„Guð – gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.“
Reinhold Niebuhr Carnegie
Eitt af því sem fólk í sjálfsrækt eða sjálfsvinnu er að glíma við er að koma sér úr því sem kallað er „skaðlegar aðstæður.“
Það þarf kjark til að koma sér úr skaðlegum aðstæðum, sérstaklega þegar að við erum orðin „samdauna“ þeim og finnst við í sumum tilfellum bara eiga þær skilið! – Kannski ekki meðvitað en vissulega ómeðvitað. Sjálfsmatið, hið innra verðmætamat er þá ekki hærra en það að við gefum fólki leyfi til að ráðskast með okkur og jafnvel henda okkur fram og til baka tilfinningalega eins og við værum tuskubrúður. –
Við segjum ekki stop. Þegar við erum í þannig aðstæðum sem geta verið mjög flóknar, flóknar á þann hátt að við erum farin að vorkenna þeim sem kemur illa fram við okkur, afsaka gjörðir hans/hennar með því að viðkomandi sé ekki sjálfrátt o.s.frv. erum við oft farin að taka þennan einstakling og tilfinningar hans fram yfir okkar eigin tilfinningar, fram yfir okkar eigin þarfir og fram yfir okkar eigin langanir.
Við geðjumst, þóknumst, gerum allt til að halda friðinn og gera rétt, en það merkilega er að viðkomandi verður bara ýktari í neikvæðri hegðun sinni gagnvart okkur.
Af hverju?
Jú, af því að við erum ekki verðug, eða upplifum okkur ekki verðugri en það að við eigum þetta bara skilið. Og ef við berum ekki virðingu fyrir okkur af hverju ættu aðrir að gera það? Þetta skilja flestir ef ekki allir sem hafa lært eitthvað um meðvirkni. Hvernig við ýtum undir slæma siði eða hegðun hjá öðrum með því að halda öllu góðu, eða reyna það. Þóknast og gefa afslátt af eigin þörfum til að geðjast hinum.
Auðvitað er hér um kunnáttuleysi og vanmátt í samskiptum að ræða.
Það er ágætt að muna þessa kjarnyrtu setningu:
„Elska skalt þú náungann EINS OG sjálfan þig“ ..
en ekki
„Elska skalt þú náungann MEIRA EN sjálfan þig“ .. (og við mætti bæta að elska náungann þýðir ekki að bjóða honum að styðja undir fíknir hans og ósiði – nú eða bara veikleika og það að taka sjálfsábyrgðina af honum, ábyrgð sem hann á að bera sem fullorðin manneskja).
Okkur langar öllum að vera góð, fá viðurkenningu og vera elskuð, en við eigum ekki að þurfa að geðjast, þóknast eða kaupa okkur þessa elsku. Við erum NÓG sem manneskjur.
Það að vera fædd á þessari jörð er nóg til að verðskulda elsku.
Það er kjarkur að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart aðstæðum, viðurkenna að við hreinlega kunnum ekki á þessar aðstæður sem við erum komin í, oft mjög svo skaðlegar aðstæður.
Það er ekki fyrr en við sjáum aðstæður, skiljum af hverju þær eru svona að við getum viðurkennt þær og þó það hljómi þversagnarkennt, það er ekki fyrr en við sættumst við aðstæður að við getum farið að breyta.
Að sættast við aðstæður þýðir þá hér að viðurkenna þær og viðurkenna að við viljum breyta. Stundum þarf til þess hjálp, og alltaf þarf til þess kjark.
Aðstæður sem varað hafa lengi er eitthvað sem við þekkjum, jafnvel þó þær séu vondar upplifum við eitthvað öruggt við þær. Þetta er eitt af því skrítna í sálfræðinni, en margþekkt.
Af hverju snýr ofbeldisþoli iðulega aftur heim til ofbeldismanns? – Kannski eru þar aðstæður sem eru þekktar.
Tveir fuglar voru lokaðir inní búri. Í búrinu var matur og öryggi en ekkert frelsi. Þeir sungu á hverjum degi um frelsið og hvað þeir þráðu að fljúga. Dag einn kom hendi og opnaði búrið og sagði „Gjörið svo vel þið eruð frjálsir“ .. Annar fuglinn flaug samstundis út en hinn færði sig innar í búrið. –
Stundum er þörfin fyrir öryggið yfirsterkari þörfinni fyrir frelsi. Þessi dæmisaga nær bara utan um muninn á öryggi og frelsinu, en þarna mætti bæta við að á hverjum degi hefði eigandinn danglað hressilega í þá. –
Samt hefði annar fuglinn kosið að halda sig heima. –
Það þarf kjark til að breyta því sem við getum breytt og spurningin er líka, „Hvað get ég?“ – eða „Þori ég, get ég vil ég?“ …
Við þurfum kjark, getu og vilja – allt í sama pakkanum.
Ef við viljum en hvorki getum né þorum gerist ekki neitt.
Ef við getum en viljum hvorki né þorum gerist ekki neitt.
Það þarf heilan pistil til að útskýra það af hverju við viljum en gerum ekki. En þar er það sem gamla forritið kemur sterkt inn, meðvirknin m.a. sem byrjar að þróast í bernsku, meðvirkni sem verður til sem eðlileg varnarviðbrögð við einhverju óeðlilegu. Það þarf ekki að vera neitt stórvægilegt, það er frekar eins og dropinn sem holar steininn. Eitthvað sem gerist inni á heimili, kunnáttuleysi eða getuleysi foreldris í samskiptum, tilfinningaflótti á heimili, yfirborðsmennska, feluleikur, alkóhólismi, veikindi af öðrum toga, foreldrar sem eru fyrirmyndir sem sjálfir hafa lágt sjálfsmat og tala því út frá sársauka sínum og hafa vond samskipti af þeim orsökum. –
Við þurfum að sjá og viðurkenna sársaukann til að breyta, við þurfum að trúa því að við séum þess virði að eiga allt gott skilið og byggja upp eigið verðmætamat og sjálfsvirðingu.
Það þarf kjark til að elska sig, virða sig, treysta sér, samþykkja sig og FYRIRGEFA sér og fyrirgefa um leið öðrum.
Engin/n hefur lifað lífi þar sem hann/hún hefur ekki gert mistök. Stundum stór mistök.
Hræðslan við að breyta liggur oft í því að við erum hrædd við að gera mistök.
Við skulum ekki færa okkur innar í búrið bara vegna ótta við óvissu eða ótta við að gera mistök. Þá erum við komin með ný trúarbrögð sem heita „Trúin á óttann“ ..
Ef við erum ekki viss hvort við erum að gera rétt, þá förum við í næstu línu æðruleysisbænarinnar og biðjum æðri mátt/Guð um leiðsögn og biðjum um vitið eða viskuna til að greina á milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki breytt.
„Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt – því þú ert með mér“ .. segir í Davíðssálmi 23.
Þegar við tökum óttann út úr jöfnunni. Óttann við að fara út í eitthvað nýtt og óþekkt, óttann við að gera mistök, hvar stöndum við þá? –
Við stöndum ekki ein, aldrei ein – því við stöndum eftir með Guð/æðri mátt, við stöndum eftir með kjarkinn til að breyta og við stöndum eftir með sannleikann, sannleikann sem gerir okkur frjáls.
Það þarf kjark til að sleppa tökum á óttanum, það þarf kjark til að sleppa tökunum á skömminni við að mistakast. Ótti og skömm eru óvinir okkar, og það þarf þor, getu og vilja til að sleppa af þessum óvinum tökunum.
Það þarf kjark til að horfast í augu við sannleikann.
En sannleikurinn gerir okkur frjáls svo…
… Trúum – Treystum – Sleppum ….
Munum að allt tal um að vera föst, eða í skaðlegum aðstæðum, getur ekki síst verið vegna þess að við erum föst í vírgirðingu eigin hugsana, föst með fólk, staði og aðstæður í kollinum okkar, sem við þurfum að sleppa. – Kannski þurfum við ekkert að fara eitt né neitt. Oft erum við stödd akkúrat þar sem við eigum að vera, en þurfum aðeins að breyta okkar innri rödd, viðmiðum, sjónarhorni og sjálfstali. –
Fangelsið getur verið innra með okkur sjálfum.
Sleppa er því lykilorðið.
Sjáðu þig fyrir þér þar sem þú ert með krepptan hnefann og rígheldur í það sem heldur aftur af þér, neikvæðar hugsanir og vantraust í eigin garð.
Slepptu, fljúgðu og finndu hvað frelsið er yndislegt.
Svo satt Jóhanna og sagan um fuglana tvo sýnir okkur hvað getur verið stutt út í frelsið ef maður bara þorir…knús til þín takk fyrir allar þessar yndislegu greinar