„I release any feelings of competition or comparison.
I simply do my best
and enjoy being me.“
Louise L. Hay
Samkeppni hefur í raun ekkert með „sam“ að gera, hún vinnur miklu meira að aðgreiningu eða sundrungu. Einn vinnur og annar tapar. Þar ríkir ekki sam-kennd og þar er oft erfitt að sam-gleðjast, nema að sá sem tapi sé þess þroskaðri og taki keppnina ekki of alvarlega. (það er sjaldgæft)
Samanburður er að sama skapi – „er ég betri eða verri en hinn?“ ..
Þessi orð Loise L. Hay um að losa sig við tilfinningar tengdar samkeppni og samanburði og að gera sitt besta og njóta að vera hún ráku á fésbókarfjörur mínar í morgun.
Oft hindrar samanburðurinn og samkeppnin við aðra okkur í að framkvæma eða hreinlega í því að njóta þess að vera við sjálf.
Fallegasta og besta útgáfan af okkur sjálfum.
Okkur finnst ekki taka því að fara á Esjuna, það tæki okkur 2-3 tíma að komast upp að steini, þegar aðrir hlaupa þetta á fjörutíu mínútum. En ef við vildum virkilega fara að byggja upp þrek með því að ganga á Esjuna, myndum við þurfa að taka fyrsta skrefið og svo hægt og rólega bæta okkar eigin tíma. Það er okkar sigur, – og þá skiptir engu máli hvað hinir eru að gera.
Sigrarnir okkar eru fyrst og fremst á okkur sjálfum.
Það getur verið meiri sigur fyrir Siggu að geta tjáð sig á starfsmannafundinum, en fyrir Lóu að tala fyrir framan fimmhundruð, vegna þess að þægindahringurinn er misþröngur.
Að sama skapi getur það verið meiri sigur fyrir Óla að stíga upp úr sófanum og ganga hringinn í kringum blokkina, en fyrir Bjarna að hlaupa fimm kílómetra.
Ekki nota óréttlátan samanburð því hann er heftandi, – foreldrar nota stundum samanburð og segja við börnin sín, „sjáðu Gulla, hann er í tónlist, íþróttum og svo toppar hann í skólanum, – af hverju ert þú ekki svoleiðis?“ .. Hvaða hugsanir vekur þetta hjá barninu?
„Já, ég ætla sko að verða eins og Gulli!!“ ..
eða
„Oh, ég verð aldrei eins klár/góður og Gulli“ ..
Þetta virkar því miður ekki uppbyggjandi heldur akkúrat öfugt – barnið fær þau skilaboð að það sé „lúser“ .. ekki nógu gott og standist aldrei samanburð. Hugsar jafnvel í framhaldi að mamma eða pabbi myndi vilja eiga öðruvís barn og það sem er verst að það sé jafnvel ekki elskað, vegna þess að við leitum oft að samþykki foreldra í gegnum hversu dugleg við erum eða hvað við gerum. –
Börn verða að fá að heyra það og finna frá foreldrum að þau séu elskuð skilyrðislaust – þ.e.a.s. án verkanna. Það getur verið vitamínsprautan sem vantar til að þau fari í gang, eins undarlega og það hljómar. –
Á meðan þau telja sig aldrei nógu góð, aldrei gera nógu vel – þá er hættan að þau hreinlega sleppi að gera nokkurn hlut.
Förum varlega í samkeppni og samanburð, – það er vont að festast í „lúsergírnum“ því hann er eins og hlutlausi gírinn – jafnvel bakkgír.
„Stuck in reverse“ eins og segir í Coldplay laginu.
Við getum aðeins verið besta útgáfan af okkur sjálfum – meira er ekki hægt að ætlast til og látum ekki reyna að troða okkur í mót sem passar okkur ekki.
Í lokin
Anda djúpt – inn og út – hugsa …. „mikið er ég yndisleg manneskja“ ……
Úje ..