Sagan af krossfiskunum …

Ég heyrði fyrir mörgum árum söguna um ungu stúlkuna sem var að henda krossfiskunum í sjóinn. –  Hún kemur stundum í hugann þegar mér eru að fallast hendur, þegar mig langar til að bjarga öllum heiminum en er varla fær um að bjarga mínum nánustu, eða sjálfri mér.  Skrifin mín eru hluti af sjálfshjálp minni og veit ég nú að fleiri njóta,  vegna þess að fólk er svo elskulegt að láta mig vita.  Í dag fékk ég einstaklega falleg skilaboð í innboxið mitt,  þar sem pistill sem ég skrifaði „færði líf ungs manns á „næsta level“ eins og hann orðaði það. –

Auðvitað fyllist ég þakklæti fyrir að hafa þegið þá náðargáfu að geta skrifað þannig að aðrir njóti góðs af.  Skrifin koma ekki síst vegna eigin lífsreynslu,  en það er víst sjaldnast lognmolla í kringum mig og hef fengið að reyna ýmislegt og gengið í gegnum áföll sem ég hefði kosið að sleppa,  en það er önnur saga.  Í dag þakka ég þessum áföllum og mótlæti fyrir að auka skilning minn og gera mig að sterkari manneskju en ég hefði orðið ef ég hefði tiplað í gegnum lífið eins og það væri leikskóli en ekki háskóli.

—-

En þessi pistill átti ekki og er ekki um mig, heldur um unga stúlku og krossfiska.  En hér kemur sagan:

Gamall maður hafði þann sið að fara í morgungöngu á ströndinni.  Dag einn eftir mikinn storm,  sá hann mannveru í fjarska sem hreyfði sig eins og hún væri að dansa.  Þegar hann nálgaðist sá hann að þetta var ung stúlka og hún var ekki að dansa heldur að teygja sig niður í sandinn, þar sem hún tók upp krossfisk og henda honum ofurvarlega út í sjóinn.

„Unga kona,“ sagði hann,  „Af hverju ertu að henda krossfiskum  í sjóinn?“

„Sólin er komin upp, og fjarar út og ef ég hendi þeim ekki út í sjóinn munu þeir deyja.“

„En unga kona, skilur þú ekki að ströndin teygir sig marga kílómetra og hún er þakin krossfiskum?  Það sem þú ert að gera er tilgangslaust.“

Unga stúlkan hlustaði kurteisislega, dokaði við en beygði sig síðan niður, tók upp annan krossfisk og henti honum út í sjóinn,  út yfir öldurnar sem skullu í fjöruborðinu og sagði, „Það hefur tilgang fyrir þennan.“

Gamli maðurinn leit rannsakandi á ungu stúlkuna og hugsaði um það sem hún hafði gert.  Innblásinn af orðum hennar, fór hann að henda krossfiskum aftur í sjóinn.  Fljótlega komu fleiri og öllum krossfiskunum var bjargað.

Oft hef ég lesið söguna þannig að hún endar á „Það hefur tilgang fyrir þennan“ –  ..  Það er ekki aðalmálið að öllum sé bjargað,  heldur að hver og einn skiptir máli.  Ef okkur fallast hendur yfir stóru verkefni – þá hugsum okkur að allt skiptir máli, líka það litla sem við gerum.

Hvert líf skiptir máli.

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá uppruna sögunnar:

 

http://en.wikipedia.org/wiki/The_Star_Thrower

Ein hugrenning um “Sagan af krossfiskunum …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s