Þú skilur ekki við barnið þitt! …

Ein af ástæðum þess að mikilvægt er að vakna af blundi eða réttara sagt martröð meðvirkninnar er að margir hafa upplifað það að vera komnir út úr vondu sambandi eða hjónabandi,  og eru þar af leiðandi frjálsir frá makanum sem þeir töldu ástæðu allrar vanlíðunarinnar og sitja uppi með barn eða börn sem þeir upplifa  eins og framlengingu eða eftirlíkingu af fyrrverandi maka!

Hvað gerir þú þá?

Þú skilur væntanlega ekki við barnið eða unglinginn?

Hvað ef maki þinn hefur verið krítískur, gert lítið úr þér, verið stjórnsamur, spilað á tilfinningar þínar – ýtt á alla viðkvæmustu takkana eða togað í „réttu“ strengina og  þú brugðist við, þar af leiðandi,  eins og strengjabrúða? –

Þú ert nú skilin/n við makann,  en hvað ef barnið þitt eða unglingur hefur lært þessa hegðun af makanum og notar hana áfram á þig? –

Er það ekki ástæða til að líta í eigin barm og breyta eigin viðmóti og viðbrögðum.  Styrkja sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna? –

Sjálfsvirðing og sjálfstraust er grundvallandi fyrir virðingu og trausti frá öðrum aðila.  Sá sem byrjar að ganga á þér, eða yfir þín mörk (sem kannski eru engin)  gengur eins langt og hann kemst.  Það liggur í mannlegu eðli að reyna að komast eins langt og við komumst upp með.

Reyndar í dýrslegu eðli líka,  þekkjum við sem höfum alið upp hunda 😉

Sá eða sú sem verður að setja mörk og segja stopp ert þú.

Hingað og ekki lengra.

Með því að setja barni sínu mörk, ertu að virða þín mörk og um leið að kenna því framkomu gagnvart þér.  Þú ert að gera ykkur báðum greiða.

Ef að barn fær að komast upp með stjórnun gagnvart foreldri, heldur það áfram að ástunda sömu hegðun gagnvart félögum og e.t.v  maka í framtíðinni.  Það finnur sér „fórnarlamb“ sem passar.  Einhvern sem fyllir í brotna sjálfsmynd þess,  einhvern annan meðvirkan og e.t.v. líkan foreldrinu.

Ástæðan fyrir því að margir foreldrar „leyfa“ barni/unglingi að komast upp með skemmandi hegðun og/eða stjórnsemi getur verið vegna þess að

a) foreldrið er að reyna að halda í „ást“ barnsins síns.  Barnið gæti jafnvel lokað á foreldrið ef það segir „hingað og ekki lengra“ – en þegar upp er staðið þá er það mesti kærleikurinn og mesta hugrekki að þora að setja barni sínu mörk.  Að segja „Nei“ þegar þarf að segja nei.

b) foreldrið gæti verið að kaupa sér frið,  það er stundum auðveldara að vera eftirlátssamur og „góður“  leyfa frekar en segja nei, eins og áður sagði,  vegna þess að ef það er gert er friðurinn keyptur,  en það er svo sannarlega skammgóður vermir,  eða aðeins stundarfriður,  því auðvitað er,  eins og áður sagði, gengið á lagið.

Barn á ekki að læra að meta „góðmennsku“ foreldris eftir hversu oft það segir já eða gefur fleiri gjafir.   Raunverulegur kærleikur liggur að sjálfsögðu ekki í því að kaupa sem flestar gjafir eða að segja alltaf já.

Ég hef heyrt börn segja: „Pabbi er svo góður hann segir alltaf já“ – eða „Mamma er svo vond hún leyfir mér ekki að fara út á kvöldin“ –  „Mamma er svo góð,  hún er alltaf að kaupa eitthvað handa mér“.. „Pabbi er svo vondur, hann bannar mér að vera í tölvunni“.. Skiptir ekki máli hvort að notað er mamma eða pabbi þarna – það mætti skipta því út.

Það er vissulega vandlifað í þessum heimi og stundum setjum við e.t.v. of stíf mörk, – en ég held að of víð mörk eða „lin“ mörk séu mun algengari.   Börn sem alast upp við slíkt,  geta átt í erfiðleikum félagslega því að þau koma út sem frek og stjórnsöm (leiðinleg)  og önnur börn fara að forðast þau. –

Ég man eftir atriði í bíómynd þar sem Hugh Grant lék mann sem kom í heimsókn til hjóna sem dýrkuðu son sinn,  sonurinn kom og frussaði á Grant og hjónin hlógu og spurðu hann hvort honum þætti hann ekki „adorable?“ ..

Það er miklu auðveldara að sjá galla í uppeldi annarra en hjá sjálfum sér.
Einhvern tímann las ég skilgreiningu á orðinu „óþekktarormar“ – en það var „börn nágrannanna.“  😉 ..

Við erum viðkvæm þegar kemur að því að aðrir setji út á eða dæmi uppeldið okkar,  en við þurfum öll að líta í eigin barm, bæði hvað það varðar og annað.  –  Hvernig er raunverulegur kærleikur í garð barnanna? –

Í meðvirkninámskeiðum Lausnarinnar tölum við um „Þroskaþjófa“  en það er fólk sem ofdekrar börnin sín og tekur af þeim ábyrgð sem er við þeirra hæfi. –  Ein lýsti þessu þannig að hún upplifði sig sem barn sem væri löngu farið að ganga sjálft,  en það væri eins og mamma héldi enn í hendur hennar og héldi svo fast að hún kæmist ekki áfram. – Héldi í raun aftur af henni.

Það er ekki fallegt að stela,  ekki heldur þroska.  Málið er að það er að sjálfsögðu ekki viljandi,  heldur vegna vankunnáttu eða af misskildri góðmennsku foreldris.  Meðvirkni er ekki góðmennska,  en það er einn algengasti misskilningunn, eins og lesa má um í samnefndri grein minni.  Við höldum s.s. að við séum að vera góð en erum í raun að ala upp eða hegða okkur út frá röngum forsendum eins og fram hefur komið hér að ofan.

Við erum hrædd við að vera ekki elskuð.  Að fá ekki ást barnanna okkar og missa tengsl við þau. 

Ef við viljum ekki ala upp meðvirkan einstakling,  eða bara illa upp alinn ef við sleppum orðinu meðvirkni sem sumir eiga erfitt með,  þurfum við að læra að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og setja mörk.

Engin/n vill skilja við barnið sitt ..

Að gefnu tilefni,  þá langar mig að taka það fram að mörg börn og unglingar upplifa að annað foreldri þeirra skilji við þau við skilnaðinn og aðskilnaður eykst oft enn meira ef að pabbi eða mamma byrjar nýtt samband og hefur nýtt líf með nýjum maka og fókusinn fer alveg á hann/hana og hennar/hennar fjölskyldu ef viðkomandi á t.d. á börn fyrir.  Nú eða nýja barnið ef að börn bætast við.

Ábyrgðin liggur að sjálfsögðu alltaf hjá foreldrinu en ekki nýja makanum, en alltaf er sama ástæðan fyrir því að við hegðum okkur vanvirkt eða meðvirkt,  óttinn við að vera ekki elskuð ef við gerum ekki eins og við teljum að aðrir vilji eða aðrir „heimta“ af okkur og við þorum ekki annað en að gera það. Þetta er umfjöllunarefni út af fyrir sig og er efni í aðra grein.

Enn og aftur segi ég að enginn vilji skilja við barnið sitt, en sumir gera það – en ég tel það sé alltaf af vankunnáttu og/eða óöryggi í samskiptum en ekki af hreinum og klárum vilja.

Lærum og lifum lífinu lifandi. 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s