Þrír konfektkassar borðaðir í meðvitundarleysi …

Í fríhöfninni var tilboð á konfekti, þrír fyrir einn og ég taldi það upplagt að kaupa þrjá kassa og ég gæti gefið þá í jólagjafir.

Ég lá í mjúka græna sófanum mínum og horfði á einhverja Disney föstudagsmynd og vorkenndi mér að vera ein,  ég var einmana og taldi að allir aðrir væru að hafa það kósý heima, pör sætu hönd í hönd o.s.frv. – heilinn virkar bara stundum þannig.

Ég átti a.m.k. svolítið bágt (að eigin mati).

Ég gekk eins og í leiðslu inn í eldhús og skimaði eftir einhverju sætu að borða,  ég passaði mig að kaupa ekki kex eða sælgæti því að ég vissi að það færi bara ofan í mig, síðan á rass, maga og læri  og ég yrði óánægð með mig.  Svo var víst talað um að sykur væri eitur og heilinn færi í þoku við þetta,  eða eitthvað svoleiðis.

En hvað um það,  þegar svo kom að því að  ég ætlaði að grípa í konfektkassana þrjá fyrir jólin voru þeir allir tómir uppí skáp.

Ég hafði sem sagt „læðst“ í einn þeirra – ákveðið að fórna honum,  „ég átti það svo skilið“ en einhvern veginn enduðu þeir allir tómir.

Á námskeiði haustið 2010 sá ég fyrst bókina „Women, Food and God“ – og svo hoppaði hún í fangið á mér einhverju síðar.  Þar segir Geneen Roth frá reynslu sinni,  hvernig m.a. hún fyllir í tómu tilfinningapokana með mat,  hvernig hún reyndi m.a. „svarta kúrinn“ til að grennast en hann var „sígarettur, kók og kaffi“ og það tókst – jú hún varð grönn, en auðvitað hvorki heilbrigð né hamingjusöm,  en hún var að leita eftir báðu.   Hún segir frá „Röddinni“  sem glymur inní okkur sem segir að við séum aldrei nógu góð,  hver við þykjumst vera og þar fram eftir götunum.  Hún segir frá ferðalaginu frá okkur og mikilvægi þess að lifa „í okkur sjálfum“.. sem er í anda þess að það að þekkja Guð er að þekkja sjálfa sig.   Hún segir auðvitað margt, margt fleira – og hvernig hún,  með því að ná sátt við sjálfa sig og búa til nýja vana „habit“  sem fólst í því m.a. að borða m. meðvitund náði hún því að vera í sinni „náttúrulegu“ þyngd,  auk þess að hún hætti að vega sig og meta skv. útliti og tölum á vigt.

Þegar ég lokaði þessari bók var eins og ég hefði verið frelsuð,  – frelsuð frá kúrum, frelsuð frá því að skoða hamingju mína út frá tölum á vigt,  og það var dásamlegt.

Ég var mjög grönn sem barn og unglingur,  of grönn og þurfti aldrei að hafa áhyggjur af mataræði, helst að ég reyndi að bæta á mig ef eitthvað var.

Ég man í rauninni ekkert hvenær ég fór að fitna,  ég eignaðist barn 19 ára gömul og kom í þröngu buxunum mínum heim af fæðingardeildinni svo ekki var það þá.

Ég bætti einhverju á mig milli tvítugs og þrítugs – var alltaf grönn en þar byrjaði ég að upplifa það að vera „feit“ – og ekki nógu „flott“ ..  það byrjaði einhver ósátt,  ekki nógu grannt mitti,  ég vildi vera „fullkomin.“ ..

Það voru ytri aðstæður,  erfiðleikar í sambandi, og kannski bara einhver ófullnægja í sjálfri mér sem olli því að ég fór að hugga mig með mat.  Mér þótti alltaf gott að borða en var alltaf, já ég meina alltaf að tala um megrun og að grenna mig.

Ég byrjaði ung að fara í  kúra og „átak“ og þau hafa verið svo mörg sl. 30 ár  (eða þar til ég frelsaðist)  að ég hef ekki tölu á þeim.   Ég las alls konar ráð,  ég tók losandi til að léttast og var meira að segja ánægð ef ég fékk ælupest því þá léttist ég.   Ég náði þó aldrei að fara út í anorexíu eða búlemíu þó að ég hafi verið á jaðrinum.

Ég var haldin þeirri hugmynd að verðmæti mitt fælist í því hvernig ég liti út.   Hversu grönn ég væri.

Þegar ég var unglingur sagði vinkona mín við mig að hún vildi hafa útlit annarrar vinkonu okkar og persónuleikann minn.   Ég móðgaðist.  – Já,  ég var niðurbrotin.  Ég gat ekki verið ánægð með hrósið.  Það sem ég heyrði bara „Þú ert ekki falleg“…  Sjálfstraustið,  hjá þó þessari ungu konu með sterka persónuleikann var ekki meira en það.

Ég var í jójó – megrun í tuga ára.  Það rokkaði upp og niður um einhver kíló.   Geneen Roth segir frá því að hún hafi misst hundruði kílóa í gegnum æfina,  það hef ég líka gert.  Það vita flestir sem hafa reynt megranir – að þegar aftur bætist á bætist meira við en þegar leiðangur hófst,  og þá líður manni eins og að falla í prófi,  eins og fallista.

Síðan ég las „Women, Food and God“  hef ég bætt heilmiklu lesefni og fróðleik  við,  því að sú hugmyndafræði dugar ekki ein og sér.   Ég hef lesið mikið og kynnt mér í sambandi við meðvirkni,  í sambandi við skömm og berskjöldun,  o.fl. o.fl.

Ég hef beint orkunni í að skoða orsakir þess að ég borða þegar ég vil ekki borða.  Hlustað á tilfinningarnar og skilið hvar ég lærði að hugga mig með mat.  Það lærum við að vísu flest í uppeldinu,  það er þessi oral huggun sem kannski byrjar með snuði,  sumir sjúga sígarettur og vindla,  aðrir setja stútinn í munninn og svo er það maturinn eða sælgætið.

Það er bæði þessi huggun og svo hjá sumum er það „fixið“ – því auðvitað líður manni öðruvísi í líkamanum þegar efni eru sett í hann.

Það er skammgóður vermir að missa piss í skóna,  og þessi „huggun“ er álíka því að svo fer pissið að lykta og gerir manni vont.

Ég vildi miðla reynslu minni og uppgötvunum frá Geneen Roth,  og tengja það við grunnmódelið um meðvirkni,  en þá er það líka spurningin „Af hverju?“

„Af hverju geri ég ekki það sem ég vil gera?“ ..

Ég fann gífurlega góðan fyrirlestur frá frönskum sálfræðingi sem heitir Sophie Chiche sem fjallar um nákvæmlega þetta.   Hún talar um „svarthol“ sem við lendum ofan í,  á miðri leið og við snúum við, gefumst upp.

Hún segir að það sem stoppi okkur sé m.a. að við gerum annað fólk að „Guði skoðana okkar“ –  Við teljum okkur ekki eiga skilið að ná árangri (röddin) –  o.fl.

En það sem hún vekur einnig athygli á er „You have to see your pain to change“.. þ.e.a.s. þú verður að sjá sársauka þinn til að breyta.

Sophie missti tugi kílóa og var spurð hvað hún hefði eiginlega gert,  hún svaraði „ég gerði ekkert,  ég bara breytti tilveru minni“ –  eða „I shifted my state of Being“ ..

Hún segir líka frá því að hún hafi verið alin upp við að vera boðið „Nutella“ þegar henni leið illa.

Ég þekki þetta af eigin raun – að borða ofan í tilfinningarnar mínar,  þetta hömluleysi og að verða ekki södd, hversu mikið sem ég borða.   Að gleypa í mig og gleyma að ég hafi verið að borða og njóta þannig ekki matarins.  Að aka í hamborgarabúllu og kaupa hamborgara og franskar þegar ég mætti óréttlæti og deyfði mig þannig með mat í staðinn fyrir að upplifa tilfinningar sem ég þurfti í raun að upplifa.

Ef ég færi eftir leiðarljósum Geneen Roth,  þá myndi ég auðvitað ekki gera það því að eitt af hennar sjö leiðarljósum eða nýjum siðum er að borða alltaf við borð.

Hún og Paul McKenna hafa líka þá sameiginlegu reglu að njóta matarins.  Það að njóta þýðir ekki át eins og þegar við liggjum afvelta á aðfangadagskvöld,  heldur að borða með vitund,  ekki í meðvitundarleysi.   Finna ilminn,  borða hægt,  skynja matinn og já .. njóta.

Hvernig við borðum er í raun ein birtingarmynd af því hvernig við lifum.  Við getum „gleypt“ í okkur heiminn án þess að njóta eða taka eftir því sem við erum að gera. –

Við getum keyrt hringveginn án þess að virða fyrir okkur fjöllin og sólarlagið.  Við erum jú búin að fara hringinn,  en hvað stendur eftir? –

Það er margt í mörgu og líka þessum fræðum.

Ég segi að allir þurfi að taka ákvörðun,  ef þú ætlar að fá þér marengskökusneið ekki borða hana með samviskubiti.

Ekki hugsa við hvern munnbita „ég á ekki að vera að þessu“ –  því þá hleður þú ekki bara á mjaðmirnar, rassinn eða lærinn – heldur hleður þú skömm inn á þig yfir því að ráða ekki við þig,  þú ert farin/n að gera það sem þú vilt ekki gera.

Skömminn er þung að bera og oft þyngri en nokkur kíló.

En til að fara að stytta mál mitt.

Við borðum ekki öll yfir okkur eða of mikið af sömu ástæðum,  en matur og tilfinningar er mjög tengt.   Sumir verða fíklar í mat – og spurningin er þá hvort hún er einungis líffræðilegs eðlis eða líka félagsleg eða andleg? –   Ég held að í mörgum tilfellum sé það bæði.

Ég veit það að þegar ég er í jafnvægi – og lifi í æðruleysi hef ég minni þörf fyrir hið ytra.  Ég er fullnægð,  hef nóg og er nóg.  Ég nýt þess að borða og hætti þegar ég er ekki svöng lengur.   Eftir því sem mér líður betur með mig,  er sáttari við mig og elska mig meira og geri hlutina af því ÉG vil það ekki vegna þess að til þess er ætlast af mér,  eða til að fylla inn í staðla.

Ég hvet líka til þess að fara út að ganga á réttum forsendum, ekki vegna þess að ég Á að fara út eða VERÐ að fara út,  heldur vegna þess að ég elska mig svo mikið og langar að gera mér gott og fá ferskt loft og NJÓTA útiveru. –  Auðvitað þurfum við stundum svolítinn aga til að byrja nýja siði,  að breyta úr gömlum vana yfir í nýjan vana,  en yndislegt ef sá nýi gerir okkur gott.

Markmiðið mitt með námskeiðunum mínum: er m.a.  „heilsa óháð holdarfari“ (Anna Ragna)   og „sjálfstraust óháð llíkamsþyngd“  (Sigga Lund)  .. að fara að njóta matar (lífsins)  (Geneen Roth og Paul McKenna)  Sjá hvað veldur þér sársauka (Sophie Chiche og meðvirknimódelið)  Hreinsa út skömm (Brené Brown).

Hamingjustuðullinn skal upp 😉 ..  hamingjusamari þú:  þarft minna af hinu ytra og lifir í sátt og öðlast innró ró og lífsfyllingu og þarft því ekki lengur að fylla á „tómið“ þegar það er ekki tómt lengur.  Það er fullt af lífi, gleði, ró, ást og trausti .. til þín. 

Námskeiðið „Í kjörþyngd með kærleika“  varð til upp úr þessu öllu saman, –  þar tengi ég saman menntun mína,  þekkingu á meðvirkni og eigin lífsreynslu.   Ég létti engan, ég breyti engum,  það er í höndum þeirra sem taka þátt og stundum er þetta námskeið aðeins fyrsta skrefið að breyttu hugarfari,  sumar hafa náð hugmyndafræðinni og haldið áfram – og ég hef fengið meldingar eins og að þær hafi náð „draumavigtinni“  eða þarna hafi þær áttað sig á því hvað þær raunverulega vildu.  Þetta byggist á þátttakandanum að opna fyrir og vera tilbúin að henda af sér gömlu hugsununum – þessum útrunnu eins og „ég get ekki“ – „ég á ekki allt gott skilið“  „mér mistekst“  o.s.frv. –   Í þessari vinnu eins og allri vinnu þar sem við erum að breyta þurfum við að aflæra og læra upp á nýtt.   Ýta á delete og setja inn nýjan hugbúnað.   Eða eins og Sophie Chiche sagði „I shifted my state of being“ ..

Besta leiðin við að ýta á „delete“ er að tjá sig um tilfinningar sínar,  fá útrás og ekki bæla inni eitt né neitt.  Það er gert í trúnaði og kærleika.

Við verðum líka að vera raunsæ og þekkja okkur, – ef við VITUM að einn súkkulaðimoli veldur því að það verða margir á eftir,  þá verðum við að skera súkkulaði út af okkar lista.  Því sá matur sem við getum engan veginn borðað með meðvitund verður að fara út af okkar matseðli,  alveg eins og áfengissjúklingur tekur alkóhól út af sínum lista.

Nýtt námskeið „Í kjörþyngd með kærleika“  er að hefjast á laugardag kl. 13:00 sjá http://www.lausnin.is  og enn er hægt að skrá sig.

„Mæli með þessu námskeiði. Það gerði mér ótrúlega gott og er stór varða á lífsleið minni :)“ Ólöf María Brynjarsdóttir.

Kannski er svona námskeið aldrei annað en varða á lífsleið,  en hvað er betra en varða þegar maður er svolítið áttavilltur?  Munum líka að fíkn er flótti, hvað ertu að flýja?

Meira lesefni þessu tengt – http://www.elskamig.wordpress.com

21-the-world

Þykir þér vænt um heiminn? –  Hvað viltu gera til að vernda hann? – Myndir þú hella eiturefnum í jörðina? –  Ertu umhverfisverndarsinni? –   Hvað ef að þú værir heimurinn,  myndir þú hugsa betur um þig?

Þú ert heimurinn. 

Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.

Ein hugrenning um “Þrír konfektkassar borðaðir í meðvitundarleysi …

  1. Bakvísun: Mest lesið á árinu 2013 | johannamagnusdottir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s