RUV sýndi í gærkvöldi, 8. ágúst 2012 heimildarmynd þar sem talað var við samkynhneigt ungt fólk, hvernig það væri að koma út úr skápnum sem samkynhneigð manneskja og viðbrögð foreldra og samfélags.
22:30 Hrein og bein – Sögur úr íslensku samfélagi
Við getum kallað okkur heppin að vera fædd á Íslandi þar sem flestir samþykkja samkynhneigð, tvíkynhneigð og gagnkynhneigð. – Það eru þó því miður ekki allir og í sumum tilfellum er erfitt að „sakast“ við fólkið sem getur ekki samþykkt.
Það er vegna þess að það hefur verið alið upp með ákveðin viðmið og upplýsingar. Lang, lang, flestir breyta viðhorfi sínu þegar þeir eru upplýstir og fræddir, en sumir hanga á dómum sínum eins og hundar á roði.
Reynsla mín af því að starfa með unglingum er því miður sú að einhver erfiðustu tilfellin, þegar kemur að vanlíðan unglinga, er þegar að foreldrar tilheyra sértrúarsöfnuði þar sem þættir eins og samkynhneigð eru litnir hornauga og teljast til syndar. Fyrir mér persónulega er það sambærilegt og það að vera örvhentur teljist til syndar, eða hreinlega að vera kona eða að vera maður.
Ég þarf ekki einu sinni að telja upp alla þá halarófu af efni í Biblíunni sem er orðið löngu, löngu úrelt miðað við samfélagið í dag, til að sjá að það er okkar val og viðhorf sem ákveður hvað er synd og hvað ekki, en ekki það sem stendur þar á prenti. – Þar að auki sé ég allt morandi í mótsögnum og þversögnum, en sumt fólk sér ekki eina einustu mótsögn eða þversögn (eða vill ekki sjá) í Biblíunni.
En hvað skiptir máli? –
Hvort skiptir líf og heilsa meira máli eða stafir á prenti?
Fólk sem horfist ekki í augu við kynhneigð sína eða bælir hana getur ekki verið það sjálft. Þegar við getum ekki verið við sjálf, bælum eðlið, bindum vinstri höndina aftur svo við notum hana ekki, þá fer okkur að líða illa. Ég þekki persónulega tilfelli þar sem fólk er annað hvort komið með líkamleg einkenni og sjúkdóma sem ég tel að rekja megi beint til þess að fólk lifir með leyndarmálið.
Leyndarmál lífshamingjunnar er að hafa ekki leyndarmál, skrifaði ég einu sinni – og á bak við það er heilmikil grein um það að fella grímur og vera við sjálf.
Í þættinum Hrein og bein var viðtal við strák sem hafði komið frá Bandaríkjunum, en foreldrar hans tilheyrðu sértrúarsöfnuði og afneituðu honum þegar hann viðurkenndi samkynhneigð sína.
Ég er fegin að hafa ekki fæðst inní miðjum sértrúarsöfnuði í Bandaríkjunum (eða bara á Íslandi) því e.t.v. væri ég þá þannig móðir að ef barnið mitt kæmi út úr skápnum myndi ég hafna því. – Ég fæ næstum hræðslukast og hroll þegar ég hugsa út í það. – Málið er nefnilega að við erum afurðir ákveðins samfélags og uppeldis, og ef við erum mötuð á ákveðnu efni og forrituð þá höfum við kannski ekki getu eða hæfni til að gera neitt annað en að afneita börnum okkar, eða hvað?
Ég er með þessu aðeins að reyna að setja mig í spor, eða skilja þau sem eru „sértrúuð.“
Um leið get ég aldrei samþykkt þá sértrú að elska ekki barnið sitt skilyrðislaust, og ef við játumst því að „Leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar“ – erum við um leið að játast því að gera Guð að fyrirmynd. Guð elskar skilyrðislaust og hafnar ekki neinni mannveru.
Þeir sem tilheyra „sér-trúnni“ segjast oft elska viðkomandi en ekki samþykkja kynlífið sem samkynhneigðir stunda. Það er eins og að segja að elska örvhenta, en ekki það að þeir skrifi með vinstri hendinni.
Kynlíf og samlíf er bara ein leið til tjáningar, m.a. tjáningar á ást til annarrar manneskju. Í kynlífi fær fólk útrás og upplifir oft sæluna við sameiningu. – Útrás er nauðsynleg hverri manneskju, kynlíf er einn farvegur útrásar. Tjáning í hvaða formi sem er er útrás, – „Expression“ sem þýðir að við erum að setja eitthvað út, en andheitið er „Suppression“ eða bæling og þá er verið að halda inni, og einhvers staðar hleðst það upp. Stundum í bakverkjum, liðverkjum, andlegum verkjum (ef svo má að orði komast) og það er þá sem við leitum í flóttann, auðvitað, því auðvitað flýjum við manneskju sem líður illa. – Öll þurfum við að koma heim til okkar sjálfra, hverrar kynhneigðar sem við erum.
En hvað um það, kynlíf er mun áhugaverðara stundað með annarri manneskju, en ein/n og sér. Það hljóta flestir að samþykkja, líka hin sértrúuðu. –
Þannig að – svona í restina, þá langar mig hreinlega að ákalla foreldra, með því sem ég skrifaði á vegginn minn á fésbókinni eftir að ég horfði á þáttinn í gær og eftir reynslu mína og viðtöl við unglinga sem þora ekki fyrir sitt litla líf að viðurkenna samkynheigð sína fyrir foreldrum:
„Verum við sjálf – elsku, elsku foreldrar látum börnin okkar vita að við elskum þau skilyrðislaust, fyrr en síðar. Mörg eru hrædd við afneitun af foreldranna hálfu komi þau út úr skápnum. Það að bæla eðli sitt þýðir að viðkomandi veikist, andlega og/eða líkamlega, flýr sjálfan sig – og alvarlegasti flóttinn er að taka sitt eigið líf.“ ..
Við þetta má bæta, að lífsflótti kemur fram í alls konar áráttuhegðun, fíknum og vanlíðan. Ekki trúi ég að neinn foreldri vilji stuðla að því hjá sínu barni, eða nokkur einstaklingur vilji stuðla að því að annarri manneskju líði illa, en okkur líður illa ef við bælum eðli okkar. –
Ást – Gleði – Friður
Hvet okkur öll til gleðigöngu – alla daga lífs okkar.
Látum gleðina og kærleikann vera okkar „sér-trú“ ..
Lifum lífinu með stolti en ekki í skömm.