Hvaða ofbeldi hefur þú beitt? ……

Ha ég? ….

Þessa spurningu fékk ég einu sinni þegar ég fór á námskeið um ofbeldi.  Auðvitað er það þannig að þegar við förum á námskeið um ofbeldi, förum við uppfull af sjálfsréttlætingu og þeirri hugmyndafræði að læra um ofbeldi annarra.

En ég er þakklát fyrir að þarna var vísað inn á við.

Hvaða ofbeldi hefur þú beitt?

Við höfum nefnilega öll beitt ofbeldi, þó það sé eflaust í mörgum tilfellum alls ekki meðvitað eða sýnilegt.  En ekki er betri músin sem læðist en sú sem stekkur.

Þetta ofbeldi birtist í því hvernig við umgöngumst annað fólk,  með látbragði, stjórnun o.s.frv. –  Það gerist iðulega þegar við höfum verið misrétti beitt og höfum ekki svarað fyrir okkur,  þá látum við þá sem eru „neðar“ í goggunarröðinni finna fyrir því.

Það er því hætta á að óánægðir foreldrar láti gremju sína bitna á börnum sínum,  jafnvel þó þeir vilji það ekki,  kunna þeir ekki eða geta ekki betur.

„Vaknið“ er orð sem er margítrekað í Biblíunni.  Það er alltaf verið að hvetja fólk til að sjá.  Eckhart Tolle og fleiri spekingar segja að „Awareness“ sé málið eða það að vera með meðvitund.

Það að „vakna“ og vera með meðvitund er sami hluturinn.

Vakna og opna augun,  ekki bara fyrir hinu ytra, öðru fólki og heiminum,  heldur ekki síður hinu innra,  sjálfum okkur og heiminum sem við í raun erum.  Hver og ein/n er sinn eigin „míní-cosmos.“

Börnin í 3. og 4. bekk grunnskólans á Hvanneyri fengu fyrirlestur og umræðustund um einelti sl. fimmtudag á sérstökum degi sem var frátekinn sem dagur gegn einelti. –  Þessi börn eru eins og önnur börn, – þau eru að stríða, skilja útundan,  hvísla um hin, hlæja þegar einhver fer að detta o.s.frv. –   Þegar umræðan hófst var búið að kveikja á öllum geislabaugum og enginn kannaðist við að vera gerandi,  en flestir könnuðust við að vera þolendur.

Enginn gerandi en fullt af þolendum,  gengur það upp?

Við leysum ekki eineltisvandann né ofbeldisvandann fyrr en hvert og eitt okkar lítur í eigin barm og íhugar hvar hans eða hennar ofbeldi (þó það sé aðeins „míní-ofbeldi“)  liggur.

„Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“

Við gætum sagt að það sé vandlifað,  ekkert megi nú gera o.s.frv. – og auðvitað verðum við að styrkja báða enda.  Það er að segja að opna augun líka fyrir því að þegar aðrir ráðast að okkur,  eða beita ofbeldi er það þeirra eigin vandi,  þeirra vanlíðan og vanmáttur eða vankunnátta sem er verið að tjá.

Til að sjá það og skilja þarf þroska.

Ég held það sé okkur öllum hollt að íhuga þessa spurningu, „hvaða ofbeldi hef ÉG beitt?“ ..   og þá til að læra af því og bæta sig en ekki til að fara í sjálfsásökun. –

Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.  (Gandhi)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s