigum við að láta að stjórn? – og af hverju látum við að stjórn? –
Auðvitað er það lærð hegðun, oft lærð hegðun barns. Ein djúp stuna, eða e.t.v. hamagangur og glamur í diskum í eldhúsi eru nóg skilaboð að einhver – t.d. mamma er ósátt. Þegar einhver svona dóminerandi (stjórnandi) er á heimili getur allt heimilið verið undirlagt.
Í myndinni „Ungfrúin góða og húsið“ – dansaði fólk villtan dans og hoppaði uppí rúmi þegar húsbóndinn brá sér í burtu. Eða var það húsmóðirin? .. (Það skiptir ekki öllu, heldur – hvernig fólkinu sem varð eftir leið).
Ofbeldi er aldrei gott, það bælir og brýtur niður. Þess vegna verðum við að spyrja okkur hvað við getum gert. Börn eru býsna varnarlaus, en þau finna sér yfirleitt flóttaleiðir, leiðir til að komast af. Þær leiðir enda því miður oft – vegna niðurbrots – í því að barn dregur sig í hlé, passar að vera ekki fyrir, fer í það að vera ýkt duglegt til að fá viðurkenningu, sum fara að borða meira til að deyfa sársaukann önnur að vera fyndin og skemmtileg fara í trúðshluverk til að gleðja alla, því þau halda jafnvel að þau beri ábyrgð á stunum eða óhamingju hinna fullorðnu. Það eru ýmsir varnarhættir.
En hvað getum við gert sem fullorðnir einstaklingar.
Auðvitað höfum við gefið þessum stynjara, eða orðljóta aðila allt of mikið vald í okkar lífi. Þessum sem er e.t.v. vafinn í ósýnilegt óveðursský og við sogumst inn í það því það hefur áhrif og ekki sést til sólar á meðan viðkomandi er á svæðinu.
Vanlíðan eins verður því vanlíðan allra. Því að sá eða sú sem er reið/ur, í gremju, fýlu eða hvað sem það er er auðvitað í sársauka. Við getum valið að falla með viðkomandi og verða hluti af sársaukanum, eða við getum valið að taka „valdið“ af viðkomandi og láta það ekki hafa áhrif.
Að sjálfsögðu viðurkennum við sársauka eða vanlíðan aðilans, EN við þurfum ekki að láta okkur líða eins og honum eða henni líður.
Við verðum aldrei nógu veik til að hjálpa hinum veika, eða okkur líður aldrei nógu illa til að þeim sem er í vanliðan líði betur. Ef það er svo þá er það að sjálfsögðu ekki sá eða sú sem elskar okkur. – Auðvitað viljum við að náunganum líði vel. Hamingja hans á aldrei að skyggja á okkar eigin, ef að aðili sem er að slíta sambandi vill þér óhamingju er það er ekki vegna ástar heldur er það andstæðan, eða toppurinn á eigingirninni. – „Ég er ekki hamingjusöm/hamingjusamur þá mátt þú ekki vera það heldur.“ –
En hver valdar þann sem beitir ofbeldi, og hver leyfir honum/henni að komast upp með það? –
Ef einhver nær tökum á þér og þínum hugsunum er það vegna þess að hann/hún er STÓR aðili í þínum huga og í raun veitir þú valdið.
Þegar einhver ætlar að byrja að beita þig ofbeldi eða tala niður til þín þarft þú að minnka viðkomandi í huganum, breyta persónunni í pinkulítinn sprellikall eða kerlingu og ljá persónunni rödd Mikka mús eða eitthvað álíka, þá hættir hann að vera valdaður og í staðinn fyrir að þú sitjir eftir sem titrandi strá þá getur þú hlegið innra með þér að þessari fígúru. – Það er ein leiðin. Viðkomandi verður vissulega pirruð eða pirraður að hafa ekki stjórn lengur og gæti misst stjórn á sér – en það er auðvitað markmiðið. – Einhver lærdómur hlýst líka af þessu.
Önnur leiðin er að sjá viðkomandi sem sært barn og hreinlega vorkenna viðkomandi, ekki þó með þeim hætti að láta hann/hana valta yfir þig vegna vorkunnsemi þinnar í hans/hennar garð. – Það er meðvirkni og þá ýtir þú undir hegðunina og persónan heldur auðvitað áfram að nýta sér það að þú finnur til með henni. – Það er mikilvægast að láta ekki stjórnast – vegna þess að öll ráð í bókinni eru notuð til stjórnunar. Ef þú byrjar að gefa eftir, er gengið lengra og lengra og ekki ímynda þér að það sé borin virðing fyrir þér ef þú gefur eftir!
Næst þegar einhver ætlar að fara að „bossast“ með þig eða stjórna þér prófaðu að „afvopna“ viðkomandi á þennan hátt og gáðu hvort þú ferð ekki bara að hlægja í stað þess að láta niðurbrótandi tal eða ofbeldið hafa áhrif.
Mundu bara að valda ekki peðin, því auðvitað eru það bara peð sem beita ofbeldi. Þau reyna að stækka sig með ofbeldinu, en engin/n sér stækkunina nema sá sem samþykkir að þau verði stór og ráði.
Hættu að samþykkja ofbeldi peðsins og gerðu þér grein fyrir smáttarlegu háttalagi. –
Ljónið öskrar þegar því líður illa, – en þegar þú ert komin/n með andlegan styrk hefur öskur ljónsins ekki lengur áhrif á þig. Þú hefur valdið og ljónið verður eins og gæfur hvolpur í þínum höndum. –
Þú notar mátt elskunnar og uppeldis sem er miklu sterkari en máttur ofbeldis. –
Frábær pistill Jóhanna- Orð í tíma töluð ❤
Bakvísun: Sumir þurfa að gera lítið úr öðrum til að upplifa sig stóra .. | JÓHANNA MAGNÚSDÓTTIR, ráðgjöf, námskeið, fyrirlestrar – hvatning! ..
Þetta er mjög áhugavert og sennilega get ég heimfært margt af því við mínar aðstæður. ⚘⚘