Hvar ertu mamma? ..

Eftirfarandi frásögn er liður í minni sjálfshjálp í gegnum sorgina.  Eflaust þykir sumum þetta skrítið að skrifa svona, en ég veit að ég er ekki sú eina sem hefur þurft að horfa á eftir foreldri inn í algleymið þar sem líkaminn hefur starfað en persónuleikinn týndur,  eða að mestu leyti horfinn.

Mamma vissi á undan mér að ég var ófrísk að fyrsta barninu mínu.  Það var 20. desember 1980,  og ég var að halda upp á að útskrifast sem stúdent, –  ég fékk mér sopa af rauðvíni og fékk þá minn fyrsta brjótstsviða. –  Þá sagði mamma:

„Ég er nú búin að eiga fimm börn og veit hvað þetta þýðir“ ..

Mamma fór svo með prufu í apótek – og daginn eftir kom hún heim og sagði að svarið væri pósitíft.   Ég var svo græn að ég spurði: „Hvað þýðir það?“ –

„Það þýðir að þú ert ófrísk“ ..

Mér brá og fór að hágráta, gerði mér ekki alveg grein fyrir tilfinningunni, – hugsaði samt hvort ég væri tilbúin, en mjög fljótt sætti ég mig við það og var bara ánægð.  Það voru allir ánægðir.

Mamma var alltaf sú sem vissi allt fyrst,  og svo seinna þegar eitthvað stórt gerðist, eða bjátaði á þá var leitað til mömmu.

Mamma var ekkert allra – en mjög mikið fyrir börnin sín.  Ekkert skrítið, svona eftir á að hyggja að hún væri lokuð tilfinningalega,  miðað við það sem hún lenti í að verða 42 ára ekkja með fimm börn á aldrinum 8 mánaða til 12 ára.

Og þá var nú ekki mikið um áfallahjálp eða stuðning.   Bara skellt í lás og ekkert rætt.

En mamma missti manninn sinn og við systkinin pabba okkar,  og þess vegna varð mamma að vera bæði pabbi og mamma og líka þegar eitthvað dundi á þegar ég varð eldri,  var mamma sem fyrst kom í hugann að rabba við og fá ráð hjá. –

Það eru mörg ár síðan mamma greindist með vascular dementia,  eða heilabilun.  Núna er hún næstum alveg horfin andlega,  og við Lotta systir fórum til hennar áðan og ræddum að það væri ekki mikið eftir af henni.  Það er skrítin þessi sorg að eiga lifandi foreldri sem er samt svona breytt og farið andlega.

Aldrei hafði ég þó fundið eins kalt fyrir þessu eins og eftir að ég kom heim eftir dauða Evu Lindar,  en hún varð einmitt þetta barn sem kom út úr pósitívu prufunni sem mamma hafði farið með í apótekið þegar ég var aðeins 19 ára gömul. –   Það liðu margir dagar þar til ég treysti mér í heimsóknina á Droplaugarstaði,  en svo lét ég verða af því og í ganginum niðri þyrmdi yfir mig, hvað myndi ég segja við mömmu? –

Ég ákvað að segja ekki neitt.

Hún spurði samt:

„Er ekki allt í lagi með alla“ ..  (sem var óvenjuleg spurning miðað við hennar ástand).

Ég svaraði bara „jú“

.. því það var mér ofviða að segja henni frá vitandi að hún myndi ekki skilja það sem ég segði.

Hvar ertu mamma? .. 227909_10150172785555382_4425089_n

9 hugrenningar um “Hvar ertu mamma? ..

 1. Þakka þér fyrir þessa frásögn, það er ekkert skrítið að skrifa svona. Einlæg frásögn af upplifunum hjálpar alltaf þeim sem les, annað sjónarhorn, aðrar persónur, ýmis viðbrögð, en alltaf sömu tilfinningarnar, að missa eitthvað sem er manni svo dýrmætt, missa eitthvað sem mótaði mann sem persónu, gaf manni minningar, gaf manni sögu. Á endanum verðum við öll í þessari stöðu, að skilja eftir minningar um hvernig maður lifði, hvað maður sagði og hvernig maður dó. Mig langar að drekka í mig frásagnir þeirra sem ég er samferða og vona að daglegt amstur geri það ekki að verkum að ég missi af því. Takk fyrir þína frásögn.

 2. Þú hvarfst
  þér sjálfum og okkur
  hvarfst
  inn í höfuð þitt
  dyr eftir dyr luktust
  og gátu ei opnast á ný
  þú leiðst
  hægt á brott
  gegnum opnar bakdyr
  bústaður sálarinnar
  sál þín er frjáls
  límkami þinn hlekkjaður
  við líf
  sem ekki er hægt að lifa
  þú horfir framhjá mér
  tómum augum
  engin fortíð
  engin framtíð
  engin nútíð
  við fegnum aldrei að kveðjast.

  Tove Findal Bengtsson
  snúið úr dönsku af Reyni Gunnlaugssyni

 3. …Þakka þér fyrir að deila þessu með okkur. Það má segja að frásögnin taki á allan tilfinningarskalann?

 4. Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s