Játning – og rauður kjóll …

Ég sé svo oft að fólk er að játa ýmislegt – hvernig því hefur liðið, hvernig það hefur hugsað og oft höldum við að við séum þau einu í heiminum sem hugsum eða framkvæmum eitthvað sem í daglegu tali er talið „kjánalegt“ .. eða kannski svolítið „heimskulegt?“ ..  

Sumir játa aldrei þeir horfi á Júróvisjón – en hafa samt lúmskt gaman af, þó ekki sé nema stemmingunni sem myndast í kringum það.

Játningin mín felst í fatakaupum þetta árið.

Síðasta ár var ég svo blönk og um leið svo óþurfandi fyrir fatnað að ég keypti mér ekki snitti á sjálfa mig.  Ekki skó og ekki föt, – jú, sokkabuxur minnir mig að ég hafi keypt.  Held ég sé örugglega ekki að fara með rangt mál.

En hvað um það – ég sagði frá því hér í pistlunum mínum hvernig dótturdóttir mín þriggja ára valdi rauða úlpu á ömmu sína í janúar og amma hafði gott af því að vera i rauðu. 

Sú stutta hafði áður spurt: „amma kan du godt lide sort?“ ..  enda var ég svartklædd frá toppi til táar.

Fyrsti kjóll ársins var þó svartur –  keyptur á Kastrupflugvelli, en það var kjóllinn sem ég notaði í útför dóttur minnar.  – Hann smellpassaði og ég átti akkúrat mátulega margar danskar krónur fyrir honum í veskinu mínu, upp á aur! ..

En nú kemur játningin. 

Ég keypti mér hárauðan,  næstum neonrauðan kjól í vikunni, – og ætla að nota hann í kvöld í Borgarnesi – þar sem ég flyt fyrirlestur á vegum Símenntunar Vesturlands um „Betra líf“  en það er sá sami og ég er búin að flytja í Búðardal og á Grundarfirði. –  Að vísu verður hann aldrei alveg „sá sami“  því að áheyrendur móta líka hvernig fyrirlesturinn verður.  Það er sameiginlegur andi sem myndast milli mín og áheyrenda og/eða þátttakenda.

Kjóllinn verður s.s. frumsýndur! .. og með „Betra Líf“ Páls Óskars í bakgrunni. – 

Innblásturinn af því að kaupa kjólinn var myndin „Love is all you need“ en það var ein af „yndlingsfilmer“ hjá Evu minni sem fór að sjá hana tvisvar í bíó og þar var leikkonan Susanne Bier í þessum fallega rauða kjól, að vísu mun dekkri en mínum.  Þar leikur hún konu sem hefur misst hárið og annað brjóstið eftir krabbameinsmeðferð og þó að minn missir sé ekki sýnilegur utan á mér,  þá er það svolítið svoleiðis að missa barnið sitt.

En eins og ég hef margítrekað ætla ég ekki að hætta að njóta lífsins, eða þess sem er í boði.  Árið mitt verður „Rautt“  en ekki „Svart“ ..

Ég er ekki hrædd við það sem koma skal og ég fer inn í 2013 sterkari en nokkurn tímann. – 

Þeir sem þekkja til skíðamennsku í ölpunum vita að brekkurnar eru merktar bláar – rauðar og svartar.   Svartar eru þær erfiðustu og bröttustu.

Til að fara svartar brekkur þarf að hafa líkamlegan styrk, tækni og ekki síst andlegan styrk.   Þó að líkamlegi styrkurinn og tæknin séu til staðar – þá er vonlaust að fara logandi hrædd/ur í brekkuna.   Sumir taka þá bara skíðin af sér og skríða niður eða snúa við.

Ég fer svörtu brekkuna í rauða kjólnum! .. 😉

Hugrekki er það sem ég tileinka mér núna,  – já, já – það eru alls konar andleg áföll að koma,  erfiðleikar koma,  en vonandi er ég og mín fjölskylda búin með skammtinn í bili – „come what may“ .. 

Ég tek á móti því í rauða kjólnum,  en rautt er litur heilags anda og ég leyfi honum að hjálpa mér við að brjótast undan þungri og stundum kæfandi skel sorgarinnar. heart-of-stone-default

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s