Nú gætu margir orðið argir. – Ha, viðheldur einhver ofbeldishegðun? ..
Það gera þeir sem eru meðvirkir, eða a.m.k. sumir hverjir.
„Enabler“ er það kallað á ensku – sá sem auðveldar – viðheldur – „meðvirkill“ ? …
Ef að fíkill/ofbeldismaður eða hvort tveggja og meðvirkill lenda saman (yfirleitt eru reyndar báðir meðvirkir sem lenda saman, svona til að flækja málin) þá eru samskiptin vond.
Slæma hegðunin eða siðirnir eru í raun „studd“ af þeim sem er meðvirkur eða „enabler“ ..
Það er ekki beint hægt að kenna hinum meðvirka um hegðun hins, en hegðunin er studd af honum, eða leyfð, því hún hefur engar afleiðingar fyrir þann sem er fíkill eða beitir ofbeldi. Honum eru ekki sett mörk og hann kemst upp með hegðunina – ítrekað.
Lögmál orsaka og afleiðinga er brotið.
Þetta er m.a. skýringin á því að einhver fer ítrekað í samband þar sem hún/hann verður fyrir ofbeldi – vegna eigin meðvirknihegðunar – ofbeldið er hreinlega stutt ef ofbeldismanninum eru ekki sett mörk, eða hann upplifir engar afleiðingar.
Oft er sjálfmynd þess sem verður fyrir ofbeldinu það brengluð brotin að honum/henni þykir að hann/hún eigi ofbeldið skilið ..
Stundum talað um sjálfspíslarhvöt, eða að viðkomandi sæki í það að vera fórnarlamb, jafnvel til að fá athygli eða vorkunn frá umhverfinu.
Já – ég veit að ég tek djúpt í árinni, en ég held það þurfi til að við áttum okkur á því að sem fullorðnar manneskjur berum við ábyrgð á eigin hegðun.
Nema að við séum þess veikari og þurfi að svipta okkur ábyrgð.
Það er því lífsspursmál að taka ábyrgð á sjálfum/sjálfri sér og leita sér hjálpar eða forða sér úr sambandi þar sem ofbeldi, niðurlæging, skömm, alkóhólismi eða hvað sem er óhollt er ríkjandi.
Það skal líka tekið fram að ekki skal dæma hinn meðvirka eða „viðhaldarann/auðveldarann“ – aðalmálið er að vakna til meðvitundar um sjálfa/n sig, spyrja sig hvað við eigum skilið – en allar manneskjur eiga gott eitt skilið.
Á meðan einhverjum þykir hann/eða hún ekki eiga gott skilið og jafnvel skilið sambúð í ofbeldi er hún/hann veik/ur. Það er eins og að samþykkja að drekka ógeðisdrykk.
Það að viðurkenna veikleika sinn, vanmátt sinn er í raun fyrsta skrefið í að verða sterk/ur og taka ábyrgð – það er hugrekki að játa að við ráðum ekki við eitthvað, og það er hugrekki að leita að hjálp við því. – Um leið er það skref í átt að bættri sjálfsvirðingu að samþykkja ekki ákveðna hegðun og játa að sumt er okkur alls ekki bjóðandi.
Ekki gera ofbeldismanninum auðvelt fyrir og „leyfa“ honum ítrekað og án afleiðinga að meiða þig, ekki gera alkóhólistanum auðvelt fyrir að stunda sína drykkju með því að þrífa upp eftir hann eða ljúga fyrir hann.
Sambönd eru aldrei alveg „svart/hvítt“ einn góður aðili og einn vondur, báðir aðilar geta upplifað ofbeldi af hendi hins, báðir aðilar geta litið á sig sem fórnarlömb hins og báðir geta haft rétt fyrir sér! ..
Taktu ábyrgð á eigin lífi. Það gerir það enginn annar fyrir þig, en það krefst kjarks og vilja til að breyta.
„Aðaleinkenni meðvirks fólks er að því finnst það bera sjúklega ábyrgð á hegðun, hugsunarhætti og tilfinningum fullorðinnar manneskju. Þá er óumflýjanlegt að illa fari. Afleiðingarnar eru vanræksla á sjálfum sér, reiði, kvíði, sektarkennd og örvænting.
Við þekkjum það eflaust flest, að sá/sú sem lifir í vanlíðan getur lítið gefið, og fer jafnvel út í það að meiða eða beita ofbeldi – það þarf ekki að vera meðvitað, en stundum langar okkur að meiða og særa ef við erum meidd.
Eitt lítið dæmi um „dulið“ ofbeldi í sambandi – er þegar par eru sífellt að gera lítið úr eða hæðast að hvort öðru jafnvel fyrir framan aðra, eða upphefja sig á kostnað maka síns. Stundum fer hið „góðlátlega“ grín út fyrir mörkin og er ekki lengur góðlátlegt – heldur grátlegt og særandi. Þá er að opna munninn í staðinn fyrir að sitja uppi með gremjuna og segja: „Ég upplifi særindi þegar þú grínast með þessa hluti“ – og ef að viðkomandi tekur ekki mark á þér eða heldur áfram gríninu, virðir ekki orð þín – hvað gerir þú þá? ..
Munum líka að börnin læra það sem fyrir þeim er haft, þau læra samskiptin af foreldrunum.
Sýnum því sjálfum okkur virðingu og sýnum náunganum virðingu.
Það gerum við m.a. með því að segja „hingað og ekki lengra“ – setja eðlileg mörk og hætta að styðja ofbeldishegðun eða vonda siði.
„Bendi á http://www.coda.is og http://www.lausnin.is