Mátturinn í sáttinni …

„Ef þú ert í fjallgöngu og lendir í sjálfheldu, hvað gerir þú? Hugsar hvað þú getur gert akkúrat þá stundina, hvert verður næsta skref og fikrar þig áfram þar til þú ert örugg-/ur. Það sama gildir um lífið, þegar allt virðist ómögulegt skaltu fókusera á augnablikið og vinna þig þaðan. Taktu eitt skref í einu, náðu í öryggið þitt, þá næsta skref og svo áfram þar til þú finnur að það versta er yfirstaðið. Hamingjuríkara líf er ekki líf án vandamála, heldur hamingjuríkt þrátt fyrir vandamálin.“

(Anna Lóa Ólafsdóttir / Hamingjuhornið)

Ég er þakklát Önnu Lóu fyrir þennan texta, en ég var einmitt að fara að skrifa um sáttina við núið,  sáttina við að vera í þeirri stöðu sem við erum akkúrat núna – svona eins og við hefðum valið hana. –

Það velur engin/n að vera staddur í sjálfheldu ..

En getum við notað þessa líkingu um sjálfhelduna um það að vera búin/n að borða á okkur svo mörg aukakíló að okkur er farið að líða illa og vildum gjarnan losna við þau? ..

Nýlega hélt ég fyrirlestur fyrir nokkra Dale Carnegie þjálfara,  og upp kom þessi pæling hvernig fólk gæti verið sátt við sjálft sig þegar það væri komið langt yfir þyngdarstuðul en ég sagði þeim að það væri útgangspunktur á námskeiðunum mínum m.a. „Í kjörþyngd með kærleika“ sem ég hef staðið fyrir undanfarið ár. –

Þegar við lendum í sjálfheldu í fjallgöngunni þá þurfum við að íhuga hvað hjálpar okkur út úr henni. –

Hjálpar það að segja “ Þú varst nú meira idjótið að fara í þessa göngu?“

Hjálpar það okkur að berja okkur niður fyrir að hafa gert mistök? –  Hjálpar það okkur að fara að hata okkur, tala niður til okkar og vera óánægð? .. Hmmmmmmm….

Það þarf ekkert að svara þessu,  neikvæðnin er aldrei hjálpleg, samviskubitið,  niðurbrotið o.s.frv. heldur aðeins aftur af okkur og það kemur okkur bara dýpra inn í sjálfhelduna og grípur okkur enn fastari tökum. –

Sáttin liggur í því að skoða (án dómhörku í eigin garð eða annarra)  hvernig við komumst í þessa sjálfheldu og svo að hugsa leiðir út úr henni.  –

Þannig er sjónarhóll sáttarinnar.

Þú elskar þig út úr aðstæðum frekar en að hata þig út úr þeim. –

Sá eða sú sem er að glíma við aukakíló þarf því að byrja á því að sætta sig við sjálfa/n sig.   Það er útgangspunktur og þaðan stillum við fókusinn.   „Fókuserum á augnablikið og vinnum þaðan“ ..

Ef við ætlum að hugsa til baka þá gætum við farið að hugsa;

„Oh, þetta er tilraun númer sjötíuogsjö til að losna við aukakíló mér hefur aldrei tekist það áður og hvers vegna ætti mér að takast það núna?“

Þarna er fókusinn kominn á fortíðina og hann er býsna gjarn á að fara þangað, en þá er viðkomandi kominn úr sáttinni. –

Lífstílsbreyting er hugarfarsbreyting fyrst og fremst. –  Læra nýtt og aflæra gamalt.   Byrja á reit X og láta fortíðina ekki skemma fyrir eða það sem ég vil gjarnan kalla útrunnar hugsanir um sjálfið. –  „Outdated thoughts“  eða útrunnið forrit.   Þessu forriti er breytt eða eytt með því að gera sér grein fyrir því og sjá hvað er uppbyggilegt og hvað ekki.  Velja frá það uppbyggilega og henda því sem er niðurbrjótandi.

Mátturinn í sáttinni er því að sætta sig við Núið, ekki lifa í fortíð og ekki bíða með að lifa þar til framtíðin kemur,   lifa núna og sætta sig við það sem er núna.  Fókusera líka á það sem er þakkarvert,  en það hefur margsannað sig að þakklæti eða það að segja „TAKK“  fyrir það góða vindur upp á sig. –

Málið er að sætta sig við aðstæður eins og þú hafir valið þær,  sætta sig við sjálfa/n sig eins og þú ert í dag,  sleppa dómhörku og samviskubiti,  njóta lífsins,  næra þig eins og þú værir umhverfisverndarsinni og þú sjálf/ur jörðin.

Hver sem sjálfheldan er,  þá er möguleiki á frelsi með því að viðurkenna aðstæður,  og með því að skoða hvernig og af hverju þú ert komin/n í sjálfhelduna,  að læra af því og  komast síðan úr henni aftur.

Kannski þarftu að biðja um hjálp?  Stundum dugar að lýsa yfir einbeittum vilja til að vera hjálpað og þá berst hjálpin,  en stundum þarf að kalla,  eða a.m.k. leita eftir henni.

Kærleikurinn er alls staðar og hann er því sannarlega máttur sáttarinnar.

Lifðu lífinu sem þig langar til að lifa, með því að vera til staðar fyrir þig í því lífi sem þú lifir núna.

Elskaðu þig NÚNA,  sættu þig við þig núna, –  ekki bíða eftir því þegar þú verður mjó/r,  rík/ur,  fræg/ur, dugleg/ur eða laus úr sjálfheldu.

Sáttin er NÚNA.

Það er útgangspunkturinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s