Af hverju er Soffía frænka alltaf svona reið? …..

„Já fussum svei, já, fussum svei … söng Soffía frænka yfir bústað ræningjanna“ … enda dauðsáu þeir eftir að hafa rænt henni og vildu ræna henni til baka! 😉

Soffía frænka virtist eiga erfitt með að slaka á, en undir niðri reyndist þó hin vænsta kona.  Eitthvað hefur gert hana bitra og reiða, en auðvitað vitum við ekkert hvað það var,  eða hvað?

Reiði er eðlileg tilfinning.  Reiði kviknar yfirleitt þegar við upplifum eitthvað sem við teljum óréttlát.  Eitthvað sem við erum gjörsamlega ósátt við.

Hver hefði ekki reiðst ef hann hefði sofnað heima hjá sér í hengirúminu og vaknað í ræningjabæli? –  Auðvitað mátti Soffía frænka reiðast, enda brotið á henni.  En reiði Soffíu frænku var ekki bara háð því,  þetta virtist vera hennar fas og Kamilla litla var dauðhrædd við frænku sína.

Ég geri ráð fyrir að fólk þekki Kardimommubæinn! 😉 ..

Reiði er s.s. „viðeigandi“ á réttum stöðum,  en að dvelja í reiði er skaðlegt og skaðar ekki síst þann sem er uppfullur af reiði. –

Það liggur líka í orðanna hljóðan „að vera uppfull af reiði“ – þá kemst varla mikið annað að,  og það verður líka erfitt að hugsa skýrt.

Ég safnaði saman nokkrum tilvitnunum um reiði:

Að halda í reiði er eins og að grípa kolamola í þeim tilgangi að henda í einhvern;  það er sá sem heldur á molanum sem brennir sig.  Búdda     –
Reiði er eins og sýra sem skaðar meira kerið sem inniheldur sýruna sem það er í heldur en hvað sem henni er hellt á.  Mark Twain.   –     Talaðu þegar þú ert reið/ur og þú munt halda þá bestu ræðu sem þú munt nokkurn tímann sjá eftir.   Ambrose Bierce.    
Reiði og óþolinmæði eru óvinir skilnings.  Mahatma Gandhi.    –
Reiðin er drápstól:  hún drepur manninn sem er reiður,  því að hver reiði skilur hann eftir minni en hann var áður – hún tekur eitthvað frá honum.
Louis L´ Amour.     –

Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró. Ralph Waldo Emerson.   –

 
Sá sem reitir þig til reiði er sá sem sigrar þig.  Elizabeth Kenny.     –
Reiði sem er viðhaldið,  er iðulega skaðlegri en sárindin sem ollu henni.
Lucious Annaeus Seneca.
 
Maður ætti að gleyma reiði sinni áður en lagst er til hvílu.  Mahatma Gandhi.    –

 
Það sem byrjar með reiði endar í skömm.  Benjamin Franklin.     –
Svo er ágætt að enda þennan „reiðilestur“  á þessari mynd sem er alveg í anda greinar sem ég skrifaði undir heitnu „Afvopnaðu ofbeldismannin“ – og fjallar um það að gefa ekki fólki vald yfir okkur eða hugsunum okkar. –
Það er ótrúlegt frelsi að losna við reiðina og hluti af því að „vera heima hjá sér“ eða í höfðinu á sjálfum sér,   er að sleppa tökum á reiðinni gagnvart öðru fólki.
Reiðin getur að sjálfsögðu beinst inn á við,  við getum verið reið okkur sjálfum,  ég held ég þurfi varla að skrifa um það hér hvílíkur skaðvaldur það er og hversu uppbyggilegt það eiginlega er? –
Ef við endurtökum það sem Ralph Waldo Emerson sagði:
Fyrir hverja mínútu sem þú dvelur í reiði, gefur þú frá þér sextíu sekúndur af hugarró.
Brian Tracy sem er þekktur fyrir að kenna fólki hvernig það nær árangri í lífinu segir að hugarró sé undirstaða farsældar.  Það hlýtur að þýða að því meiri hugarró,  eða æðruleysi,  getum við bara kallað það þess meiri farsæld og öfugt:  Þess minni hugarró og þá lengri dvöl í reiði þess minni farsæld. –
Takmarkið er FRIÐUR,  ytri friður og innri friður. –
Remez Sasson,  skrifaði eftirfarandi:
„Reiðin blossar upp þegar við upplifum gremju, óhamingju eða særðar tilfinningar,  eða þegar plönin okkar fara ekki eins og við ætluðum.  Hún birtist líka þegar við mætum mótstöðu eða gagnrýni.“ 
Ath!  Reiðin getur  því verið einn angi af stjórnsemi,  við fáum ekki það sem við viljum, hlutirnir eru ekki gerðir eins og við viljum eða ætluðum.  Okkar plani var breytt og við verðum pirruð næstum eins og við séum að einhverju leyti einhverf (ég veit þetta er djúpt í árinni tekið) því það er verið að breyta einhverju sem við plönuðum eða ætluðum.
Við getum til dæmis reiðst afskaplega þegar við fáum ekki starfið sem við vorum búin að búast við að fá eða stefna á,  við getum reiðst við alls konar missi, skilnað, atvinnumissi,  því vissulega er þeim breytingum þvingað upp á okkur.
Reiðin er sjaldnast hjálpleg.  Hún eyðir orkunni okkar, getur skaðað heilsuna,  skemmt fyrir samböndum, og getur valdið því að við missum af tækifærum.  Það að reiðast er að vinna gegn eigin farsæld!

Hlutir fara ekki alltaf eins og við plönuðum eða væntum. Fólk gerir ekki alltaf það sem þú ætlaðist til.  Við getum ekki alltaf stjórnað.

Getur verið að Soffía frænka hafi verið stjórnsöm kona? 😉

Við getum svo sannarlega ekki alltaf stjórnað atburðarás eða fólki, en við getum stjórnað hvernig við bregðumst við – a.m.k. í mörgum tilfellum.

Guðni í Rope Yoga segir „Við getum brugðist við eða valið okkur viðbrögð“ .. Til þess þarf að sjálfsögðu aga og æðruleysi.

Það er ekkert vit í því að leyfa aðstæðum og fólki að toga í strengina okkar (enda við ekki strengjabrúður) og leyfa þessu fólki að stjórna huga okkar og tifinningum.   Það er hægt að velja að láta ekki fólk hafa áhrif á skap okkar.

Sumt er þannig að ekki er hægt annað en að upplifa reiði, a.m.k. í skamma stund,  en stundum erum við að láta smámuni og (smá)fólk fara í taugarnar á okkur.  – Gera úlfalda úr mýflugu kannski og reiðast yfir hlutum sem okkur koma hreinlega ekki við.

Reiði eru neikvæð viðbrögð og ef við ætlum að stunda sjálfsrækt,  gera okkur að betri manneskjum og vinna andlega vinnu þurfum við að forðast reiðina eins og mögulegt er.

Að læra hvernig við náum slökun og að róa órólegan huga,  eignast hugarró,  er ein besta leiðin til að yfirstíga reiðina,  og allar neikvæðar tilfinningar.  Hugarró hjálpar okkur ekki bara við að sigrast á reiðinni, heldur einnig á kvíða og neikvæðum hugsunarhætti.

Ég held ég hafi svarað, að hluta til,  hvers vegna Soffía frænka var alltaf svona reið.

Soffía frænka var Ráðskona með stóru R.   Auðvitað varð hún reið þegar að búið var að ráðskast með hana,  taka hana fangna án hennar vitundar.   En hún var sko fljót að jafna sig blessunin,  og af hverju var það? –  Jú,  hún áttaði sig á því að hún gat STJÓRNAÐ ræningjunum.

Reiði Soffíu liggur því í óörygginu við að hafa ekki stjórn, en jafnar sig þegar hún fær að stjórna.

Atferlismynstur og einkenni meðvirkni skv. síðunni http://www.coda.is

Stjórnsemi

 • Mér finnst flest annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
 • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim ,,á” að finnast og hvernig þeim líður í ,,raun og veru”.
 • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
 • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurð/ur.
 • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem ég vil hafa áhrif á.
 • Ég nota kynferðislegt aðdráttarafl til að öðlast viðurkenningu.
 • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í samskiptum við það.
 • Ég ætlast til þess að aðrir mæti þörfum mínum.
 • Ég nota þokka minn og persónutöfra, til þess að sannfæra aðra um að ég sé fær um að sýna ást og umhyggju.
 • Ég nota ásakanir og skammir til að notfæra mér tilfinningar annara.
 • Ég neita allri samvinnu, málamiðlun eða samkomulagi.
 • Ég beiti afskiptaleysi, vanmætti, valdi eða reiði til þess að hafa áhrif á útkomuna.
 • Ég nota hugtök úr bataferlinu til að reyna stjórna hegðun annara.
 • Ég þykist vera sammála öðrum til þess að fá það sem ég vil.

Það eru margar Soffíurnar í okkar samfélagi.  Kannski birtast þær ekki alltaf sem reiðar,  en vissulega stjórnsamar og reiðast vissulega þegar hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði.

Niðurstaða:  Soffía frænka var meðvirk og hennar helsta atferlismynstur var stjórnsemi.

Sjá meira hér:  http://coda.is/um-coda/einkenni/

Og meira til íhugunar:

Getur verið að reiði sé í mörgum tilfellum stjórnsemi? –  Að viðkomandi verði reiðir þegar að hlutirnir fara ekki eftir þeirra höfði og eins og þeir ætluðu að þeir færu? –  Hvernig bregst barnið við þegar það fær ekki það sem það vill? –  Stappar niður fótum og lætur öllum illum látum.  Sum hafa lent í svona börnum í stórmörkuðum.  Erum við ekki stundum eins og fullorðin börn í stórmarkaði lífsins,  sem e.t.v. höfum ekki fengið þau mörk sem átti að setja okkur? –  Kannski hefur foreldrið gefist upp,  til að róa barnið og fundist áhorfendaskarinn óþægilegur? –  hmmmm..

Þeir sem vilja öðlast hugarró geta haft samband og keypt  hugleiðsludisk hjá mér,  hafið samband við johanna.magnusdottir@gmail.com

Er einnig með einkaviðtöl, námskeið o.fl. hjá Lausninni,  sjá http://www.lausnin.is

LOVE ALL – SERVE ALL

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s