Sársaukinn við að horfa upp á sorg annarra ..

Ég hef upplifað sárustu sorg, – en um leið skynja ég viðbrögð þeirra sem í kringum mig eru.  Mínir nánustu eru að sjálfsögðu að upplifa sína sorg við sinn missi, börnin, systkinin, pabbinn, frænkur, frændur, amman, vinir, vinkonur o.s.frv. –

Það er stór sorg að missa, – og það er sorg sem kannski ekki oft er rædd, en það er sorgin við að horfa upp á þau sem manni þykir vænt um,  missa.

Viðbrögðin eru misjöfn, – flestir vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að lina sorg hinna, upplifa sig vanmáttug, og óska þess að geta gert meira.

Í raun er svo lítið hægt að gera, bara vera. Vera til staðar og vera vinir í raun eins og þar stendur, og getur varla staðið skýrar.  „Vinir í raun.“ –

Ekki hverfa, ekki týnast  – en þó ekki reyna að fara að laga eða bæta eitthvað sem ekki er hægt að laga eða bæta.

Stundum kveikir sorg vina okkar á okkar eigin sorg.  Það er skýrast þegar við förum í jarðarför hjá einhverjum sem er okkur ekkert endilega mjög tengdur – kannski fullorðinn afi, langafi saddur lífdaga,  en tónlistin, andinn og allt tal í kirkjunni um dauðann, eilífa lífið – það kveikir upp og vekur upp sárar tilfinningar og það er þá bara um að gera að gráta þær og skammast sín ekkert fyrir það.

Ég hef heyrt í fólki sem skammast sín fyrir að gráta í jarðarförum hjá fólki sem þeim er ekkert mjög náið. –  Skömmumst okkur aldrei fyrir að gráta, því að gráturinn er gjöf.  Gráturinn er losun á sorg og erfiðleikum.

Það er sama hver á í hlut, þegar stórkostlega grimmir og sorglegir atburðir gerast, eins og nú nýlega þegar  móðir lést og skilur eftir sig fjögur börn, þá skiptir máli fyrir þau sem sinna þeim að þau þurfa að fá fyrirmynd gleði og jákvæðni líka.   Mér fannst það svo mikilvægt þegar presturinn danski kom að tala við okkur Henrik,  nokkrum dögum eftir dauða Evu,  að minnast þess að börnin hennar þörfnuðust áfram heimilis sem ríkti gleði og uppbygging. –

Það hljómar mótsagnakennt að tala um gleði þegar að verið er að tala um svona sorglega hluti, – gleðin og sorgin eru systur, var mér kennt í sálgæslufræðum í Háskóla Íslands og ég hef fengið að kynnast þeim báðum mjög náið. –  Það hefur allt sinn tíma,  en við megum ekki ganga í burtu með sorginni og skilja gleðina eftir vinalausa. –

Vinir hjálpa með að halda áfram að sinna sér, fóðra hamingju sína og gleði, – styrkja sig – ekki síst til að hreinlega geta verið til staðar og stuðnings þegar á þau er kallað.

Ég er þakklát fyrir mína vini og vinkonur, fyrir fjölskyldu sem er bara frábær. Það er gott að ganga með og í gleðinni.

Ég mætti konu í gær sem var svo sorgmædd, vegna sorgar fjölskyldu sem hafði lent í mikilli sorg.  Það hafði haft veruleg áhrif á hennar líf.  Kannski var það eitthvað sem kviknaði innra með henni sjálfri, rifjaðist upp, eða að hún fann svona mikið til með fjölskyldunni, –  en það er mikilvægt að muna að samhygð hefur sín mörk – þ.e.a.s. að fara ekki of djúpt inn í sorg hinna þannig að það fari að verða okkar eigin sorg og þurfum jafnvel að fara að fá huggun frá þeim sem syrgir sinn nánasta. –  Þá er þessu alveg snúið á hvolf.

Þekkjum mörkin – að veita samhug þýðir að vera til staðar og sýna skilning en ekki gera sorg vinar eða vinkonu að okkar eigin sorg, þannig að huggunarhlutverkið snúist við. Ef þetta reynist okkur mjög erfitt þá er um að gera að leita sér hjálpar – en ekki hjá þeim sem við finnum til með.

Munum að vera bestu vinir og vinkonur okkar sjálfra, og að eins og vinátta er mikilvæg og hin ytri huggun – að sterkasta huggunin kemur innan frá. – við erum til staðar og leyfum fólki að huggast.á eigin forsendum.

Láttu þér líða vel – þetta líf er til þess gert. 🙂

533257_584256411631978_1561503500_n

Hvað gerist ef maki þinn „dansar“ ekki eftir þínu höfði?

Mikill samskiptaspekúlant var að falla frá, hann Hugó Þórisson – blessuð sé minning hans, – en ég sótti eitt sinn helgarnámskeið hjá honum og hlustaði a.m.k. 3svar á hann á fyrirlestrum. –

Það er ýmislegt sem situr eftir eins og ‘“Ég“ boðin,  að tala út frá sjálfum sér en ekki með ásökun,  og það að „Segja það sem maður meinar og meina það sem maður segir.“

Þó Hugó hafi aðallega gefið sig út sem ráðgjafi í samskiptum foreldra og barna þá gilda þessi samskiptaboð að sjálfsögðu milli fullorðins fólks.

Ferlið í samböndum vill of verða þannig að fólk kynnist með fyrirfram gefnar væntingar um hinn „fullkomna“ maka, og ætlar síðan hinum aðilanum alls konar hluti sem eru honum kannski alls ekkert eiginlegir.  Væntingar verða s.s. óuppfylltar og skapa óánægju og vonbrigði hjá þeim sem væntir og vonar og ætlast til.  Það versnar líka oft í því þegar annar aðilinn ætlast til að hinn hreinlega viti hvað hann eða hún er að hugsa og fer svo í gríðarlegt fýlu-eða gremjukast þegar hinn hegðar sér ekki skv. væntingum og tilætlun þess sem óskar.

Þá kemur inn þetta gullkorn að segja upphátt hvað við viljum, hvers við vonum og tala um þarfir okkar og langanir,  jafnvel framtíðarvonir og framtíðarsýn og sjá hvort þær smella saman. –

Það þýðir ekki að ætla maka sínum að sjá um okkar eigin hamingju, – eða taka ábyrgð á okkar hamingju, – svo ekki sé talað um ef við erum búin að ætla honum að vera öðru vísi en hann er, svo er hann bara alls ekkert þannig og fara þá að stjórnast með hann á þann hátt að breyta honum í eitthvað sem hann alls ekki er!!!..  og jú,  fara svo í megafýlu ef honum tekst ekki að vera það sem VIÐ viljum að hann sé. –

Flókið, pinku. – En þarna kemur inn stjórnsemin, og það að ef við hefjum samband á röngum forsendum,  þ.e.a.s. við ætlum okkur að breyta maka okkar til að „aðlaga“ hann að okkur þá er það nokkurn veginn dæmt til að mistakast.  Ef að einhver fæ ekki að vera sá sem hann raunverulega er finnur hann ekki hamingjuna sína og enn þá síður getum við ætlast til að viðkomandi geti gert okkur hamingjusöm.

Alltaf eru það sömu grunnlögmál sem virka, þ.e.a.s. í samskiptum,  við þurfum að vera sátt í eigin skinni til þess að eiga farsælt samband með öðru „skinni“  😉

Það á engin/n að orku-eða hamingjusjúga annan aðila til að fá hamingju og ekki eigum við heldur að þurfa að vera hamingjubrunnur fyrir aðra.  Það er hver og ein/n sinn eigin hamingjubrunnur. –

Um leið og við förum að ætlast til að uppspretta hamingju okkar liggi í annarri manneskju erum við að gefa frá okkur eigin mátt og vald – og fær hinni manneskjunni máttinn – gera hana að einhvers konar æðra mætti og jafnvel þannig að hún skyggi á okkar eigin æðra mátt.

Makinn verður þá einhvers konar „Guð“ í okkar lífi – og þegar makinn klikkar – fer ekki að OKKAR vilja,  þá missum við „trúna.“ –

Verum við sjálf – leyfum öðrum að vera þau sjálf – reynum ekki að breyta fólki – og látum ekki fólk breyta okkur.

Verum við sjálf og virkjum  okkar eigin uppsprettu gleði, gleði, gleði! 😉

to be yourself in a world that is constantly trying to make you something else is the greatest accomplishment copy

 

Að þroskast eftir skilnað ….

Reynsla mín af sorg – er sú að það er mjög erfitt að komast áfram ef við festumst í sorgarferlinu.  Sorg er yfirskrift yfir margar tilfinningar – og sorg er eitthvað sem við göngum í gegnum þegar eitthvað fer öðruvísi en við ætluðum.

Að festast í sorgarferli þýðir það t.d. að festast í reiði,  e.t.v. reiði út í maka vegna trúnaðarbrests.  Reiði út í maka fyrir að hafa brugðist,  – eða gremju hreinlega út í aðstæður,  svona átti þetta alls ekki að fara.

Það er ekkert nema eðlilegt að fara í gegnum sorgarferli,  en það er önnur sorg sem getur orðið meiri en hin eiginlega sorg eftir skilnað,  það er ef að enginn verði þroskinn,  en ég tel að ef að fólk lærir ekkert af þessu ferli og stöðvast í því eða flýi það þá komi ekki sá þroski sem okkur er ætlað að fá út úr ferlinu.

Sorg og þjáning er skóli – þungur skóli.

Diplóma þess skóla er sáttin,  og sáttinni náum við ekki nema að fara í gegnum tilfinningarnar, vð náum henni ekki í gegnum mat, áfengi, annað fólk – eða annan flótta eða bælingu tilfinninga.  Við verðum að taka þennan „bekk“ sjálf.

Margir skilja vegna þess að þeir telja sig ekki finna  hamingjuna í hjónabandinu –  en átta sig kannski ekki á því að í raun finna þeir ekki hamingjuna sem er innra með þeim sjálfum.

Í sjálfsrækt eftir skilnað er því nauðsynlegt og gagnlegt, að horfa inn á við – og fókusera á sjálfa/n sig.  Byggja sig upp, rækta og efla – virkja innri gleði, ást og frið.   Með því er líka verið að fyrirbyggja að farið sé í „sama“ sambandið aftur.

Það er ekkert á hverra færi að finna út úr þessu,  – en námskeiðin „Lausn eftir skilnað“ – byggja á því að viðurkenna sorgina eftir skilnað, gera sorgarferlið að þroskaferli og læra að setja fókusinn inn á við.  Ekki hanga á ásökun í garð makans,  jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur,  verið afskiptur eða tilfinningakaldur, –  ef fólk er skilið og ætlar að halda því til streitu þarf að taka fókusinn af fyrrverandi og setja hann heim á sjálfa/n sig. –

Enn er laust á námskeið sem hefst 5. október nk.  í Lausninni, námskeið fyrir konur í þetta sinn – og hægt að skrá sig ef smellt er HÉR   

Athugið að það eru engin tímamörk – hversu langt er liðið frá skilnaði,  þetta snýst ekki um tíma, heldur hvort að sátt sé náð eða ekki.  Stundum er fólk enn ósátt við sinn skilnað þó mörg ár séu liðin og er fast í gömlu fari.

Sáttin hefur þann töframátt að þá fyrst hefst nýr vöxtur.

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

 

 

 

Á ég að týna mér eða þér? – um ójafnvægi í samböndum 1. hluti

Þessi pistill heitir á frummálinu:

„The split-level relationship“  og er eftir Steve Hauptman

Hér eru tvær spurningar sem við glímum við ef við viljum vera í heilbrigðu sambandi.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það er hægt að glíma við þær.

En það er glíman sem skiptir máli.

Af hverju?

Vegna þess að hún framkallar grunnþarfir þess sem við höfum fram að færa í hvaða sambandi sem er.

Samband (connection) og frelsi. 

Samþykki annarrar persónu og að samþykkja sjálfa/n sig.

Heilan og raunverulegan maka,  og á sama tíma, heila/n og raunverulega/n þig.

Tvo raunverulega og heila einstaklinga.

Flestir sem höfundur þekkir eru sannfærðir um að ekki sé hægt að vera heil (þau sjálf) bæði á sama tíma.

Flestir eru úr fjölskyldum –  sem hafa alkóhólískt – eða ofbeldistengt mynstur eða eru á annan hátt vanvirkar – og hafa þar af leiðandi ekki haft möguleikann á að finna jafnvægið milli þess að vera í sambandi og vera frjáls.

Það sem þau lærðu var að hafa eitt þýddi að missa hitt.  Annað hvort var það samband eða frelsi.

Það að ávinna sér ást og samþykki foreldra, til dæmis, þýddi það að fórna mikilvægum hlutum í lífi þeirra sjálfra,  eins og frelsinu við að tjá sig frjálslega eða að sinna eigin þörfum.

Það er í fjölskyldunni sem við ólumst upp sem hvert okkar lærði sitt persónulega svar við þessum tveimur spurningum.

Hvernig get ég fengið þig án þess að týna mér?

Hvernig get ég fengið mig án þess að týna þér? 

Og svarið sem við tileinkuðum okkur varð að mikilvægum (þó að mestu ómeðvituðu) hluta grunnviðhorfa okkar til lífsins og sambanda okkar,  það sem höfundur kallar – okkar Plan A.

Sumir taka ákvörðun, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að hafa MIG, og til fjandans með ÞIG“ – sálfræðingar kalla þetta hið sjálfhverfa svar (The narcissistic answer.)

Önnur ákveða, „Þar sem ég get ekki haft okkur bæði, ætla ég að haf ÞIG, og til fjandans með MIG“ – sem er hið „margfræga“ meðvirka svar.

Þá segir hinn sjálfhverfi maki  „ÉG fyrst,“ og hinn meðvirki svarar, „Já, elskan.“

Og þessar tvær persónugerðir enda saman með ótrúlega reglulegu millibili.

Þegar fylgst er með samskiptum þessa pars,  kemur  á óvart hversu fyrirsjáanleg samskiptin eru.  Í öllum aðstæðum finnur sjálfhverfi einstaklingurinn einhverja leið til þess að segja: „Ég fyrst/ur,“ og hinn meðvirki svarar „Já, elskan.“  Það er eins og þessir aðilar hafi sest niður fyrir langa löngu og skrifað undir samning um að gera þetta svona.

Sem þeir að hluta til gerðu.

Það hvernig þau svöruðu þessum tveimur spurningum hér að ofan,  eru að stærstum hluta ástæðan fyrir að þau löðuðust hvort að öðru.

Höfundur segir að flest pör sem leita ráðgjafar hjá honum fylgi þessu mynstri – svo mörg að hann ákvað að gefa þessu parasambandi nafn.

Hann kallar það „split-level relationship“ –  við gætum kallað það „samband á aðskildu plani“ –  eins og að par búi í pallaraðhúsi og annar aðilinn sé alltaf skör neðar en hinn.

Þessi sambönd á aðskildu plani ganga um tíma, en brotna yfirleitt alltaf upp.  Á einhverjum tímapunkti áttar annað hvort annar aðilinn eða báðir að þeir eru ekki að fá það sem þeir þarfnast úr sambandinu.

Hin meðvirku taka yfirleitt eftir því fyrst. Þegar þessi maki er kvenkyns getur þetta leitt til þess sem höfundur kalla „The Walk-Away Wife“ – „Eiginkonan sem gengur burt.“ –  Ég mun skrifa sérstaklega um það síðar.

En hin sjálfhverfu hafa tilhneygingu til að vera óhamingjösum líka. Þau kvarta um einmanaleika,  skort á nánd við hinn meðvirka maka, eða skort á virðingu og umhyggju.  Þau geta upplifað óþolinmæði,  eirðarleysi, pirring, gremju.  Stundum neyta þau áfengis, eiturlyfja, ofnota mat, lifa í reiði eða halda framhjá, og líður svo illa með það.

Allt þetta á sér stað vegna þess að þessi sambönd á misjöfnu plani eru ófrávíkjanlega óheilbrigð.

Kunnugleg, vissulega.  Jafnvel þægileg, að því leyti að fólk veit hvað það hefur.  (Öryggistilfinningin).

En þessi sambönd eru ekki heilbrigð.  Þessi svör sem mynda ójafnvægi og samböndin á misjöfnu plani eru byggð á geta ekki uppfyllt tilfinningaþörf tveggja fullorðinna einstaklinga.  Og það endar með því að báðir aðilar upplifa sig svikin,  án þess að skilja hvers vegna.

Hvernig er batinn hjá svona pari?

Þá er hlutverkum víxlað.

Hinn meðvirki einstaklingur verður að þróa með sér hugrekki og æfa sig í að standa upp fyrir sjálfum sér.

Hinn sjálfhverfi  verður að þróa með sér samhug og æfa sig í að stíga niður,  æfa sig í að gefa í stað þess að heimta.

Auðvelt?  Nei.  Fyrir hvorugt þeirra er þetta auðvelt.

Aðeins nauðsynlegt til að vera á sama plani.  (Búa á sömu hæð).

Þýðing – Jóhanna Magnúsdóttir – http://www.johannamagnusdottir.com

Það er ekki í boði ..

Getur verið að fólk haldi að lausn þeirra mála finnist í því að finna sökudólga fyrir því hvernig komið er fyrir því? –

Eftir því sem það bendir meira á ytri aðstæður og annað fólk tekur það minni og minni ábyrgð á eigin lífi og endar með að vera gjörsamlega valdalaust.

Af hverju að taka af sér valdið, sinn eigin mátt og megin? – Af hverju að stilla sér upp sem fórnarlambi og upplifa sig föst í aðstæðum í stað þess að spyrja; „Jæja hvað get ÉG gert, og hvaða leið er nú best út úr þessum aðstæðum?“ .. Væl – vol – kvart og kvein. Það er allt í lagi að gráta og syrgja, og það er meira að segja leiðin til að halda áfram, en að festast í slíkum aðstæðum er ekki lausn, ekki bati og ekki í boði – svo talað sé gott leikskólamál.

Þetta framansagt varð að einlægum „status“ hjá mér á facebook sem margir voru sammála og langar mig að halda þessu hér til haga.  Í framhaldi fékk ég spurninguna:

  • „Að leiðbeina þeim sem biðja um aðstoð út úr svona ógöngum er meira en að segja það. Svona hugsunarháttur getur hafa viðgengist hjá fjölskyldum síðan langa langa amma bjó með honum langa langa afa „dagdrykkjumanni“ Þetta er svo „eðlilegt“ ástand út frá óeðlilegum aðstæðum. Er þetta ekki eitthvað í okkur öllum?“
    Svarið mitt var á þessa leið:
  •  Þetta er spurningin um að sleppa – um að fyrirgefa – og frelsa sig þannig úr ánauð aðstæðna og fólks í staðinn fyrir að fara dýpra inn í aðstæður eða tengjast þeim/því sem særir okkur enn fastar. Það er rétt vegna þess að því meira sem við biðjum fólk um að sleppa tökunum, þess fastar heldur það.
    Óskin verður að koma innan frá – og allir verða að eiga sitt „aha“ moment. Engin/n verður þvingaður eða þvinguð til breytinga. EKki frekar en hægt er að segja fólki að trúa. Trúin og allt sem ER kemur innan frá, frá uppsprettunni – sem vill okkur vel og er hreinn kærleikur.
    Sá/sú sem VILL hlusta  heyrir og sá/sú sem VILL sjá sér, en það er spurning hvort að viljinn sé fyrir hendi, það eru þessar endalausu hindranir og þessi mikla mótstaða (resistance) sem við erum að glíma við. Jú við öll.
    1095045_563187810407763_647635916_n

Hver er forsendan? …

Hvernig veit ég hvort það sem ég er að gera er sprottið af meðvirkni eða ekki? ..

Þú þarft að spyrja þig:  „Af hverju er ég að þessu?“  –  „Af hverju er ég í þessu sambandi?“  o.s.frv.   „Af hverju segi ég ekki nei, þegar mig langar að segja nei“? 

Ertu að gera eitthvað vegna þess að þú hefur meðvitað valið að gera það, eða er það vegna sektarkenndar eða þér finnst þér bera skylda til þess?   Hverjum skuldar þú og hvað skuldar þú?

Ertu að velja að gefa (gefa af þér)  án umhugsunar um það sem þú ert að gera?  Ertu að vonast eftir því að einhverjum líki við þig, elski þig eða geri eitthvað fyrir þig – ef þú gerir eitthvað fyrir hann eða hana?

Það er voðalega vont að gera hlutina á óttaforsendum.

Í ótta við það að vera ekki elskuð, vera ekki metin eða viðurkennd sem manneskjur.

Ef ég geri fólki greiða, þá vil ég gera það af heilum hug, ekki til þess að ég eigin eitthvað inni hjá þeim eða ég óski að ég sé samþykkt af þeim eða viðurkennd.  Að sama skapi vil ég helst ekki þiggja greiða séu þeir á þessum forsendum.

Það er líka vont að þiggja af þeim sem hefur sagt „Já“ en situr uppi með gremjuna og óánægjuna að hafa sagt það.  –

Gerum það sem við gerum, ekki til að fá þakkir, vera samþykkt, viðurkennd, elskuð o.s.frv. –  Við erum allrar elsku verð, eins og við erum.

Nánari lesning um þessi atriði eru t.d. í greinunum:

„Þú skuldar mér ekki neitt“ 

og

„Meðvirkni er ekki góðmennska“ 

Það eru nokkrir hlutir sem við þurfum að læra til að komast frá meðvirknihegðun.

1. Sjálfs-ást  (þeirri ást er best lýst með dæminu um súrefnisgrímunni á sig fyrst til að hjálpa barni).

2. Sjálfs-virðingu   (það að virða er að veita athygli, hættum að leita eftir athygli út á við og veitum sjálfum okkur athygli og viðurkenningu).  Þegar við virðum okkur fyrir okkur,  virðum við það sem við gerum fyrir okkur, við verðum okkar eigin áhorfendur.  Sjáum hvað við gerum og einmitt „af hverju“ – eða forsendur fyrir gjörðum okkar.

Þetta saman virkar þannig að ef við veitum okkur athygli, sjáum við hvort við gerum eitthvað út af elsku eða ótta. Ef við gerum eitthvað út frá ótta, óttanum við að missa eitthvað eða einhvern, þurfum við að endurskoða líf okkar og fara að pota aðeins meiri sjálfs-ást þarna inn.

Eitt lykilatriði við að vinna sig út úr meðvirknihegðun er að hætta öllum ásökunum – „blaming game“ – bæði í eigin garð og annarra.  Því þá sitjum við föst í fórnarlambshlutverki.   Sátt næst ekki með ásökunum eða dómhörku og það er aldrei fyrr en í sátt sem nýr vöxtur hefst.  

Hver er þá forsendan sem við þurfum að hafa í huga þegar við framkvæmum?

Það er að gera það í sátt við sjálfa/n sig – forsendan er sjálfs-ást og sjálfs-virðing.  Svo er hægt að byrja aftur á pistlinum til að lesa aftur um þessa tvo hluti og hvað þeir skipta miklu máli. 

552023_434727973207644_155458597801251_1864963_8980327_n

Uppskrift að betra lífi ..

1.  Ástundum þakklæti – því þakklæti leiðir til gleði og gleði til árangurs.

2. Gerum okkur grein fyrir að tilgangur lífsins er gleði,  og alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum þá veljum þá sem veitir meiri gleði.

3. Veljum góða andlega næringu,  við förum ekki í jákvæðnikúr, við breytum siðum okkar þannig að góð andleg næring er það sem við kjósum á diskinn okkar allt lífið. –  Þess meira pláss sem við gefum hinu góða því minna pláss er fyrir hið vonda. –

4. Forðumst að vera fórnarlömb,  klæðum okkur ekki í „fórnarlambsbolinn“ á morgnana heldur „sigurvegarabolinn“ –  berum höfuðið hátt.

5. Fyrirgefum, sleppum ásökunum – gerum okkur grein fyrir aðstæðum og skiljum þær, en notum hvorki fólk né aðstæður til að stimpla okkur inn í aðgerðaleysi og eymd.  Eymd er valkostur.

6.  Trúum að við fáum aðstoð lífsins, að þegar við segjum „já takk“ að lífið komi til móts við okkur.  – Trúin er þessi hlekkur sem oft vantar þegar allt hitt er komið.  Þegar við vitum allt – t.d. hvernig við eigum að ná árangri – en við trúum ekki á eigin árangur.  Trúðu á þinn mátt og megin.

7.  Veitum athygli og virðum það góða,  okkar eigin kostum og kostum þeirra sem eru í kringum okkur.  Að veita athygli er svipað og að virða,

8. Ekki leita eftir elsku, gleði, skemmtun eða  þakklæti frá öðrum. Elskum, gleðjumst, skemmtum okkur og þökkum.  Við höfum uppsprettu þessa alls innra með okkur.  Okkur skortir ekkert.  Gleði laðar að sér gleði, elska laðar að sér elsku og þakklæti laðar að sér þakklæti.

9. Leyfum okkur að skína, leyfum okkur að eiga allt gott skilið, verum að-laðandi, það þýðir að við fyllum á okkar eigin bikar – fyllum á hann með heilagleika sem við getum lært við hugleiðslu, yoga, bænir,  útiveru,  fjallgöngur eða annað sem við finnum að gefur okkur nánd við það sem er heilagt og tært.

10.  Gerum okkur grein fyrir því að hið andlega líf, vellíðan hið innra er undirstaða að betra veraldlegu lífi.

11. Verum heiðarleg og sönn,  gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Heiðarleiki er grundvöllur góðra samskipta. Tjáum okkur opinskátt og segjum það sem við meinum, en förum ekki fjallabaksleið að efninu.  Tölum út frá hjartanu,  það þýðir að segja ég en ekki þú. „Mér líður svona þegar“ .. í stað þess að ásaka „Þú ert ..“

12.  Sýnum samhug en verum ekki heimshryggðarkrossberar.  Heimurinn hefur ekkert gagn af okkur ef við erum gagntekin af sorg yfir atburðum sem gerast hinum megin á hnettinum.  Þá fjölgar bara fórnarlömbunum ef við erum orðin óstarfhæf eða máttlaus vegna þessarra atburða.

13. Lítum okkur nær.  Dokum við og lítum í eigin barm áður en við förum í það að dæma náungann.  Ef við erum vöknuð ekki dæma þau sem eru enn sofandi.

14. Þegar við lendum í stormi, myrkri, holu  – sem okkur líður illa í – hugsum ekki myrkur, heldur hugsum ljós.  Þá erum við lögð af stað út úr myrkri, holu, sorg.

15. Munum að þó að sælla sé að gefa en þiggja þá þurfum við líka að sýna þá auðmýkt að vera á þeim enda að þiggja. Þiggja hrós og þiggja hjálp. – Ekki vera of stolt,  –

15. Opnum hjörtu okkar, sýnum tilfinningar, höldum ekki leyndarmál sem skaða okkur,  virðum innri frið.

16. Elskum óvini okkar – óttann og skömmina, – „Kill them with kindness“ – það þýðir að við eyðum þeim með elsku.  Rými þeirra minnkar og endar með því að við verðum að mestu óttalaus og förum að lifa af hugrekki. – Stundum elskum við mest með að sleppa tökunum – og af hverju ekki að sleppa tökunum á ótta, kvíða og afbrýðisemi? –   Stjórnsemi – það að treysta ekki er að óttast. „Faith or fear“ –   Við óttumst það sem við þekkjum ekki, við óttumst óvissuna.  Óttinn og vantraustið er grunnur stjórnsemi og stundum verðum við hreinlega að sleppa tauminum því að okkur er farið að verkja – og leyfa lífinu að vera án okkar stjórnunar.

Biðjum um æðruleysi – til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt – sætta okkur við fortíð og fólk og fyrirgefa, okkar vegna. Biðjum um hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, um hugekki til betra lífs, til að tjá okkur án ótta.  Biðjum um vit til að greina a milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki. –  Fortíð verður ekki breytt og fólki verður ekki breytt.

Sættum okkur við það sem er, eins og við höfum valið það – því út frá sáttinni hefst nýr vöxtur – ekki fyrr. 

Lífskrafturinn er kærleikur,  allt sem við gerum, setjum kærleikann inn í þá jöfnu og munum að meðvirkni er ekki góðmennska,  hún er vankunnátta í góðmennsku og hún er í raun eigingjörn góðmennska. –  Við erum ekki að leyfa fólki að takast á við þeirra eigin áskoranir í lífinu,  við erum að stela sjálfstæði, stela virðingu.

Mesti kærleikurinn getur verið í þvi að setja fólki mörk.

Verum sjálf breytingin sem við viljum sjá hjá öðrum. Ergjum okkur ekki á þeirra vanmætti eða vankunnáttu, – verum okkar eigin bestu fyrirmyndir og þá um leið annarra.

Lifum heil. og höfum trú.  

1185179_423218941120300_1002824657_n

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? ..

Hvað gerðist hjá Bradley Manning?   35 ára fangelsi?

Á hverjum bitnar sannsögli hans og uppljóstranir,  jú á þeim sem beittu ofbeldi – en það bitnar mest á honum sjálfum og við þurfum ekki að efast um að maðurinn á fjölskyldu og vini,  sem það hlýtur að bitna á líka.

Allt sem við gerum hefur áhrif,  ekki bara á okkur sjálf heldur líka á þau sem eru í kringum okkur.

Oftast er ástæðan fyrir því að við segjum EKKI sannleikann – að við erum hrædd við að meiða,  meiða aðra og meiða okkur sjálf. Við erum líka hrædd við að missa þau sem okkur þykir vænt um, okkar nánustu sem eru flækt inn í kóngulóarvef þagnarinnar og vilja ekki rjúfa hann og finnst við svikarar.

Með því að meiða aðra (eða finnast við vera að því)  finnum við til. Okkur þykir (flestum væntanlega) vont að vera þess valdandi að fólk finni til, fái að upplifa sárar uppgötvanir og í hugann koma alltaf orð skáldsins: „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ –

Ég skrifaði „að verða þess valdandi“ – en í raun er það ekki við sem verðum þess valdandi, það er atburður eða hlutur sem átti sér stað sem við erum að segja frá sem verður þess valdandi að fólk er sært. –

En það er þetta með sendiboðann eða uppljóstrarann.  Þann sem segir sannleikann,  – oft er hann skotinn niður í stað þess að athyglin fari á atburðinn eða þann sem verið er að ljóstra upp um.

Ég skrifaði stóran pistil sem hefur yfirskriftina, „Leyndarmál og lygar“ – byggðan á pistli Brené Brown.  Þar kemur mikilvægið að segja sögu sína fram.

Þá fékk ég fyrirspurn frá henni yndislegu  Millu sem er sjötug kona sem hljóðaði svona:

„Frábært að lesa þetta aftir Jóhanna mín, en hvað ef ég vil og þarf að segja sögu sanna sem mun gera fólk sem á í hlut alveg brjálað út í mig?“

„Er í vandræðum með þetta.“

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.8.2013 kl. 21:10

Já,  Bandaríkjamenn urðu brjálaðir út í Bradley Manning, svo þeir settu hann í fangelsi í 35 ár fyrir að segja sannleikann.

Ég veit ekki undir hvaða  trúnaðarsamning (meðvirknisamning) við skrifum undir sem börn,  að halda leyndu því ofbeldi sem við verðum fyrir – bæði af kynferðislegum toga sem öðrum? –

Það sem er mikilvægt að hafa í huga:

Þegar við segjum sögu okkar,  að gera það í kærleika og með virðingu fyrir lífinu.  Segjum hana á réttum forsendum,  þ.e.a.s. vegna þess að við erum að frelsa okkur úr fangelsi hugans, oft fangelsi skammar sem íþyngir okkur og e.t.v. ánauð fortíðar.   Með þessu frelsi fylgir oft að einhver annar er „afhjúpaður“ sem gerandi. –

Það þýðir ekki að viðkomandi sé endilega vond manneskja, og honum eða henni hefði reyndar verið greiði gerður (og öllum öðrum viðkomandi) ef afhjúpunin hefði komið strax,  en ekki tugum árum síðar.

Við þurfum að hafa í huga forsendurnar – af hverju?

Það hefur allt sinn tíma undir sólinni, – leyndarmálin eru best þannig að þau verði ekki til, næst best að segja frá þeim sem fyrst. Sjaldan er ein báran stök, og stundum þegar fólk fer að opna á leyndarmál þá opnast pandórubox,  það fer fleira að koma upp.

Þau sem stíga fram með leyndarmál eins og að það hafi verið brotið á þeim á einn eða annan máta,  lent í hvers konar ofbeldi, misnotkun, einelti – þau eru fyrirmyndir,  en þau þurfa að muna að festast ekki í ásökun og að fara ekki í hefndargír,  því það bindur þau enn sterkar við atburðinn.

Ef sagt er A þarf að fara alla leið og vinna úr málinu sem þarf að enda í sátt og fyrirgefningu,  – til að viðkomandi geti haldið áfram með líf sitt.   Fyrirgefningu sem þýðir að ekki sé verið að samþykkja atburð eða gjörning, aðeins að losa sig úr þessari áður nefndu ánauð fortíðar.

Allir þurfa hjálp, gerendur og þolendur og líka þau sem standa nærri.  Í raun má segja að allir séu þolendur ef við skoðum þetta út frá þeim sjónarhóli að voðaverk eða ofbeldi er aðeins framið og oftast út frá sársauka.

Það þýðir þó ekki að – ekki eigi að segja sannleikann – því sannleikurinn,  eins og hann er sár, frelsar ekki einungis þann sem verður fyrir ofbeldi heldur líka þann sem hefur beitt því, því hann situr svo sannarlega uppi með verknaðinn líka og þeir sem í kringum hann lifa og hrærast finna fyrir því.  Manneskja með erfiða fortíð og ljóta gjörninga í farteskinu á erfitt með að elska og vera heil,  og er það reyndar ómögulegt.

Það er manneskja á flótta frá sjálfri sér og lífinu,  eflaust manneskja sem leitar í fíkn.

Það sem situr eftir er spurningin: „Af hverju erum við að segja frá?“ Ef það frelsar þig úr ánauð fortíðar og skammar,  þá á að segja frá. Það þarf bara að gera það á réttan hátt,  án ásökunar, og í samráði við þau sem kunna til verka.   Það þarf að leita sér hjálpar.

Ég viðurkenni að ég veit allt of lítið um Bradley Manning, en ég held það séu fæstir siðmenntaðir í vafa um að það sem hann gerði, það að uppljóstra þrátt fyrir undirritaða þagnareiða,  sé rangt.

Það eru þessir óskrifuðu þagnareiðar fjölskyldna sem við þurfum aðeins að íhuga,  hvort að þar leynist hættan á að ofbeldi sé falið og leyndarmál séu haldin sem séu skaðleg, ekki bara þeim aðilum sem eru á bak við heldur vegna komandi kynslóðar.

Þá er betra að tala og rjúfa e.t.v. keðju sem verður aldrei með öðru móti slitin en að segja sannleikann.

Þó hann sé hræðilega sár þá er hann frelsandi þegar upp er staðið.

Ef öllum frásögnum er pakkað inn í elsku,  þá verður umgjörðin mýkri.  Viðtakendur taki við með auðmýkt og átti sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um þann sem þarf frelsið til að vera hann/hún sjálfur en ekki um þá.

Öll erum við perlur,  sálir sem upprunalega fæddumst saklaus og frjáls.  Ef við fáum ekki að vera við og fáum ekki að segja sögu okkar,  erum við ekki heima hjá okkur.

Við þurfum að komast heim.

936714_203765759778261_1356573995_n

Að setja heilbrigð mörk …

Að setja sér eða öðrum mörk,  þýðir ekki að við séum að breyta öðru fólki.  Það að setja mörk er að ákvarða hversu mikið þú ert tilbúin/n að láta bjóða þér og síðan að koma þessum mörkum til skila með ákveðni og festu og halda þig við þau.
Ef þú átt erfitt með að setja mörk,  getur verið að þú sért farin/n að taka á þig ábyrgð á tilfinningum annarra og vandamál þeirra.  Líf þitt gæti orðið ein ringulreið og fullt af dramatík.  Þér finnst kannski erfitt að segja „nei“ vegna þess að þú hræðist höfnun.  Þú gætir verið annað hvort yfirmáta stjörnsöm/samur og ábyrgðarfull/ur,  eða afskiptalaus og háð/ur í  samskiptum þínum við aðra.   Þú hefur mikið langlundargeð gagnvart hegðun sem er ofbeldisfull í þinn garð. Þú fórnar gildum þínum til að þóknast eða geðjast einhverjum og/eða forðast átök.

Hjálpleg ráð vð að setja mörk:

Settu mörk jafnvel þó þér finnist þú eigingjörn/gjarn eða sek/ur.  Þú átt rétt á því að hugsa um sjálfa/n þig.
Byrjaðu á auðveldustu mörkunum/fólkinu
Settu þau skýrt fram og án tilfinninga og í eins fáum orðum og mögulegt er.
Ekki fara að afsaka þig eða réttlæta.
Aðrir MUNU reyna þig – þau sem eru vön að geta stjórnað þér eða manipulera með þig.  Stattu við þitt eða gakktu í burtu.
Fáðu aðra í lið með þér,  þau sem virða þín mörk.

Það tekur tíma að setja heilbrigð mörk.
EF þú hefur óheilbrigð mörk,  laðar þú að þér þau sem sjá sér leik að borði og fara að misnota sér það.  Farðu því að laða inn í líf þitt heilbrigðara fólk.

 

1170720_498620266895180_1106913787_n

Hið innra verðmæti … ef aðeins…

Þegar ég fór að lesa um meðvirkni og læra, var einn af fyrstu lærdómunum að fara að elska sjálfa mig og meta skilyrðislaust.  Að sjálfsögðu kom annað fólk í framhaldi af því.

Án allra merkimiða, stöðu, stéttar, kyns, kynþáttar,  kynhneigðar,  útlits, fjölskyldu, maka o.s.frv. –

Í bókinni „Facing Codependence“ er talað um „Self-esteem“ og „Other-esteem“ – en við erum að mestu að byggja á þessu „Other“ dags daglega.

Sjálf-svirðing – sjálfs-traust  eða utanaðkomandi -virðing, utanaðkomandi- traust.

Hvað ég ég án titils – stöðu, stéttar,  atvinnu  o.s.frv. –

Hvað er ég ef ég stend eftir ein, nakin og allslaus?  Með ekkert utanaðkomandi?   Er ég einhvers virði?

„Að sjálfsögðu“  myndu margir segja,  en það eru samt önnur skilaboð sem samfélagið sendir oft og virðingin vill oft hanga á merkimiðunum – og ríkidæmið líka.  Við erum rík ef við eigum hús og bíl, fallegan maka og börn.

Hvað með þau sem eiga ekki neitt og ekki heldur börn.  Eru þau fátæk?

Konungsríki Guðs er innra með þér.  Það fæðast allir jafn ríkir og haldast allir jafn ríkir, allt sem kemur að utan er að láni,  eitthvað sem við höfum meðan við lifum þessari jarðvist,   meira að segja „hylkið“ okkar,  líkaminn er fenginn að láni.

Við erum sálir – og sálin er konungsríkið. 

733833_10201743643821718_1138113304_n

Í guðfræðideildinni las ég um mann sem hét Job. Sagan er frekar ljót í raun þar sem Guð og Djöfullinn eru að veðja sín á milli hvort að Job muni formæla Guði. .

Job var talinn réttlátur maður og Job gerði allt rétt,  Job átti fjölskyldu, hús, akur o.s.frv.  og taldi blessun sína vera m.a. þá að hann var trúrækinn.

En í stuttu máli þá missti Job allt sem verðmæti hans og hamingja byggðist á,  fjölskylduna, heimilið,  heilsuna  og meira að segja útlitið því hann var alsettur kaunum.

Job fór í gegnum alls konar ferli, með vinum sínum og með sjálfum sér,  en þessi var hans lokaniðurstaða:

„Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.“ (Job 42.5)

Hann sá ekki Guð fyrr en allt var tekið burtu.

En þurfum við að missa allt til að sjá Guð? –

Nei,  við þurfum bara að líta í spegil – horfast í augu við sjálf okkur, djúpt, djúpt og þakka fyrir.  Horfa inn í sálina og sjá konungsríkið sem er þar.

Trúa. og sjá.

Skáldið Rumi er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég sá skilaboð á sivpuðum nótum frá honum,  bara núna í morgun.

I Lost Everything,
I Have Found Myself.

1002176_10151862634988185_1494377873_n

Þetta þýðir ekki að við getum ekki fundið okkur sjálf,  eða komið heim til okkar sjálfra – nema að missa allt hið ytra.  En til þess þarf skilning á að við erum ekki líkami, við erum ekki hið ytra.

Við erum sál.

Mjög verðmæt sál.

Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt að verðmæti okkar og ríkidæmi.

Líkami okkar þjónar sálinni og það er okkar að fara vel með þennan þjón,  tala fallega til hans og aldrei, aldrei kalla hann ljótan eða fara styggðaryrðum um hann.  Ekki fremur en við værum að tala við annað fólk.  „Sæl vinkona mín ertu með ljótuna í dag“?  – „Voðalega ertu eitthvað hrukkótt“? –  „Viðbjóðslegt þetta spik á þér“? – 

Hvernig líður okkur eftir svona tal ? –

Sjálfs-ást og virðing er lykill að farsæld – og síðasti lykillinn á kippunni er lykill þakklætis.  Þakklætis fyrir það sem við erum,  jafnvel þó það sé aðeins þessi sál og ekkert annað.

1098040_10151768472411211_208404344_n

Hugsanir eru trú –  „Thoughts are belief“ –  Hverju trúir þú um þig? –

Ef þú trúir ekki að þú sért yndisleg sál – með fullt af tilgangi – tilgangi sem er gleði – gleðina sem vex dag frá degi þegar við þökkum tilveru sálarinnar og við þökkum allt hið smáa,  eins og kom fram í pistlinum hér á undan.

Ef þú trúir ekki á þig og guðsríkið hið innra með þér – getur verið að þú þurfir að skipta  út hugsunum þínum um þig – að þú þurfir að skipta um trú? – 

Ef aðeins þú sæir verðmæti þitt og fegurð með augum þessa máttar – þessarar orku og uppsprettu alls,  sem sum okkar kalla Guð,  þá er óþarfi að missa nokkurn skapaðan og óskapaðan hlut úr lífinu – þá nærðu að sjá.

Takk fyrir að lesa verðmæta sál.

Já þú  ❤